Foreldraröltið

Í hverfinu mínu í uppsveitum Kópavogs er venjulega fátt í fréttum, sumir myndu jafnvel halda því blákalt fram að þar gerðist aldrei neitt en það er nú ekki alls kostar rétt.  Í hverfinu eru skóli, sundlaug, íþróttahús, verslun, heilsugæslustöð og kirkja, að ógleymdum kirkjugarðinum sem fyllist hægt og rólega af ómissandi fólki.  Það er því heilmikið um daglegt líf (og dauða) í hverfinu en óvenjulegir atburðir kannski sjaldgæfari.

Hafandi skrifað þetta á skjáinn man ég skyndilega eftir innbrotinu í veislusalinn við hliðina á stærsta fjölbýlishúsi hverfisins.  Einbeittur innbrotsþjófurinn hafði greinilega ekki reiknað með því að neinn væri heima í úthverfi á miðjum degi, hvað þá að það fólk fylgdist á einhvern hátt með mannaferðum í nágrenninu.  Hvorki fleiri né færri en fjórar heimavinnandi húsmæður sáu til kauða og hringdu samstundis á lögregluna til að láta vita af innbrotinu.  Þjófurinn náðist á þarnæsta götuhorni, þýfið var gert upptækt og eigandi veislusalarins færði húsmæðrunum blómvendi í þakklætisskyni.

Einnig kemur upp í hugann sá sérstaki atburður þegar bæjarstarfsmenn Kópavogs báru kjötköggla á fótboltavöllinn í hverfinu, í stað kjötmöls sem áburðar, með þeim afleiðingum að um 2000 sílamávar mættu í veislu með tilheyrandi partýlátum og hávaða.  Mávarnir héldu sig á vellinum í nokkra daga eða á meðan kræsingarnar entust, flugu einstaka sinnum upp og hringsóluðu í kringum háhýsi hverfisins á meðan fótboltaleikir yngri flokka fóru fram á vellinum en settust svo aftur að snæðingi að leikjum loknum.  Satt best að segja vakti þessi kjötbolluveisla litla kátínu hverfisbúa og kannski er hún svona neðarlega í minninu þess vegna.

Á haustdögum síðastliðið haust dró hins vegar til verulegra tíðinda.  Fréttir bárust af því að unglingar væru farnir að hópa sig saman á skólalóðum í hverfinu án eftirlits.  Í fyrstu virtust unglingarnir aðallega hittast til að spjalla saman og jafnvel spá aðeins í hitt kynið enda eykst áhuginn á slíkum spekúleringum eitthvað með kynþroskanum.  Smám saman hitnaði þó í kolunum og fór að bera á skrílslátum og hávaða með tilheyrandi rúðubrotum og vespuíkveikjum við lítinn fögnuð nágranna skólanna.  Lögregla var kölluð til nokkrum sinnum en ekki tókst að koma böndum á hópamyndunina.  Var þá fátt til ráða annað en að kalla foreldra til funda.

Foreldrar í mínu hverfi fengu boð frá skólastjóra hverfisskólans um að mæta á neyðarfund í skólanum til að ræða um þessa alvarlegu stöðu.  Þeir flykktust á neyðarfundinn, tilbúnir að hlusta á skólastjórann ræða um vandræðaunglingana úr hinum hverfunum í kring, jafnvel úr öðrum sveitarfélögum.  Skólastjórinn tók á móti hópnum, alvarlegur á svip og hóf mál sitt á því að upplýsa foreldrana um að hér væri ekki um annarra manna vandræðaunglinga að ræða, hér þyrfti fólk að líta sér nær.  Sem betur fer var boðið upp á sæti í salnum því annars hefði fjöldi fólks hreinlega oltið um koll af áfallinu, þetta var mun hræðilegra ástand en nokkurn í mínu hverfi hafði grunað.  Eftir að skólastjórinn hafði veitt foreldrum grunnáfallahjálp og stappað í þá stálinu var ákveðið að blása lífi í foreldrarölt hverfisins en það hafði hlotið hægt og rólegt andlát nokkrum árum fyrr, vegna skorts á unglingum utanhúss eftir klukkan 10 á kvöldin.  Forvarnargildi foreldrarölts er ótvírætt og tóku framtakssamir foreldrar í hópnum að sér að skipuleggja aðgerðir.  Hverjum árgangi var svo úthlutað nokkrum kvöldum yfir veturinn til röltsins.

