Hættuleg heimilisstörf

Á hverjum einasta degi leggur stór hluti landsmanna sig í stórhættu við að stunda heimilisstörf.  Í sumum tilfellum er hættan augljós og þar af leiðandi er búið að vara fólk við henni, hanna leiðbeiningar, jafnvel kynna þær í fjölmiðlum svo sem eins og að slökkva á kertum áður en fólk fer að sofa svo ekki kvikni í á heimilum fyrir jólin eða að kanna hitastig á heitu vatni áður en börnin eru sett í bað.  Sem betur fer eru flestir meðvitaðir um algengar hættur á heimilum og gera sitt besta til að verjast óhöppum. Í öðrum tilfellum er hættan ekki eins augljós, eins og ég hef reynt á eigin skinni.

Eitt af því sem getur verið stórhættulegt eru farartálmar hvers konar á heimilinu.  Þeir geta verið af fjölbreyttum toga, legókubbar í gangvegi, fatahrúgur á óvenjulegum stöðum (þótt foreldrar unglinga nái fljótt ótrúlegri færni við að sneiða hjá eða klöngrast yfir slíkar hrúgur, kannski þúfnagangurinn gamli sé bundinn í erfðamengi Íslendinga?), töskur eða pokar sem hafa dagað uppi úti á miðju gólfi af einhverjum ástæðum eða jafnvel fótalaust skótau sem virðist hafa komist drjúga vegalengd af sjálfsdáðum.  Ég hef einmitt lent í svona farartálmum nýelga og tel það skyldu mína að miðla þeirri reynslu minni áfram, öðrum til varnaðar.  Í fyrra tilfellinu var farartálminn eiginmaðurinn sem óvænt birtist í eldhúsinu um það leyti sem ég ætlaði að fara út úr eldhúsinu.  Nú er eldhúsið frekar lítið og eiginmaðurinn af hávaxnari gerðinni og ég komin á þó nokkra ferð þannig að mér gafst tiltölulega skammur tími til umhugsunar.  Í snarheitum komst ég að þeirri niðurstöðu, þar sem ég er að eigin mati bæði sporlétt og spengileg, að ég gæti hreinlega stutt mig léttilega við eiginmanninn og náð þokkafullri danssveiflu framhjá honum.  Til að auka enn frekar á þokkann sá ég í hendi mér að ég gæti tekið eins konar pírúett og snúið mér í hálfhring á öðrum fæti um leið og ég svifi hjá.  Í upphafi virtist sem áætlun mín gengi fullkomlega upp en eftir á að hyggja er ljóst að ég þarf eitthvað að endurskoða val mitt á sokkum.  Um leið og ég reis upp tábergið á öðrum fæti, tyllti annarri hendinni léttilega á öxl eiginmannsins og hóf þokkafullan snúninginn rann ég til á gólfinu enda lítið sem ekkert grip í sokkunum.  Við það fataðist mér flugið, í stað þess að styðja léttilega við öxlina á eiginmanninum reyndi ég að grípa í hann traustataki en náði því miður ekki nægilega haldgóðu gripi.  Allan tímann sem það tók mig að lenda á eldhúsgólfinu, nokkuð harkalega, var ég full vantrúar, ég trúði því alls ekki að þokkafulli svifsnúningurinn minn færi svona illa.  Jafnframt er mér minnisstæður undrunarsvipurinn á eiginmanninum sem virtist ekki trúa því að hann næði alls ekki að forða þessu falli.  Að sögn nærstaddra sjónarvotta tók þessi æfing í eldhúsinu ekki nema nokkrar sekúndur en í mínum huga leið heil eilífð frá því ég uppgötvaði farartálmann í eldhúsinu þar til ég lá í gólfinu og vesalings eiginmaðurinn stumraði yfir mér með skelfingarsvip, dauðhræddur um að ég hefði orðið fyrir varanlegum skaða.  Sem betur fer er nú seigt í mér og verstu marblettirnir voru af andlegu gerðinni. 

Seinna tilfellið var öllu alvarlegra.  Einhverjir kunna að halda því fram að eitt hættuminnsta verkefnið á hverju heimili sé að brjóta saman þvott og það kann vel að vera rétt.  Á mínu heimili er það þannig að þvottur sem berst inn í þvottahúsið er þveginn, hengdur til þerris og brotinn saman áður en honum er skilað inn í viðeigandi skápa.  Þetta kann að hljóma sem mjög hátt þjónustustig og er það vissulega en er þó vinnusparandi því þvottur sem ekki er settur inn í skápa þegar hann er orðinn hreinn á það til að enda í áðurnenfdum fatahrúgum á óvenjulegum stöðum, jafnvel hreinn og samanbrotinn og ratar því jafnvel fyrr aftur í þvott en í notkun.  Mér finnst í raun mjög skemmtilegt að brjóta saman þvott, hlusta gjarnan á eitthvað skemmtilegt í útvarpinu og syng hátt með fjörugum lögum ef ég er í stuði.  Þannig var það einmitt um daginn þegar ég var nýbúin að brjóta saman bílfarma af þvotti og arkaði með fangið fullt af þvotti í áttina að viðeigandi skápum þegar illa innrættur stóll stökk í veg fyrir mig og réðist á miðtána á vinstri fæti.  Þvílíkur sársauki.  Ég haltraði með þvottinn og raðaði honum í skápana og settist svo niður til að kanna meiðslin.  Táin, sem áður hafði verið frekar mjónuleg og í venjulegum húðlit, leit út eins og meðalstór ljósapera, hárauð á litinn.  Ég þreifaði aðeins á henni og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri sennilega brotin.  Ég hef líka heyrt að þegar fólk tábrotni geri læknar lítið sem ekkert í málinu, helst að táin sé teipuð við næstu tá við hliðina til stuðnings þannig að ég ákvað að vera ekkert að trufla lækni með þessu lítilræði.  Um kvöldið fór ég að sofa en vaknaði um miðja nótt við það að táin virtist halda að hún væri blikkpera í jólaljósaseríu, að minnsta kosti benti æðaslátturinn í henni til þess.  Þannig gekk þetta nokkrar nætur auk þess sem það reyndist frekar sársaukafullt að keyra beinskiptan bíl, táin lét alveg vita af sér.  Annað sem kom á óvart í þessum távandræðum var hversu litríkur afraksturinn var.  Í upphafi var rauður litur ríkjandi en eftir nokkra daga kom fram djúpfjólublár litur sem entist í ríflega tvær vikur.  Þá tók við gulur litur enda komið fram undir páska.  Nú þegar komið er að sumri er táin smám saman að ná eðlilegum lit og vonandi verður hún klár fyrir sólarsandalana í maí. 

Í ljósi þessara óhappa við heimilisstörfin hef ég gert ákveðnar breytingar á þjónustustigi heimilisins.  Hver og einn þarf að taka sinn hreina og samanbrotna þvott og raða honum í eigin skápa og eiginmaðurinn þarf að gæta þess að fara eftir viðurkenndum umferðarreglum í eldhúsinu.  Jafnframt hef ég keypt mér nýja sokka með gúmmísólum.

Á myndinni sem fylgir greininni má sjá dæmi um hættulegt heimilsstarfs þ.e.a.s. að þrífa ísskápinn.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og fyrrverandi tádansari

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur