Skortur á sólarljósi er eitt af því sem er einkennandi fyrir janúarmánuð. Jafnvel þótt framboð af birtu vaxi löturhægt með hverjum degi eftir því sem líður á mánuðinn held ég að aldrei verði hægt að tala um bjartan og sólríkan janúarmánuð, nema með dágóðum skammti af kaldhæðni. Ekki nóg með að sólin haldi sig annars staðar í heiminum á þessum árstíma, þá halda veðurguðirnir að þetta sé tíminn til að prófa allar mögulegar útgáfur af vindstyrk og úrkomu, sem allt stuðlar að því að fólk haldist innandyra. Afleiðingar þessa sólarskorts eru alþekktar, fólk gengur um aldúðað, að minnsta kosti ef það hættir sér út undir bert loft, þrátt fyrir dúðann eru frostbitin andlit og frostsprungnar hendur algeng sjón, að ógleymdum undanrennubláa húðlitnum sem minnir meira á uppvakninga en sprelllifandi fólk. Það vekur því ekki furðu að á þessum árstíma leiti eldri borgarar suður á bóginn í sól og hita og ungviðið reyni að ná upp eðlilegum hörundslit, með öllum tiltækum ráðum.
Um daginn varð ég vitni að brúnkuslysi sem vakti upp mjög svo óþægilegar minningar af unglingsárunum, minningar sem hugurinn hefur sjálfsagt hamast við að bæla niður en því miður er gleymskunnar dá greinilega ekki endastöð óþægilegra minninga. Á menntaskólaárum mínum þótti ekkert tiltökumál að stunda ljósabekki tímunum saman og til voru ákveðnir þjóðfélagshópar, svokallaðir hnakkar, sem voru súkkulaðibrúnir árið um kring og hreystin uppmáluð, enda fegurðin í brúnkunni fólgin. Ég var hins vegar á hinum enda mannrófsins, föl á hörund og átti því enga möguleika á að vera í þessum glæsilega hópi hreystimenna, ég var sosum alveg sátt við það en langaði samt til að líta út fyrir að vera með lífsmarki.
Amma vinar míns var ein af þessum eldri borgurum sem flýði suður á bóginn á veturna og þess á milli hélt hún brúnkunni við með háfjallaljósaperu sem hún keypti dýrum dómum. Fyrir eina árshátíðina í febrúar datt mér því það snjallræði í hug að semja við ömmuna um afnot af háfjallaperunni. Var það auðsótt mál og fylgdu leiðinbeiningar með, andlitið átti að vera í um metersfjarlægð frá perunni í eina mínútu og algert skilyrði að hylja augum með sundgleraugum sem amman lagði einnig í té. Ég fylgdi fyrirmælunum til hins ítrasta, fann hvernig örlítill ylur kom frá lampanum og lék um líkfölt andlitið en náði þó ekki alveg að hitna í framan. Eftir mínútuna leit ég í spegil og sá þá mér til skelfingar að ljósabaðið hafði ekki haft nein áhrif. Þvílík vonbrigði! Ég var þó strax á unglingsárum sérlega úrræðagóð manneskja þannig að ég kveikti aftur á perunni, stillti mér upp í um 60 cm fjarlægð og sólaði mig í tvær mínútur til viðbótar og viti menn, þegar ég leit í spegilinn sást far eftir sundgleraugun! Aldrei hefur nokkur manneskja fagnað pandalúkkinu eins og ég á þessari stundu. Ég sá fyrir mér aðdáunaraugnaráð bekkjarfélaganna þegar ég kæmi gullinbrún og sælleg á árshátíðina, nyti áður óþekktrar karlhylli, yrði aðalskutlan á ballinu. Ég stökk fram í eldhús til ömmunnar og þakkaði henni kærlega fyrir. Hún var dálítið skrýtin á svip þegar hún sá farið eftir gleraugun en eins og ömmum er tamt gaf hún mér bara knús og óskaði mér góðrar skemmtunar á árshátíðinni. Á leiðinni heim í strætó fór mér nú aðeins að hitna í vöngum og förunautar mínir gjóuðu á mig augum þannig að ég vissi að þetta brúnkubragð myndi nú aldeilis slá í gegn. Á leiðinni frá stoppustöðinni og heim til mín fannst mér eins og sjónsviðið væri aðeins að þrengjast og enn hlýnaði mér um vanga en það var ekki fyrr en ég kom heim og mamma féll nánast í yfirlið að ég fór að efast um að augnagoturnar í strætó hefðu verið af aðdáunartaginu, enda var mér nú smám saman að skiljast að ég var öll að bólgna upp. Ég leit því í spegil og við mér blasti rauðþrútið pandaskrímsli með tvær örmjóar rifur í stað augna.
Mamma tók málin í sínar hendur, hringdi strax í heimilislækninn, lýsti ástandinu og yfirvofandi árshátíð og brást læknirinn eldskjótt við. Örskömmu síðar kom mamma með sérstakt töfrakrem til að draga úr bólgum og brunasárum. Daginn eftir komst ég ekki í skólann, enda hafði ég nú frekar takmarkaðan áhuga á samneyti við annað fólk en á þriðja degi var ekki um annað að ræða en mæta örlögunum, enda var ég farin að sjá nokkuð vel út um rauðþrútna augnahvarmana. Viðbrögð bekkjarfélaganna voru nokkuð fyrirsjáanleg, aðdáunaraugnaráðin sem ég hafði vonast eftir, voru víðs fjarri og ekki laust við að nokkrir þyrftu læknisfræðilega aðstoð til að ráða niðurlaga magakrampa sem helgast af stjórnlausum hlátri um langa hríð. Á árshátíðinni dansaði ég við vinkonu mína.
Allt þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ein af ungmeyjunum mínum fjárfesti í brúnkukremi fyrir dökka húð til að ná sem mestri brúnku fyrir ball í skólanum, sjálf er hún venjulega frekar ljós á hörund eins og hún á kyn til. Eftir fyrstu umferðina með kreminu fannst henni ekki nóg að gert þannig að hún skellti strax í aðra umferð og bar kremið á með berum höndum, gekk hún svo til náða. Næsta morgun brá mér í brún þegar ég leit barnið augum. Skærappelsínugulur hörundslitur hennar minnti helst á litinn á forseta Bandaríkjanna eða vel þroskaðar gulrætur. Bestur var þó brúnkuárangurinn inni í lófunum, á stað þar sem sólarljósið nær nú sjaldnast viðlíka áhrifum. Blessað barnið mætti sams konar skilningi meðal sinna vina og móðirin forðum.
Lærdómurinn af þessum brúnkuslysum er einfaldur. Ef maður ætlar að borða fíl, er best að gera það í smáum bitum.
Guðríður Helgadóttir, brúnkufræðingur