Fyrsti íslenski sérfræðingurinn í lífrænni ræktun

Lesendum Heilsuverndar er Guðfinnur Jakobsson garðyrkjumaður að góðu kunnur fyrir þætti hans um garðyrkjumál síðustu tvö ár. Guðfinnur vann í garðyrkjustöð Heilsuhælis NLFÍ í Hveragerði árin 1972 til 1975 og stundaði jafnframt nám í Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum og lauk þaðan prófi í ársbyrjun 1976 með mjög lofsamlegum vitnisburði. Haustið 1976 hélt hann til Svíþjóðar til náms í skóla fyrir bíódynamiska ræktun í Järna, en það er bær skammt fyrir sunnan Stokkhólm. Þetta er ársskóli, hinn eini sinnar tegundar á Norðurlöndum, og fer þar fram bæði bókleg og verkleg kennsla. Þar er einnig kúabú. Guðfinnur mun í næsta hefti Heilsuverndar lýsa nánar tilhögun kennslunnar.

Næsta ár starfaði Guðfinnur sem garðyrkjumaður í vinnuskóla fyrir þroskahefta. Og nú er hann kominn til starfa hjá Heilsuhæli NLFÍ sem garðyrkjustjóri og fyrsti íslenski sérfræðingurinn í lífrænni ræktun.

Guðfinnur er fæddur 13. des. 1943. Kona hans er Jakobína Gunnþórsdóttir hjúkrunarkona, en hún hefir unnið í heilsuhælinu í Hveragerði og starfaði ásamt eiginmanni sínum við vinnuskólann í Svíþjóð. Þau hjón eiga fjögur börn á aldrinum 4 til 11 ára.

Formælendur náttúrulækningastefnunnar, þeirra á meðal Jónas Kristjánsson og Are Waerland, lögðu löngum á það ríka áherslu, að við ræktun matvæla og fóðurs sé sneitt hjá notkun tilbúins áburðar og hverskonar skaðlegra lyfja til að verjast sýklum og meindýrum við ræktun og geymslu. Það er því mikið fagnaðarefni að hafa fengið til starfa lærðan áhugamann á þessu sviði.

BLJ

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 4. tbl. 1978, bls. 85

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Lífræn ræktun – Framtíð okkar allra