Fuglaskoðun

Ef vel er að gáð, mætti með góðu ímyndunarafli hugsanlega koma auga á músarrindil á myndinni.

Ég er ein af þeim heppnu sem vinna við áhugamálið sitt.  Það sama á við um vinnufélagana þannig að í kaffitímum sitjum við gjarnan á kaffistofunni og tölum um blóm eða segjum grasafræðiskrýtlur og allir hlæja sig máttlausa. Einstaka sinnum gerist það þó að einhver bryddar upp á öðru umræðuefni, sem má þó yfirleitt tengja við garðyrkju með beinum eða óbeinum hætti.  Það gerðist einmitt í byrjun október, í tilefni þess að músarrindillinn mætti á vaktina.

Á hverju hausti flytur einn músarrindill inn í garðskála skólans og heldur þar til yfir veturinn.  Hann flytur yfirleitt út aftur fyrir miðjan apríl en veðurfar hefur aðeins áhrif á tímasetninguna.  Þessi vetrargestur er okkur mjög kærkominn. Það er ótrúlegt hvað svona lítill fugl hefur stóra söngrödd og mikla þörf fyrir að láta hana heyrast og það er alveg á hreinu að áheyrendurnir eru agndofa af gleði og hrifningu þegar nýjustu aríurnar eru æfðar.  Nokkur dulúð ríkir um það hvort þetta sé sami músarrindillinn frá upphafi, þá verður hann að teljast orðinn frekar roskinn af músarrindli að vera, jafnvel eldri en tíminn, eða hvort garðskálaóðalið erfist í beinan karllegg og því hafi margar kynslóðir músarrindla sungið af hjartans innlifun í garðskálanum að vetrarlagi, garðyrkjufólki til ánægju og afþreyingar.  Einstaka sinnum hafa nýir nemendur og starfsmenn talið sig heyra þrusk í mús í runnum skálans og svo hrokkið í kút þegar músin hefur tekið flugið.  Músarrindillinn á það einnig til að kíkja inn á skrifstofur starfsmanna og skilur þá eftir sig óvelkomin sönnunargögn á óvæntum stöðum, lyklaborðum, tölvuskjám og jafnvel myndarömmum, ef honum líst ekki nægilega vel á myndefnið. Við teljum því greinilegt að músarrindillinn okkar hafi skopskyn og sé jafnvel örlítið hrekkjóttur.

Í byrjun október sátu starfsmenn með kaffibollana sína í heitri umræðu um kosti og galla sitkaelris í görðum þegar talið barst óvænt að fuglum og fuglaskoðun.  Þetta nýja umræðuefni kom mjög bratt upp á viðstadda og þaggaði snarlega niður í einræðu staðarhaldarans um sjálfsáð sitkaelri.  Að vísu var flestum ljóst að í hópi starfsmanna væru miklir fuglaáhugamenn, jafnvel svo miklir að þeir eru titlaðir hundraðkarlar eða tvöhundruðkarlar, allt eftir því hversu marga fugla þeir hafa náð að koma auga á á Íslandi á fuglaskoðunarferli sínum, en það var alveg ný staða að þessir aðilar tækju yfir kaffitímann með áhugamáli sínu.  Í fyrstu virtist þetta sakleysisleg umræða um þann óvænta atburð að trönur hefðu náð að koma upp ungum hérlendis en smám saman fengu áheyrendur það á tilfinninguna að heimur fuglaskoðunarfólks væri ekki eins einfaldur og maður gæti haldið.  Menn leggja það á sig að keyra landshorna á milli ef þeir frétta af nýjum og áður óséðum flækingi og óbreyttir áhugamenn, sem hafa kannski komið auga á einhver undarleg flygildi í görðum sínum og sett ógreinilegar myndir inn á facebook lenda í því að stórir flokkar fuglaáhugamanna gera sig heimakomna í runnum og trjágróðri í nágrenninu, með myndavélar og kíkja á lofti og hafa jafnvel uppi ógnandi tilburði gagnvart fólki sem þeim finnst hafa truflandi áhrif á fugla.  Það skiptir líka verulegu máli hvaða fugl uppfyllir hundraðið, best er ef það er einhver ofursjaldgæfur flækingsfugl sem aldrei hefur áður sést á Íslandi eða fugl sem alla jafna heldur sig á afskekktustu stöðum á hálendinu eða á úteyjum þar sem enginn kemur nema fuglinn fljúgandi.

Fuglaskoðararnir fóru mikinn í samtali sínu og barst talið að öðrum fuglaskoðurum, sem margir hverjir virðast vera eins og rokkstjörnur í sínum hópi.  Einn af reyndari fuglaskoðurunum við borðið þandi brjóstið og upplýsti hina um að hann hefði nú verið í fuglaskoðunarklíku með nokkrum af þessum víðfrægu fuglaskoðurum.  Í fyrstu uppskar hann  dálitla lotningu en svo ýfðust fjaðrir hinna við borðið og upphófust nú heitar deilur um það hvaða fuglaskoðunarklíka hefði afrekað mest og hverjir væru raunverulega bestir á þessu sviði.  Minnti þetta fjaðrafok mikið á gamanmynd sem sýnd hefur verið nokkrum sinnum á RUV og fjallar um kappsfulla fuglaskoðara í útlöndum.  Á þessum tímapunkti reyndu aðrir starfsmenn við borðið að lægja öldurnar með því að brydda upp á áhugaverðri og spennandi umræðu um sýrustig vökvunarvatns og áburðargjöf í sumarblómaframleiðslu en allt kom fyrir ekki, fuglagaurarnir voru komnir á flug og alls ekki til í að lenda málinu á friðsamlegan hátt.

Sem betur fer notaði gröfumaðurinn, sem var að vinna fyrir utan skólabygginguna, þennan tímapunkt til að moka í sundur heimtaugina að skólanum með þeim afleiðingum að rafmagnið fór af, stuðið fór alveg úr rifrildinu, allt datt í dúnalogn.  Annars er aldrei að vita hvernig þetta fuglafár hefði endað.

Ef vel er að gáð á myndinni hér að ofan, mætti með góðu ímyndunarafli hugsanlega koma auga á músarrindil á myndinni.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur, bráðum fimmtíukarl.

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur