Fjarsýni og hrukkur

Mér til mikillar hrellingar hef ég tekið eftir því að undanförnu að sjónin er tekin að þroskast.  Þetta virðist gerast í stökkum, ekki jafnt og þétt.  Þannig tók ég eftir því einn daginn um daginn að maturinn sem ég var að borða var bara alls ekki í fókus og hafði það ekkert með kokkinn að gera.  Að sama skapi hafa dagblöð tekið upp á því að minnka letur sitt allverulega og nokkuð er nú um liðið síðan ég gat síðast lesið sms skilaboð á símanum mínum án viðeigandi hjálpartækja.  Ég hef rætt þessar breytingar við samstarfsfólk mitt, sem og nánustu ættingja og vini og virðast niðurstöður þeirra samtala allar bera að sama brunni, maður verður fjarsýnn með aldrinum.  Minna bjartsýn manneskja en ég gæti þá fallið í þá þunglyndisgryfju að álykta sem svo að hún væri að verða miðaldra en ég ætla að halda áfram að afneita þeirri vitleysu, í dag verður fólk ekki miðaldra fyrr en ríflega sextugt og ég á langt í það enn.

Ég hef notað gleraugu alla mína ævi og leitað reglulega til elskulegs augnlæknis sem hefur gefið mér margvísleg góð ráð um ævina, sum varðandi augun.  Þessi ágæti augnlæknir ráðlagði mér eftir síðustu augnskoðun að nú væri kominn sá tími í mínu lífi að ég þyrfti að skoða það að fá mér gleraugu með tvískiptum sjónglerjum.  Læknirinn skrifaði helstu upplýsingar á blað og ég skundaði með miðann í ágæta gleraugnaverslun sem ég hef verslað við áður.  Ég var svo heppin að hitta á mikið kostaboð í versluninni, ekki einungis fékk ég tvískipt sjóngler í gleraugun mín heldur fylgdu með sólgleraugu með sams konar glerjum.  Að sjálfsögðu valdi ég skvísulegustu sólgleraugnaumgjarðirnar í búðinni og hef lagt mig fram um að nota þessi gleraugu, ekki síst þegar vottar fyrir sól á himni.  Hins vegar láðist bæði augnlækninum og vingjarnlega gleraugnasölumanninum að upplýsa mig um aukaverkanir tvískiptra sjónglerja, ekki það að ég sé verulega vonsvikin yfir þessum aukaverkunum.  Málið er nefnilega að þegar maður setur upp þessi tvískiptu gleraugu þarf maður að vanda sig hvert maður beinir sjónum sínum.  Hér á ég ekki við að augun beinist skyndilega og stjórnlaust að fallegu landslagi eða myndarlegu fólki heldur eru mismunandi fletir gleraugnanna tileinkaðir ákveðnum tilgangi, neðsti hlutinn ætlaður lestri á hinu smáa og síminnkandi letri dagblaðanna og sms skilaboðum en efri hlutinn ætlaður fjarskoðun.  Þá komum við aftur að aukaverkununum.  Á meðan maður venst þessum síbreytilegu sjónflötum er eins og maður sé dálítið hífaður, búinn að sporðrenna eins og einu rauðvínsglasi eða svo.  Þessar aukaverkanir koma alls ekki að sök þegar maður er staddur í kvöldverðarboðum eða stórafmælum því þá sparast allnokkur rauðvínsglös sem er vissulega hagstætt fyrir pyngjuna.  Verra er þegar maður ætlar að setjast undir stýri og aka bifreið, þar þykja svona aukaverkanir alls ekki heppilegar.  Að vel athuguðu máli hef ég tekið þá upplýstu ákvörðun að nota gömlu gleraugun áfram við akstur.

Aldurstengdar breytingar á sjón hafa margvísleg áhrif á líf og heilsu og sum geta reynst mjög ánægjuleg, að minnsta kosti um tíma.  Ég var til dæmis ákaflega ánægð með það að hafa erft tiltölulega hrukkulitla húð forfeðranna, allt þar til nýju tvískiptu gleraugun komu til sögunnar.  Ég hrökk í kút þegar ég leit fyrst í spegil með nýju gleraugun á nefinu og sá þá blákaldan veruleikann blasa við mér, í miskunnarlausri háskerpu.  Þessi tvískiptu raunveruleikagleraugu hafa nú verið sett aftur niður í tösku.  Oft má satt kyrrt liggja og ég get hreinlega fengið mér rauðvínsglas af og til, ef mig langar að njóta áhrifanna.

Mér til töluverðrar huggunar rifjaðist upp fyrir mér atvik þegar eldri dóttir mín var um það bil 5 ára gömul.  Við sáum saman mæðgurnar og lásum í bók þegar elskuleg dóttir mín horfði rannsakandi á mig og sagði:  ,,Mamma, af hverju ertu með svona krumpur í kringum augun?“  Það kom aðeins á mig bráðunga manneskjuna að fá svona beinskeytta spurningu frá barninu en eftir augnabliksumhugsun svaraði ég því til að þessar krumpur væru nú almennt kallaðar hrukkur og þær fengi maður með aldrinum, sérstaklega ef maður væri glaður og síhlæjandi.  Þá sæist vel hvað maður ætti skemmtilegt líf.  Dóttir mín tók þessa útskýringu góða og gilda og lýsti því yfir stuttu síðar að henni þættu þessar krumpur bara fara mér vel.  Nokkrum dögum síðar sat daman fyrir framan sjónvarpið og sá þá auglýsingu um hrukkukrem þar sem því var haldið fram að við notkun viðkomandi hrukkukrems myndu hrukkur minnka um 30%.  Hún leit á móður sína og sagði:  ,,Mamma, ekki þú fá þér svona hrukkukrem, þá sést ekki hvað er alltaf gaman hjá þér!“

Þessari ráðleggingu dóttur minnar hef ég fylgt enda fannst mér hrukkum ekkert fjölga að ráði, fyrr en fyrrnefnd gleraugu komu til sögunnar.  Nú er ég að íhuga næstu skref.

 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Tyggjum matinn vel