Baráttan um bílastæðið

Nú heldur kannski einhver að ég ætli að láta gamminn geisa um stöðu einkabílsins í Reykjavík og þeirri staðreynd að bílastæðum fækkar ár frá ári en nei, það er af og frá. Ég ætla að fara yfir mun alvarlegra og nærtækara mál sem snertir mig persónulega. Þar sem ég bý í uppsveitum Kópavogs er bílastæðaskortur ekki enn farinn að hrjá okkur úthverfafólkið sem neinu nemur enda er illfært um Kópavogsfjöllin lungann úr árinu öðru vísi en á fjórhjóladrifnu farartæki, helst upphækkuðu á stórum dekkjum og með skóflu, tjakk og startkapla í skottinu. Þetta er veruleikinn þrátt fyrir að ástand gatnakerfis Kópavogs hafi tekið stakkaskiptum frá því malbikuðu spottunum fjölgaði verulega, eins og frægt varð í ódauðlegu kvæði á síðustu öld.

Eftir óvenju milt haust með heitasta nóvember frá því nítjánhundruð og eitthvað, skall á með brunagaddi og í kjölfarið ofankomu sem hefði sómt sér vel á hvaða jökli sem er. Einhverra hluta vegna eru svona veðrabrigði alltaf jafn óvenjuleg á hverju ári og kemur okkur Íslendingum stöðugt á óvart, að minnsta kosti þeim hluta landsmanna sem býr hér á Suðvesturhorninu enda hafa landar okkar í öðrum landshlutum hamast við að brenna kerti í gríð og erg til stuðnings okkur vesalingunum í bænum.  Takk elskurnar.

Þannig var því staðan á laugardagsmorgni viku fyrir jól að nánast þurfti að nota málmleitartæki til að finna bíla í snjósköflum hverfisins og góð ráð dýr, ungmeyjarnar þurftu að komast í vinnuna á réttum tíma. Faðirinn dúðaði sig í vetrargallann, skellti á sig staðsetningartæki, svona til öryggis ef hann hyrfi í fannfergið og óð út í sortann til að ræsa gamla trausta fjallajeppann sem kemst allt. Eftir nokkurra kortera mokstur var jeppinn klár til brottfarar, eldri ungmeyjan komin í föðurland og ullarsokka og klár í ferðalagið með pabba sínum. Ekki sóttist þeim ferðin hratt og reyndar svo hægt að þar kom að að yngri daman þurfti einnig að komast af stað í sína vinnu. Kom nú til kasta móðurinnar. Í kuldagalla og lopapeysu mokaði hún litla krúttlega fjórhjóladrifna fólksbílinn úr bílastæðinu og mokaði í leiðinni smá leið út á bílaplanið svo hægt væri að athafna sig með góðu móti. Fljótt á litið reiknast mér til að brenndar kaloríur við þetta puð dugi fyrir öllum kræsingum jólanna og langleiðina fram að áramótum. Aðrir bílar kúrðu undir snjósænginni alveg sallarólegir og eigendur þeirra væntanlega afslappaðir og óhreyfðir undir sínum dúnsængum innanhúss. Við mæðgurnar skottuðumst upp í bílinn og ókum af stað en höfðum ekki ekið nema fáeina metra þegar við komum að fólksbíl sem stóð þversum í götunni. Eldri maður mokaði og mokaði frá bílnum en heldur óskipulega að mati vanra mokara. Eftir langa mæðu mjakaði hann sér löturhægt upp í bílinn og gerði sig líklegan til að aka á brott en með óskiljanlegum hætti tókst honum að snúa bílnum í 180 gráður og stöðva hann svo öfugan á sama stað. Þarna rann upp fyrir okkur mæðgum að við færum ekki lönd eða strönd. Við snerum því við og lögðum bílnum aftur í vel mokaða bílastæðið okkar. Nokkru síðar kom faðirinn úr fyrri skutlferð dagsins og kom yngri dömunni líka klakklaust á leiðarenda.

Eftir hádegið þurfti ég að bregða mér af bæ á bílnum mínum og uggði ekki að mér, ég segi það satt. Þegar ég kom aftur heim hafði einhver tilætlunarsamur frekjudallur rænt bílastæðinu mínu. Hvað er eiginlega að fólki? Getur það ekki mokað sín eigin bílastæði? Skilur það ekki að að baki vel mokuðu og snjólausu bílastæði liggur gífurleg vinna mokarans og hann ætlast til þess að geta ekið að sínu stæði vísu þegar hann kemur aftur heim? Það snarfauk í mig en sem betur fer bý ég yfir töluverðri sjálfstjórn þannig að ég sleppti því alveg að stinga göt á dekkinn á bílnum eða renna létt yfir hliðarnar á honum með lykli. Þess í stað hringdi ég í eiginmanninn, tilkynnti honum að mér seinkaði aðeins, kom mér haganlega fyrir á bílastæðinu og beið þar til leiðindapúkinn fjarlægði bílinn úr stæðinu mínu. Ef ég lendi í svona aðstæðum aftur ætla ég þó að vera með skemmtilega bók með mér í bílnum og jafnvel hleðslutæki fyrir símann og mögulega fjölbreyttara og innihaldsríkara nesti en sykurlausan ópal, sem betur fer var nóg vatn á vatnsbrúsanum og ég gat af og til kveikt á bílnum til að halda á mér hita. Nú fer vel um bílinn minn í vel mokaða stæðinu mínu, ég veifa af og til til hans út um gluggann en það er ekki nokkur einasti möguleiki á að ég færi hann úr stað, ekki fyrr en hlánar. Ég ætla sko ekki að tapa stæðinu mínu.

Gleðileg jól.

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur