Örstuttu eftir fæðingu sína eru ungmeyjarnar mínar farnar að ybba gogg og keyra. Einhvers staðar á leiðinni hef ég greinilega lokað báðum augum samtímis í smástund og þær notað tækifærið og fullorðnast meira en góðu hófi gegnir, það sama verður ekki sagt um mig, ég hef verið í óbreyttu ástandi síðustu áratugi og verð áfram. Annar fylgifiskur þess að vaxa úr grasi er stóraukinn áhugi á hinu kyninu og er ég aðeins farin að velta því fyrir mér hvernig mér muni ganga að takast á við þær flækjur sem fylgja svoleiðis málum. Þá segir kannski einhver að maður þurfi ekki annað en að leita í eigin reynsluheim, oft fleyti reynslan manni áfram í erfiðum aðstæðum en ég er ekki alls kostar viss um að það komi að gagni í mínu tilfelli.
Ekki sé ég fyrir mér að það sé raunhæfur kostur að takmarka aðgang ungmeyjanna að símtækjum, sá tími heyrir sögunni til, annað en var á mínum uppvaxtarárum þegar einn sími var á hverju heimili, símtöl rándýr og ekki í boði að hanga í símanum heilu og hálfu dagana að spjalla við vini um allt og ekkert. Þetta samskiptatæki var því að mörgu leyti fullkominn aðgangsstýringarbúnaður.
Síminn á æskuheimili mínu var í holi í miðri íbúðinni og snúran sem tengdi hann við innstunguna í vegginn var lengi vel ekki nema 2 metrar á lengd, vegalengd sem fólk í dag þekkir vel því það er sú fjarlægð sem á að vera á milli manna til að draga úr hættu á veirusmiti. Einkasímtöl voru því mjög erfið í framkvæmd, nánast ómöguleg enda var það eitt aðalbaráttumál okkar systra að fá foreldra okkar til að kaupa langa snúru svo hægt væri að draga sig í hlé með símtækið. Það þarf nú varla að taka fram að þráðlausir símar voru seinni tíma uppfinning. Við systurnar vorum einnig mjög áhugasamar um símtöl hverrar annarar, einhver myndi halda því fram að við værum forvitnar en við lítum frekar svo á að okkur sé ekkert mannlegt óviðkomandi, að minnsta kosti þegar að systrahópnum kemur. Ég var að sjálfsögðu engillinn í systrahópnum, stundaði nám og tómstundir af kostgæfni, las bækur og dundaði mér við handavinnu og hafði lítið af hinu kyninu að segja. Það bar því til töluverðra tíðinda þegar síminn hringdi, pabbi var næstur símanum og greip símtólið, svaraði hranalega ,,Halló??”, rétti svo símtólið upp og hélt því í armlengd frá sér um leið og hann þrumaði svo undir tók í fjöllunum: ,,Guðríður, það er einhver graðnagli í símanum að spyrja um þig, hann kynnti sig ekki einu sinni!!” Ég komst aldrei að því hver graðnaglinn var, hann kynnti sig jú ekki og hringdi aldrei aftur, viðtökur föður míns hafa örugglega spurst út í graðnaglasamfélagið og þar með komið í veg fyrir allar hringingar til mín. Að minnsta kosti liðu næstu ár hjá án frekara áreitis karlkynsins í gegnum símann.
Önnur aðferð til að koma ungu fólki í andnauð og blóðþrýstingsvandræði og setur siðgæðisvarnarkerfið á hæsta viðbúnaðarstig er að spyrja hranalega ,,Hverra manna ert þú??” Elskulegir foreldrar mínir náðu að skapa sérstakt listform með þessari spurningu, ég er steinhissa á því að þau hafi ekki fengið óskarsverðlaun eða að minnsta kosti Edduna fyrir stórkostlegt samspil ógnandi andlitsfalls og líkamsstöðu við framsetningu orða sem hvert um sig er ekki mjög hræðilegt en samankomin geta sett hörðustu graðnagla úr andlegu jafnvægi á núll komma einni. Enn þann dag í dag fæ ég hroll niður eftir bakinu við tilhugsunina um þessar aðfarir foreldranna en því miður er þetta spurning sem ungt fólk í dag hefur ekki skilning á. Manna hvað?? Af sama meiði er orðið pamfíll, sem elskulegur faðir minn notaði á svipaðan hátt og graðnagli og vakti álíka mikla gleði meðal viðstaddra og þegar hann svaraði í símann forðum.
Sennilega náðum við systurnar þó áður óþekktum lægðum þegar yngsta systirin ákvað að frumsýna glænýjan kærasta í afmælisboði sem haldið var heima hjá ónefndum veiðimanni. Við eldri systurnar notuðum tækifærið þegar sú yngsta brá sér á snyrtinguna og fórum yfir helstu öryggisatriði kynlífs með nýja kærastanum. Til stuðnings notuðum við gamla óhlaðna og að mestu ónýta haglabyssu en amman á heimilinu hafði prjónað nokkurs konar sokk sem dreginn var upp á hlaupið og festur við skeftið með slaufu. Þegar yngsta systirin kom fram af snyrtingunni blasti við furðu lostinn kærastinn, rjóðari í kinnum en nokkur maður hefur áður verið, nær lamaður af skelfingu, umkringdur eldri systrunum sem útskýrðu fyrir honum í smáatriðum aðferðafræðina við að draga sokkinn upp á skeftið. Þetta samband entist ekki lengi.
Niðurstaða mín er því sú að það sé ekki vænlegt til árangurs að leita í reynslubankann eftir viðbrögðum við ástarmálum ungmeyjanna. Eldri dóttir lýsti því reyndar yfir, um það bil sex ára gömul, þegar hún horfði á Eurovision og sá fallegt par syngja dúett að þau væru augljóslega kærustupar, hún væri nú sérfræðingur í ástinni. Kannski þarf ég engu að kvíða en sem betur fer virðast ástartilburðirnir vera að mestu rafrænir þessa dagana…
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og símamær
3 Ummæli
Aldeilis stórskemmtilgur pistill eins og von er á frá þér. Dásamleg úttekt á fyrstu viđbrögđum ættingja og foreldra heimasætunnar. Man vel eftir kvíđanum fyrir fyrstu heimsókn til verđandi tengdaforeldra. Kom varla upp orđi og var örugglega metinn í ruslflokk af þeim. Tók langan tíma ađ bæta fyrir aulaháttinn. Mér til hróss er fyrverandi nemandi minn úr MR, núverandi tengdasonur og hefur ekki flúiđ vetfanginn í ein 20 ár. Takk fyrir Gurrý
En hvað þetta var skemmtilegt! Bestu þakkir, kæra Gurrý.
Frábær grein hjá þér Gurrý þú stendur þig vel kær kveðja Guðm..??
Comments are closed.
Add Comment