Eins og aðrir landsmenn brugðum við fjölskyldan undir okkur betri fætinum og ferðuðumst innanlands í sumar. Því miður urðu væntingar ungmeyjanna minna um huggulega tjaldútilegu að engu því í bæði skiptin sem slíkt var skipulagt ákváðu veðurguðirnir að bjóða upp á úrhellisrigningu með hvassviðri og misgulum viðvörunum, á þeim svæðum sem við hugðumst heimsækja. Þess í stað skruppum við í styttri ferðir og nutum gestrisni íslenskra ferðaþjónustuaðila. Eitt af því sem var á óskalista ungmeyjanna var að fara í fjórhjólaferð. Uppáhaldsmóðir þeirra fór því í að skipuleggja slíka afþreyingu og var niðurstaðan tveggja tíma skemmtiferð um sandana sunnan Sólheimajökuls, með viðkomu í heimsfræga flugvélaflakinu sem allir vilja sjá, hvað sem það kostar.
Fjölskyldan mætti tímanlega á upphafsstað ferðarinnar, full eftirvæntingar og spennu og voru allir gallaðir upp eftir kúnstarinnar reglum í viðeigandi hlífðarfatnað, ásamt öðru fólki sem var á leið í sömu ferð. Sól skein í heiði, hægur andvari og íslensk náttúra í sínu fínasta pússi, fullkominn dagur til ævintýra. Þegar hópurinn var kominn í klæðnað samkvæmt tilmælum gekk hann að tvöfaldri röð fjórhjóla og valdi hver og einn sér hjól. Ég steig þokkafullt upp á hjól númer 106 og hlustaði eftir leiðbeiningum elskulegra leiðsögumanna hópsins, þumli skyldi stutt á bensíngjöfina, bent var á gírstöng og útskýrt hvernig ætti bremsa, auk þess sem mælt var með því að ökumaður hallaði sér með hjólinu í sömu átt og hann ætlaði að beygja, annars gæti farið illa.
Var svo ekið af stað. Ég lenti nokkuð aftarlega í röðinni og einbeitti mér að því að ná tökum á akstri hjólsins enda áratugir síðan ég steig síðast á bak fáks af þessu tagi. Fyrstu metrarnir einkenndust nokkuð af rykkjum og skrykkjum þar sem bensíngjöfin virtist mjög næm fyrir hvers konar áreiti en eftir dálítinn aðlögunartíma tókust sæmileg kynni með mér og bensíngjöfinni. Á þessum aðlögunartíma hafði ég aðeins misst af lestinni og þeir sem voru fyrir aftan mig í röðinni orðnir dálítið óþolinmóðir en ég beit á jaxlinn, gaf hraustlega inn og hentist brátt áfram eftir holóttum þvottabrettismalarvegi á fljúgandi ferð. Þessi vegur hafði greinilega ekki verið heflaður lengi og leið ekki á löngu þar til mér fannst sem los væri komið á innyflin og virtust þau hægt og rólega vera að síga niður í buxurnar, í námunda við hjartað. Ekki tókst mér að ná í skottið á næsta manni í lestinni, þrátt fyrir stórhættulegan glæfraakstur af minni hálfu, hraðamælirinn kominn í tveggja stafa tölu og nú voru tennurnar farnar að glamra óþægilega í gómunum, í huganum þakkaði ég fyrir að vera ekki með falskar og lélegt tannlím á þessari stundu.
Hópurinn kom nú að myndarlegum læk og hægði vel á sér áður en farið var yfir hann. Það gaf mér tækifæri til að minnka bilið og þegar ég loksins komst í talfæri við ungmeyjarnar mínar voru þær alls ekki eins glaðar að sjá mig eins og ég hefði haldið, þvert á móti voru þær töluvert úrillar og báðu mig vinsamlegast um að halda uppi eðlilegum ferðahraða, þær væri mjög vandræðalegt að allir þyrftu að bíða eftir mér. Ég lofaði bót og betrun og bað þær að hafa ekki áhyggjur af mér, ég kæmist örugglega klakklaust á leiðarenda. Sannari orð hafa nú oft verið sögð.
Eftir sull í læknum var komið niður á endalausan svartan sand þar sem allt var gefið í botn og smám saman hvarf hópurinn mér sjónum. Þeir fáu sem höfðu verið fyrir aftan mig tóku fram úr mér einn af öðrum og skynjaði ég örlitla óþolinmæði í fasi þessara einstaklinga í þann mund sem þeir óku framhjá. Ég hélt uppi að mér fannst eðlilegum ferðahraða miðað við aðstæður og gæði vegarins en var nú orðið fullljóst að minn skilningur á eðlilegum ferðahraða miðast sennilega við aldur og fyrri störf. Fljótlega gerði annar leiðsögumaðurinn sér grein fyrir því að ég ætti ekki alls kostar samleið með restinni af hópnum og var hann svo elskulegur að hafa auga með mér, þar sem ég hentist um sandana á hraða snigilsins, í dvínandi rykmekki hraðskreiðari fararskjóta. Til að bíta svo höfuðið endanlega af skömminni slitnaði vináttusamband bensíngjafarinnar við þumalfingur hægri handar þegar fingurinn dofnaði alveg upp og missti allan mátt. Ekki varð það til að flýta för og jók enn á vandræðaástandið. Ég rétt náði að líta flugvélarflakið heimsfræga augum, það stóð á endum að þegar ég loksins kom að flakinu var hópurinn búinn að staldra þar við drykklanga stund, taka myndir í krók og kring og var að búast til brottfarar. Við fjölskyldan náðumst þó saman á einni mynd áður en brunað var aftur af stað. Upphæð og eðli mútugreiðslu minnar til annarra í fjölskyldunni vegna myndatökunnar verður ekki gefin upp.
Þessi fjórhjólaferð átti að taka tvo tíma en mér tókst að ljúka tveggja tíma hringferð á rúmum þremur tímum, talandi um að fá sem mest fyrir peninginn. Nokkrum dögum síðar var starfsemi helstu líffæra orðin með eðlilegum hætti að mestu, hjartað skriðið úr felum þar sem það hafði hafst við neðst í hægri buxnaskálminni og önnur líffæri komin á sinn stað, tennurnar hættar að glamra og þumalfingurinn meira að segja nothæfur við prjónaskap og aðstoð við önnur létt heimilisstörf. Ungmeyjarnar eru einnig að mestu búnar að jafna sig á niðurlægingunni sem fylgir því að eiga móður sem er bæði síðust og næstsíðust í fjórhjólaferð, vonandi hafa þær ekki beðið varanlegan skaða af þessari upplifun. Það er þó alveg á hreinu að næst þegar ég fer á fjórhjól fer ég fram á hjálpardekk.
Guðríður Helgadóttir, með fjórhjólaóþol