Allt er þá þrennt er

Þetta hávísindalega orðatiltæki var mér og sessunautum mínum í Laugardalshöllinni greinilega ofarlega í huga þar sem við sátum og biðum örlaga okkar, þriðju sprautunnar sem á að gera allt gott aftur, galopna öldurhús og elliheimili, veitingastaði og veislusali og trekkja túrismann í gang aftur. Satt best að segja var ég við það að verða úrkula vonar um að fá boð í þessa blessuðu sprautu, bókstaflega allir í kringum mig búnir að fá sms en ég starði á símann tímunum saman, beið eftir bíbbinu sem aldrei kom en kom svo samt á endanum og ég hoppaði hæð mína af gleði (allt í lagi, kannski ekki hæð mína en örugglega nokkra sentimetra). Ég hafði ekki gleymst, ég var enn stak í bólusetningarmenginu, með í hópnum, hvorki utangátta né utanveltu. Léttirinn var töluverður og ég fór strax í að velja rétta klæðnaðinn því auðvitað fylgdu skýrar leiðbeiningar um slíkt, rétt eins og á skemmtunum áður fyrr þar sem þótti ástæða til að tilgreina að snyrtilegur klæðnaður væri áskilinn. Eftir nokkrar mátanir þar sem vídd og snið stuttermabola var kannað með mögulega stungustaði og aðgengi í huga, varð fyrir valinu sami bolur og síðustu bólusetningum, sem sagt bolur með reynslu. Á svona stundum er mikilvægt að finna fyrir styrk og stuðningi enda framtíð þjóðarinnar í húfi.

Ég lagði tímanlega af stað í bólusetninguna, ók sem leið lá úr uppsveitum Kópavogs suður til Reykjavíkur og eftir því sem ég nálgaðist Laugardalshöllina þéttist bílamergðin mjög og hægði verulega á umferðinni. Mér leist ekki á blikuna og ákvað að legga bílnum í hæfilegri fjarlægð og valhoppaði svo að höllinni. Þegar þangað kom skellti ég upp grímunni og gerði mig líklega til að bíða í röðinni en eins og allir vita er það aðalstaðurinn, þar næst oft upp svo bráðskemmtileg djammstemning eins og á böllunum forðum eða samkennd og samhugur eins og í biðröðum þegar raftækjaverslanir hafa opnað á Íslandi og fólk mætir daginn áður til að verða fyrst af öllum að kaupa krullujárn og fjöltengi. Mikil urðu því vonbrigði mín þegar engin var röðin heldur gekk fólk hratt og ákveðið inn í anddyrið, veifaði strikamerki sínu framan í afgreiðslufólk og skundaði í tveimur samhliða og hnífjöfnum röðum inn í salinn, hratt og fumlaust eins og um þaulæfðar gönguæfingar væri að ræða. Ég rétt náði að harka af mér raðarvonbrigðin og þerra tárin á strunsinu inn í salinn. Þegar þangað kom náði ég hins vegar gleði minni umsvifalaust á ný því myndarlegi lögreglumaðurinn, sem hafði einmitt vísað mér til sætis í hinum tveimur bólusetningunum, stóð þar ábúðarfullur en um leið hlýlegur til augnanna og bauð góðan dag. Svo leiðbeindi hann hjörðinni af mikilli fagmennsku á réttan stað, alveg eins og áður. Ég vona að hann hafi náð að fara heim til sín í millitíðinni, samt heyrir maður um manneklu og langar vaktir hjá öllum framlínustarfsmönnum, kannski þeir nái að leggja sig milli vakta bakatil í salnum.

Tveimur röðum framar stóð heill her hjúkrunarfræðinga í bláum hlífðarsloppum með bláa hanska og grímur og alvæpni af spritti og sprautum. Ég rétt náði að henda af mér úlpunni og bretta upp ermina á bolnum góða áður en elskuleg stúlka stóð við hlið mér og spurði hvort ég væri tilbúin. Ég bar mig mannalega og rétti fram vinstri hendina og það er kannski rétt að taka það fram á þessum tímapunkti að mér er ekkert sérstaklega vel við sprautur, heldur gæti ég þess vandlega að horfa í aðrar áttir á meðan sprautað er. Það fór þó ekki hjá því að ég tæki eftir því þegar stúlkan veifaði þeirri lengstu nál sem ég hef á ævi minni séð og gerði sér lítið fyrir og rak hana á bólakaf í handlegginn. Ég get svo svarið það að ég fann þegar nálin kom út um síðuna hægra megin, ég vona bara að bróðurparturinn af bóluefninu hafi orðið eftir inni í líkamanum. Svo dró hún nálina út örsnöggt og þá lagaði blóð úr sárinu. Ég fann mig knúna til að spyrja hvort hún hefði nokkuð hitt á slagæð en hún ku ekki svo vera, slagæðin væri aðeins til hliðar, svo var hún farin í næstu röð. Við tók bið í nokkrar mínútur sem ég notaði til að athuga hvort ég fyndi fyrir einhverjum óþægindum af sprautunni og mikið rétt, ég var strax orðin handlama og komin með hjartslátt en mamma benti mér svo á að það væri mjög eðlilegt að vera með hjartslátt, það væri ekki fyrr en hann hætti sem staðan yrði frekar alvarleg.

Af og til heyrðist í sterkraddaðri konu hrópa áfram! og stökk þá hjúkrunarfræðingahópurinn fram um eina röð en skyndilega var kallað yfir! og þá stormaði liðið alla leið yfir salinn, ýtti á undan sér hjólaborðunum  með tólum og tækjum og minnti skröltið helst á vel sótt Íslandsmeistaramót í spretthlaupi með göngugrind. Að liðinni lögboðinni bið kom elskulegi lögregluþjónninn og spurði hvort ekki væri allt í góðu hjá okkur á þriðja bekk, bauð okkur að ganga úr salnum og þakkaði fyrir komuna, nákvæmlega jafn hlýlegur og í öll hin skiptin. Vonandi fær hann góðan jólabónus fyrir frammistöðuna.

Eftir að hafa tekið þátt í þremur bólusetningum sem allar hafa gengið snurðulaust fyrir sig og verið þjóðinni til mikils sóma ætla ég samt að vona að þetta dugi til og orðatiltækið okkar góða, allt er þá þrennt er reynist happadrjúgt. Ef ekki þá er kannski bara fullreynt í fjórða.

Guðríður Helgadóttir þriðja

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur