Við fjölskyldan búum í ágætri íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavoginum. Að vísu er dálítið þröngt um okkur en það kemur ekki að sök þar sem fjölskyldan er samhent og vön þrengslunum. Það eina sem er hægt að setja verulega út á í íbúðinni er stærð eldhússins. Sá sem teiknaði þessa íbúð hefur greinilega gert ráð fyrir því að íbúar nærðust eingöngu á aðkeyptum mat, það er ekki einu sinni hægt að skipta almennilega um skoðun í agnarsmáu eldhúsinu nema í algeru einrúmi og helst þegar enginn annar er heima í húsinu, hvað þá að auðvelt sé að reiða fram ljúffengar máltíðir daglega. Eldhúsinnréttingin er líka barn síns tíma, djúpir skápar sem enda í einhvers konar svartholi innst og ógjörningur að henda reiður á innihald þeirra, nema fleygja sér í gólfið og hreinlega skríða inn í skápana til að kanna matarbirgðirnar. Það hefur því verið á stefnuskrá fjölskyldunnar um nokkra hríð að skipta um innréttingu og færa heimilishaldið inn á 21. öldina.
Þá komum við að rót vandans. Húsmóðirin, sem sannanlega er sá meðlimur fjölskyldunnar sem að jafnaði eyðir mestum tíma í eldhúsinu, hefur hreinustu óbeit á því að fara og skoða eldhúsinnréttingar. Þrátt fyrir margvíslega hvatningu eiginmanns og dætra hefur frúin dregið lappirnar og fundið ótrúlegustu ástæður fyrir því að fara ekki að skoða innréttingar. Þessar ástæður hafa verið allt frá því að vera illt í úlnlið (upp kom örlítið vafamál um það hvort verkurinn væri vinstra eða hægra megin), yfirvofandi ófærð í efri byggðum Kópavogs (þessari afsökun var því miður snarlega hafnað því faglærðir veðurfræðingar voru annarrar skoðunar), óþolandi örtröð í innréttingabúðum (þessi afsökun nýttist nokkrum sinnum) og jafnvel D-vítamínskortur (vissulega frekar langsótt en hugmyndin var að viðkomandi gæti ekki dvalið langdvölum innandyra í innréttingabúðum og þyrfti að vera úti í sólskini, gjörsamlega skotið í kaf af öðrum fjölskyldumeðlimum).
Það reyndi því töluvert á útsjónarsemi og herkænsku fjölskyldumeðlima þegar húsmóðirin var lokkuð með í leiðangur til að velja innréttingu, jafnvel eru uppi sögusagnir um mútur með ísbíltúr en þær eru óstaðfestar. Í fyrstu innréttingaversluninni voru skoðaðir nokkrir tugir innréttinga og mjög framarlega í röðinni var innrétting sem heillaði húsmóðurina. Hún hefði verið til í ganga strax frá kaupunum en aðrir í fjölskyldunni töldu betra að skoða allt úrvalið til að fullvissa sig um að ekki yrði keyptur köttur í sekk. Aðrar innréttingar komust þó ekki í hálfkvisti við heillandi innréttinguna þannig að húsmóðirin sá fram á að innréttingaskoðunarþjáningum hennar lyki snarlega en það var nú aldeilis ekki. Nú þurfti að leita af sér allan grun í öðrum innréttingabúðum á höfuðborgarsvæðinu. Öllum búðunum. Að þeirri óbærilegu þrautagöngu lokinni var niðurstaðan eins og áður, sama innrétting varð fyrir valinu og húsmóðurinni allri lokið eftir þetta kvalræði.
Eiginmaðurinn gekk sem betur fer í að láta teikna upp skipulagið á nýju eldhúsinnréttingunni og voru ítrustu óskir allra í fjölskyldunni hafðar að leiðarljósi að mestu. Þó kom á daginn að tvöfaldur ísskápur með klakavél og tvær eldavélar eins og í amerískum sjónvarpsþáttum kæmust ekki fyrir í eldhúskytrunni, nema með því að úthýsa öllum skápum, skúffum og vaskinum. Málamiðlunin var sú að fá uppþvottavél en slík græja hefur ekki verið á mínu heimili í áraraðir, enda alls kostar óþörf, uppþvottagræjurnar á mínu heimili raða upp í skápana að uppþvotti loknum. Þetta er eiginleiki sem finnst hvergi á markaði hefðbundinna uppþvottavéla en nokkuð hefur borið á kvörtunum frá hluta græjanna sem finnst vélvæðing uppþvottar hluti af nútímavæðingu heimilisins.
Þrjú vörubretti af innréttingaefniviði bárust svo síðla dags á föstudegi og voru skilin eftir fyrir utan húsið. Fjölskyldumeðlimir, að húsmóðurinni meðtalinni, ferjuðu góssið upp á fjórðu hæð og þurftu ekki frekari líkamsrækt þann daginn. Íbúðin lítur út eins og illa skipulagður vörulager búsáhaldaverslunar, eldhúsdót í kössum á víð og dreif um svæðið og kassar með innréttingadóti í háum stöflum á stofugólfinu. Framkvæmdum miðar víst vel enda brá eiginmaðurinn á það ráð að senda húsmóðurina í sumarbústað í sveit með systrum rétt á meðan mesta framkvæmdahrinan gengur yfir.
Við systurnar höfum það bara ljómandi gott, þakka ykkur fyrir og skálum reglulega fyrir framtakssömum eiginmönnum. Ég hlakka til heimkomunnar.
Guðríður Helgadóttir, húsmóðir
1 Ummæli
Ég tek heilshugar undir með áhugaleysi á eldhúsinnréttingum, það er hinsvegar óhjákvæmilegt að fara í málið í sumar þar sem allt er orðið ónýtt, gamla eldhúsið og gólfið líka. Þarf sem sagt að rýma eldhúsið og líka geymsluna neðan við. Lakast að ég get ekki vísað valinu á neinn annan. Dööhh.
Comments are closed.
Add Comment