Ekki þinn

Vorið er ótrúlega annasamur tími hjá fólki sem vinnur við kennslu. Ég hef verið svo ljónheppin undanfarna áratugi að ég hef verið í draumastarfinu mínu, hef verið á fullu kaupi við það að tala um blóm og tengd viðfangsefni við fólk sem oftar en ekki virðist hafa þó nokkurn áhuga á því sem ég fjalla um í kennslunni. Agavandamál hafa ekki verið til trafala og sárasjaldgæft að hrotur í nemendum yfirgnæfi mig í fyrirlestrum. Nemendur hafa miklar væntingar til námsins í garðyrkjunni og við sem sinnum kennslunni erum því alltaf á tánum og vöndum til verka, hvort sem það er í bóklegri eða verklegri kennslu. Það gerir það að verkum að stundum eru dagarnir langir og hugurinn fastur í vinnunni, jafnvel þegar síst skyldi.

Þannig var staðan seint á föstudegi þegar ég kom heim, lúin eftir langan dag í Laugardalshöllinni þar sem nemendur mínir í skrúðgarðyrkju tóku þátt í Íslandsmeistaramóti iðngreina og allar aðrar námsgreinar Garðyrkjuskólans voru kynntar fyrir gestum og gangandi, þar með talið um 9.000 grunnskólanemendum. Við heimkomuna kom í ljós að ég yrði ein í kvöldmat og því ákvað ég að skjótast í búðina og kaupa mér eitthvað girnilegt í matinn. Ég skellti mér í úlpu og skó, greip veskið og símann og skokkaði niður stigann og velti því fyrir mér á leiðinni hvað mig langaði mest til að borða.

Þegar ég kom út á bílaplanið fyrir framan húsið tók ég eftir því að við hliðina á bílnum mínum stóð maður á að giska á miðjum aldri og talaði í símann á útlensku. Ég spáði svo sem ekki mikið í það, enda hugurinn í hálfu starfi við að velja kvöldverð, en eftir því sem ég nálgaðist bílinn minn sá ég að hann horfði mjög ákveðið á mig. Mér datt helst í hug að maðurinn hlyti að kannast við mig úr sjónvarpinu, ég var jú einu sinni dálítið fræg og maður á þessum aldri hefði kannski séð einn eða tvo garðyrkjuþætti á sínum tíma. Ég nikkaði því kurteislega til hans, opnaði bílinn með fjarstýringunni, gekk rakleiðis að hurðinni, reif hana upp og skellti mér undir stýrið. Rétt um það bil sem ég mundaði lykilinn í svissinn kom maðurinn að hurðinni, horfði djúpt í augu mér og sagði: ,,Not your car“. Ég horfði á hann í forundran og hann endurtók sig, ,,not your car“ og benti nú með símalausu hendinni í áttina að húsinu. Viti menn, þegar ég sneri mér við í sætinu og horfði upp að húsinu blasti við bíllinn minn, hinum megin á stæðinu, alveg við innganginn, friðsæll og spakur og vantaði ekkert nema bílstjórann sem var greinilega á alvarlegum villigötum. Ég leit skelfingu lostin á manninn og stundi upp ,,só sorrí, só sorrí“ um leið og ég hrökklaðist út úr bílnum, sem var mjög greinilega alls ekki bíllinn minn. Þarna hefði ég verið mjög þakklát hefðu geimverur kosið að nema mig á brott en því miður voru þær greinilega uppteknar annars staðar á þessu andartaki. Þess í stað mátti ég ganga alla leiðina yfir bílastæðið með skottið milli fótanna og að mér fannst stingandi augnaráð erlenda bíleigandans blýfast milli herðablaðanna.

Grái bíllinn minn malaði ljúflega þegar ég setti hann í gang og þegar ég ók út af bílastæðinu sá ég út undan mér að eini munurinn á bílnum mínum og bílnum sem ég hafði nærri því tekið eignarnámi (kann alls ekki við að nota orðið ,,stolið“ í þessu samhengi) voru síðustu stafirnir í bílnúmerinu, að öðru leyti voru bílarnir alveg eins, þannig að þetta var nú svo sem alveg skiljanlegur misskilningur. Eigandi bílsins stóð enn við hlið hans og talaði í símann og hefur vonandi ekki verið að gera viðeigandi yfirvöldum viðvart.

Kvöldmatinn valdi ég í búðinni og var þá komin á það stig að mér fannst þetta nú bara frekar fyndið atvik, nánast bráðhlægilegt en um leið einstaklega vandræðalegt og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að aka einn aukahring um hverfið til að vera alveg viss um að rekast ekki á erlenda bíleigandann þegar heim kæmi. Að endingu ákvað ég þó að bíta á jaxlinn og ók rakleiðis heim. Tvíburabíllinn var enn á bílastæðinu en nú var augljóst að bíleigandinn ætlaði ekki að taka neina áhættu, hann sat sjálfur undir stýri, væntanlega til að takmarka möguleika mína á að ná af honum bílnum í annað sinn. Sjálf lét ég sem ekkert væri, greip innkaupapokann og skutlaðist inn um dyrnar. Um leið og ég hvarf inn í húsið sá ég hins vegar að erlendi bíleigandinn steig aftur út úr bílnum sínum og hélt áfram að tala í símann, rétt eins og ekkert hefði í skorist.

Það er hins vegar deginum ljósara að ég þarf eitthvað að vinna í mínum málum. Eitt er að vera ómannglöggur, annað og alvarlegra að vera óbílglöggur. Næst þegar ég ruglast óvart á bíl ætla ég þó að velja mér nýlegan rafmagnsbíl, rauðan.

Guðríður Helgadóttir, vandræðalega viðutan

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur