Fótbolti

Á mínum vinnustað, eins og sennilega flestum öðrum vinnustöðum þessa dagana, hefur fátt annað verið til umræðu í kaffi- og matartímum en heimsmeistaramótið í fótbolta.  Hér á bæ má segja að áhugasvið starfsmanna sé á mjög breiðu bili, allt frá algjöru áhugaleysi eða jafnvel hreinlega ímugust á knattspyrnu, yfir í svo mikinn knattspyrnuáhuga að jaðrar við þráhyggju.  Flestir starfsmenn falla einhvers staðar á milli þessara öfga, eru á knattspyrnuáhugarófinu öðru hvorum megin miðjunnar.  Stórviðburðir eins og þátttaka íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í HM í fótbolta hafa þó hvetjandi áhrif á áhuga allra þannig að nú þegar mótið er að hefjast má segja að allir séu frekar áhugasamir um boltann.  Sjálf hef ég aldrei verið neitt sérlega illa haldin af fótboltaáhuga, fylgist með landsliðinu með öðru auganu en tryggi mér alltaf góða undankomuleið inn í eldhús eða önnur tilfallandi herbergi ef spennan verður óbærileg.  Jafnframt viðurkenni ég fúslega að þekking mín á fótbolta er í fullkomlega í réttu hlutfalli við áhugann, sem sagt í lágmarki.

Í morgunkaffinu einn góðan dag í vikunni var glatt á hjalla meðal starfsmanna og eins og fyrri daginn létu menn hugann hvarfla að fótboltanum.  Ýmiss konar gáfulegar athugasemdir flugu milli manna, eins og ,,auðvitað ætti að vera dómararennsli daginn áður eins og fyrir Júróvisjón..“ og  ,,það eina sem gæti hugsanlega komið í veg fyrir gjörsigur Íslands á Argentínu á laugardaginn væri ef Argentínumenn skoruðu fleiri mörk í leiknum“.  Tveir þýskir garðyrkjunemar, sem dvelja við verknám í skólanum um skamma hríð, sátu með í kaffinu og fylgdust með hnyttnum orðaskiptum starfsmanna en skildu nú ekki til hlítar hvað var verið að ræða.  Ég tók því að mér að útskýra fyrir þeim á útlensku hvað þarna færi fram.  Þeir brostu breitt og tóku til við að stinga inn sínum eigin athugasemdum við og við.

Barst svo talið að því hvar starfsmennirnir ætluðu að horfa á leikinn gegn Argentínu, hvernig menn ætluðu að vera klæddir, hvort ætti að vera innanhúss eða utan, hvernig veðurspáin væri og hvort búið væri að æfa húh-ið nægilega vel.  Á þessum tímapunkti fann ég mig knúna til að hvetja þýsku nemana eindregið til að halda með Íslandi á þessu móti.  Tóku þeir því nokkuð fálega en ég gefst nú ekki svo auðveldlega upp, fór með  þeim í gegnum kórréttan framburð á ,,Áfram Ísland“ og annað sem gæti komið að gagni við hvatninguna.  Þeir brostu góðlátlega en létu ekki hafa sig í húh-ið, sama hvað ég hvatti þá áfram.  Þá datt mér í hug að spyrja þá einfaldlega hvort Þýskaland væri kannski að keppa á sama móti.  Aldrei fyrr hef ég náð að opinbera svo fullkomlega vanþekkingu mína á nokkru málefni.  Þýsku piltarnir stirðnuðu upp, brosin hurfu sem dögg fyrir sólu, þeir urðu jafnvel nokkuð yggldir á brún og annar þeirra svaraði með miklum þunga: ,,Ja, naturlich!“  Samstarfsfólk mitt, sem mér geðjast alla jafna vel að og á í góðum samskiptum við, lá hvert um annað þvert á kaffistofunni og hélt um maga og aðra líkamsparta til að lina hlátursþjáningarnar.  Tár flæddu um kinnar en hvort það var af áðurnefndum hlátri eða af einskærri sorg yfir spurningu minni skal látið liggja milli hluta.

Ég er nú yfirleitt frekar fljót að átta mig á samhengi hlutanna.  Af þessum ofsafengnu viðbrögðum var mig farið að gruna að spurning mín hefði ekki einungis verið vitlaus heldur beinlínis heimsk og að Þýskaland væri vissulega að taka þátt í þessari sömu keppni og Íslendingar.  Ég reyndi því að bjarga því sem bjargað varð og sagði þýsku piltunum að auðvitað mættu þeir alveg hvetja sitt land í keppninni, hins vegar gætu þeir þá bara haldið með Íslandi þegar Þýskaland dytti út.  Einhverra hluta vegna bættu þessi ummæli engan veginn í bætifláka fyrir fyrri vandræði og var nú farið að fjúka aðeins í drengina.  Samstarfsmaður minn, sem býr svo vel að vera tengdur Þýskalandi fjölskylduböndum og þar af leiðandi mun fróðari um þýska þjóðarsál en ég, ákvað á þessum tímapunkti að bera klæði á vopnin og fara aðeins yfir viðurkennda skilgreiningu á fótbolta, eins og hún er þá væntanlega kennd í þýskum skólum.  Skilgreiningin á fótbolta, sagði hann, er þegar tvö lið, skipuð 11 mönnum hvort, leitast við að koma boltanum í markið hjá hinu liðinu og Þýskaland vinnur.

Þar höfum við það.  Ég vona svo sannarlega að við fáum tækifæri til að mæta Þýskalandi í þessari keppni, það er kominn tími til að endurskoða  þessa skilgreiningu!

Áfram Ísland – húh!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur