Gengið á vatni

Við hjónin skelltum okkur í vikufrí á dögunum og dvöldum fyrir norðan hníf og gaffal eins og sagt er í fjölskyldunni eða í Aðalvík á Hornströndum. Þetta var alvörufrí án tölvupósts og símasambands og einungis kveikt á útvarpinu til að heyra fréttir og veðurfréttir. Á svona stað verða hversdagslegir hlutir fréttnæmir. Náið er fylgst með því hverjir eru að koma eða fara með bátnum og á hverjum morgni keppast menn í alvörunni um að vera fyrstir að flagga við húsin sín. Tófan snuðrar við hvert hús og fer rúntinn á hverjum degi, kannar hvort einhvers staðar leynist matarbiti og kvartar hástöfum ef það klikkar. Ferðalag á svona stað krefst þess að maður hafi allan kost með sér því það er ekki hægt að skjótast út í búð eftir því sem vantar.

Fátt er nú rómantískara á björtum sumardegi en að fara í göngu í náttúrunni með eiginmanninum sínum og vorum við búin að skipuleggja nokkrar lengri göngur í fríinu. Því miður kom í ljós þegar við höfðum tekið upp úr töskum og kössum að gönguskór eiginmannsins höfðu gleymst í bílnum á Ísafirði. Hann var þó svo útsjónarsamur að hann hafði með sér forláta vaðstígvél sem hann ákvað að nota til gönguferða. Heimamenn komast upp með það að skrýðast heimilislegum fótabúnaði en erlendum göngumönnum sem við rákumst á í gönguferðum okkar varð nokkuð starsýnt á stígvélin, enda sérlega stæðileg stígvél númer fjörutíu og sjö.

Veðrið lék nú ekki beinlínis við okkur alla dagana en einn sólríkan dag drifum við okkur af stað, ég í gönguskóm og eiginmaðurinn í stígvélunum. Við gengum um holt og hæðir og upp undir stórgrýtta skriðu þar sem við stöldruðum við og snæddum nesti sem ég var með í bakpokanum mínum. Sjaldan ef nokkurn tíma hafa flatkökur með hangikjöti bragðast eins vel og við þetta tilefni enda sátum við undir stórum steini hátt í fjallshlíð og horfðum út á hafið. Blómstrandi sauðamergur, skærbleikur og fagur, varpaði bleikri slikju á melana og ýtti það enn frekar undir stemninguna.

Úr fjallshlíðinni gengum við niður í fjöru þar sem gulhvítur fjörusandurinn hreinlega krafðist þess að við færum úr sokkum, skóm og stígvélum og gengjum berfætt eftir ströndinni. Ef hitastigið hefði náð í tveggja stafa tölu hefði þessi fjörusandur sómt sér vel á hvaða sólarströnd sem er. Við gengum rólega eftir fjörunni, nutum þess að heyra öldugjálfrið í flæðarmálinu, hrossagaukur steypti sér með tilheyrandi hnegghljóðum og spói rak upp raust sína svo undir tók í fjöllunum. Hægur andvari gerði það að verkum að flugurnar létu okkur alveg í friði, sem sagt fullkomin stund.

Eftir dágóðan spöl komum við að á sem fellur þarna til sjávar. Hún hafði breitt vel úr sér og streymdi rólega yfir ávala steina, frekar grunn en þó dýpri en svo að ég vildi fórna gönguskónum í að vaða. Þarna kom sér nú sannarlega vel að eiga vel stígvélaðan eiginmann. Ég bað hann því umsvifalaust að bera mig á hestbaki yfir ána og féllst hann að sjálfsögðu á þann ráðahag. Rétt við árbakkann var stór steinn sem ég skottaðist upp á til að auðveldara væri að komast á bakið á eiginmanninum. Þegar ég hafði komið mér þar haganlega fyrir og hann var við það að standa upp þurfti ég aðeins að teygja mig eftir myndavélartöskunni minni fyrir aftan mig. Kannski hefði ég átt að aðvara eiginmanninn en við þessa óvæntu fettu mína datt hann aftur fyrir sig og við kútveltumst af steininum. Þarna hefði verið skynsamlegt að staldra við og endurskoða þessa góðu hugmynd en það er alltaf gott að vera vitur eftir á. Aftur stökk ég upp á steininn, skutlaðist upp á bakið á eiginmanninum og nú sá hann um myndavélartöskuna og ég um bakpokann. Það má nú ekki setja öll eggin í sömu körfuna. Svo stikaði hann af stað með mig á bakinu.

Fljótlega kom í ljós að þessi saklausa árspræna var ekkert lamb að leika sér við. Ávölu steinarnir sem voru ekkert sérlega stórir, voru flughálir og mátti eiginmaðurinn hafa sig allan við að halda jafnvægi á grjótinu. Ég reyndi að sjálfsögðu að aðstoða hann við að velja heppilegustu leiðina og kom með vel úthugsaðar og uppbyggilegar leiðbeiningar sem reyndar virtust falla í dálítið grýttan jarðveg. Og auðvitað endaði þetta með því að mínum manni skrikaði fótur í stígvélunum í miðri ánni. Hann fórnaði sér þó fyrir málstaðinn og kastaði sér fram og til hliðar þannig að ég lenti að mestu leyti ofan á honum en í stað þess að skríða í land með mig á bakinu varð hann að standa á fætur og ég neyddist því til að vaða í land. Vatnið í þessari á er kaldara en í nokkurri annarri á í heiminum. Um það geta tærnar á mér vitnað. Steinarnir voru líka þeir sleipustu sem fyrirfinnast í veröldinni, ég rann til í hverju skrefi jafnvel þótt ég héldi dauðahaldi í eiginmanninn. Eftir eilífðartíma komum við að landi og aldrei í sögunni hafa nokkrar tær verið jafnkaldar og mínar á þessari stundu. Verst var þó að naglalakkið á táanöglunum laskaðist verulega við það að hruflast á grjótinu í ánni. Það liggur við að ég segi ekki einu sinni frá því að um 13 metrum ofar í ánni var brú.

Guðríður Helgadóttir, vaðari

Táneglur og gönguskór

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur

1 Ummæli

Sigurbjörg Ólafsdóttir 18. júlí, 2022 - 01:54

Þetta er bara dásamlegt og þótt ég viti að maður á ekki að hlæja að óförum annarra ( mamma sagði mér það) þá verður að viðurkennast að þessi myndræna ferðasaga kitlaði hláturtaugarnar þótt hún væri lesin um hánótt. Meira svona Gurrý, alltaf góð.

Comments are closed.

Add Comment