Flugnaskítur

Um miðjan mars, þegar tilkynnt var um lokanir framhaldsskóla og grunnskólar í Kópavogi voru lokaðir vegna verkfalla pakkaði ég ungmeyjunum niður og hélt í sumarbústaðinn í sjálfskipaða útlegð, við mæðgurnar ætluðum svo sannarlega ekki að smita viðkvæma ættingja af veirunni voðalegu með óvarlegri umgengni við annað fólk.  Okkur gekk ágætlega að komast í bústaðinn enda hafði eiginmaðurinn farið á undan og brotið okkur leið í gegnum stærstu snjóskaflana.  Vopnaðar ársbirgðum af klósettpappír, slatta af snakki, hestburði af kaffi, einhverju þurrfóðri og öðru matarkyns, hreiðruðum við um okkur í sæluhúsinu, skelltum okkur í kósífötin og hófum heimavinnuna.  Þvílík gleði!  Úti var töluverð fjölbreytni í veðurfari í fyrstu, ýmist bandbrjálað, snarbrjálað eða kolbrjálað veður, snjóskaflarnir rokkuðu fram og aftur í hæð en flesta daga var ekki hundi út sigandi, hvað þá ungmeyjum og móður þeirra.  Kertanotkun jókst á tíma um 800% enda fátt notalegra en að hafa kveikt á kertum þegar kalt er úti, það hlýjar manni svo um hjartaræturnar og þaðan út í alla útlimi.  Einbeiting mæðgnanna í heimavinnunni var aðdáunarverð í fyrstu, svo ekki sé fastar að orði kveðið, fullkomin regla á hlutunum, fótaferðartími á morgnana eftir háþýskri nákvæmni, setið við allan daginn með reglubundnum smáhléum og heimatilbúnum þrekæfingum handboltahetju heimilisins (sem ég myndi nú kannski ekki endilega mæla með fyrir alla, ég hef til dæmis átt í dálitlum vandræðum með það að pikka á tölvuna vegna harðsperranna í gervöllum efri hluta líkamans auk þess sem ég þarf stuðning við að standa á fætur upp af stólnum vegna harðsperranna í neðri hluta líkamans, miðhlutinn veit ekki alveg hvort hann á að þjást með efri hlutanum eða neðri hlutanum þannig að hann virðist ætla að fylgja báðum, mér er sagt að þetta muni lagast eftir því sem líður á vorið, er það ekki örugglega á áætlun??).  
Um páska virtist sem ungmeyjarnar héldu að móðirin hefði sérhannað veirufár til að koma í veg fyrir að þær gætu hitt vini sína, nunnur í klaustri eða jafnvel fangar í einangrun byggju við meira ferðafrelsi.  Á sama tíma var ljóst að slaknað hafði nokkuð á einbeitingunni og hún farin að nálgast íslenska ,,þetta reddast” hugarfarið.   Eftir ljómandi gott páskafrí og þartilheyrandi páskaeggjaát og aðra vel nærandi fóðrun komu þær tvíefldar til leiks,  hafa nú stappað í sig stálinu, ætla að þrauka, halda útlegðina út, ekki að gefast upp á endasprettinum. 

Vinnustöð mín er við uppáhaldsgluggann í sumarbústaðnum, út um þennan glugga blasir við drottning sunnlenskra fjalla, sjálf Hekla (svona þegar henni þóknast að sýna sig sem hefur nú verið afar sjaldan á þessum tíma, kannski er hún einnig í sjálfskipaðri covid einangrun, kærir sig ekki um félagsskap, sem er kannski ágætt, hún er þá ekki að trufla mig við vinnuna með fegurð sinni og glæsileika).  Ég hef þó alltaf tekið stöðuna á morgnana og hýrnaði nú heldur betur yfir mér þegar ég sá henni bregða fyrir um páskaleytið.  Eftir að tilkynnt var um tilslakanir í samkomubanni er ég ekki frá því að hún hafi sést oftar og þá jafnvel í heillangan tíma í senn.

Vorkoman er alltaf dásamleg í sveitinni og höfum við mæðgurnar fylgst með komu farfuglanna, ný sending á hverjum degi með mismunandi tegundir hverju sinni, skógarþrestir og hrossagaukur mættu fyrstir ásamt gæsum og álftum, svo kom lóan (sem vakti með mér blendnar tilfinningar, í ljósi fyrri reynslu af þessari lóu) og á sumardaginn fyrsta var komið að maríuerlunni.  Ég hef mjög gaman af því að fylgjast með bardúsi fuglanna hér í kringum húsið þannig að á fyrsta góðviðrisdegi dreif ég í því að þrífa alla gluggana, utan sem innan og útsýnið stórbatnaði við það. 

Vorinu fylgja líka húsflugur.  Daginn sem sólin birtist í fyrsta sinn varð ég skyndilega vör við húsflugu í nýskrúbbaða og tandurhreina glugganum mínum. Hún suðaði notalega í fyrstu en fljótlega breyttist hljóðið í pirringssuð, þetta sem kemur þegar hún spólar við rúðuna og kemst ekki út, verður brjáluð, sleppir sér alveg á endanum og þá var mér nóg boðið.  Ég náði í ryksuguna, af gerðinni Hoover DieFly NanoPack,  en var greinilega ekki nógu fljót á mér, fluguskepnan hafði skitið á rúðuna.  Daginn eftir voru fjórar flugur í glugganum og hefur þeim nú fjölgað dag frá degi.  Ég þarf sennilega að fara að skipta um poka í ryksugunni en henni er sveiflað ótt og títt, fyrrum hreini glugginn minn er allur útskitinn og Hekla virðist komin með svarta fílapensla.  Það væri fróðlegt að vita á hvers konar fæði þetta flugnager er, því flugurnar virðast allar með alvarlegar meltingartruflanir og það þarf stórvirk hreinsiefni til að ná glugganum aftur hreinum.  Verst að ég kemst ekki í gluggaskrúbbið fyrr en harðsperrurnar líða hjá.  Á meðan dunda ég mér bara við að yrkja hugljúf ljóð:

Á gluggarúðu flugnager
gráðugt kemur inn,
helvítið það hægir sér
á Heklugluggann minn!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og flugnabani

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!