Þegar röðin kom að mér í röltinu var laugardagskvöld, heiðskírt og tunglskin og töluvert frost.  Röltið hófst klukkan 10 um kvöldið því þá lýkur útivistartíma unglinga og komið veiðileyfi á alla þá unglinga undir 16 ára aldri sem eru á ferli utanhúss.  Ég klæddi mig vel, fór í lopapeysu og dúnúlpu, dró á mig þykka vettlinga og kvaddi ungmeyjarnar mínar, markhóp foreldraröltsins, þar sem þær sátu í sófanum í stofunni með popp og horfðu á skemmtilega bíómynd.  Úti var komin glæruhálka en þar sem ég var nokkuð sein fyrir ákvað ég að sleppa mannbroddunum.  Sem betur fer var nú ekki langt á upphafsstað röltsins.

Á mótsstað voru komnir nokkrir foreldrar, allir kappklæddir og einn með mannbrodda á fótum.  Foreldrahópurinn var hinn hressasti og tilbúinn að takast á við verkefni kvöldsins.  Öll áttum við það sameiginlegt að hafa skilið við okkar eigin unglinga í góðu yfirlæti heimavið.  Eftir smá upphitunarspjall ákvað hópurinn að hefja gönguna.  Mjög fljótlega kom í ljós að lykilaðili í hópnum var sá á mannbroddunum, sá eini sem gat gengið nokkuð öruggum skrefum í hálkunni.  Við hin ákváðum því að styðjast við þennan fyrirhyggjusama einstakling og eftir örlitlar tilfæringar hafði hópurinn náð að mynda nokkurs konar foreldramargfætlu sem skakklappaðist af stað með rykkjum og skrykkjum.

Enginn unglingur var sjáanlegur á skólalóðinni og heldur ekki í kringum verslunarkjarnann en hvort tveggja eru staðir líklegir til að veita unglingahópum skjól.  Margfætlan skrölti því áfram um hverfið og skimaði vel og vandlega í kringum sig.  Skyndilega rak einn meðlimurinn upp lágvært viðvörunaróp.  Hann hafði komið auga á hettuklæddan ungling á ferli.  Hópurinn miðaði út gönguleið og hraða unglingsins og færðist allur í aukana, loksins sást lífsmark í hverfinu og það hugsanlega á réttum aldri.  Með samstilltu átaki og taktvissum fótaburði tókst að ná í veg fyrir unglinginn.  Hann gekk niðurlútur með heyrnartól fyrir eyrunum og bakpoka á bakinu og virtist ekki verða nokkurs var fyrr en hann var kominn alveg að hópnum.  Þá rak hann í rogastans og ekki er nú laust við að nokkurs samviskubits hafi gætt hjá foreldrunum þegar skelfingarsvipurinn færðist yfir andlit drengsins.  ,,Hvað ert þú gamall væni?“  spurði mannbroddaforinginn piltinn.  ,,Ég er 15 ára“ svaraði pilturinn mjóróma.  Við þetta svar fylltist foreldrahópurinn eldmóði og dundu nú spurningar á piltinum.  ,,Á hvaða leið ert þú?“ ,,Hvaðan ertu að koma?“  ,,Hvert ertu að fara?“  ,,Veistu að útivistartími unglinga undir 16 ára aldri er til kl. 22 á kvöldin á veturna?“  Vesalings pilturinn koðnaði hálfpartinn niður undir þessari árás en loksins tókst honum að komast að til að svara.  Hann var sem sagt á leiðinni heim til sín í næsta hverfi, hafði verið að heimsækja aldraða og lasburða ömmu sína sem bjó ein í þessu hverfi og þau höfðu gleymt sér aðeins yfir spilunum.  ,,Amma elskar nefnilega að spila“ klykkti svo drengurinn út með að segja.  ,,Má ég fara heim núna?“

Við sáum engan annan á ferli í hverfinu þetta kvöld.  Ég á eftir að rölta eina helgi síðar í vor, ég vona að það rölt verði ekki fjörugra en þetta í vetur enda hefur ekkert borið á hópamyndun eftir að foreldraröltið var sett aftur í gang.  Og mikið er ég glöð að svona yndislegir unglingar eru enn í umferð, ungir strákar sem eyða laugardagskvöldi í að spila við ömmu sína.  Þeir fá að minnsta kosti að rölta heim í friði.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur

1 Ummæli

Margrét 27. mars, 2018 - 12:13

Takk fyrir skemmtilegan pistil sem minnti mig á kvöldgöngur foreldra í mínu hverfi fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þær eiga greinilega rétt á sér ennþá.

Comments are closed.

Add Comment