Það er viðeigandi að virkja aftur plöntuhornið hér á síðunni með friðarlilju. Því veitir ekki af smá frið á þessum stríðstímum sem við lifum á.
Friðarlilja (Spathiphyllum wallissi) er vinsæl planta á íslenskum heimilum og fyrirtækjum enda stórglæsileg og mikil stofuprýði.
Hún er sígræn planta sem blómstrar fallega hvítum blómum á löngum stöngli. Friðarliljan er með stór blöð 12-65 cm löng og 3-25 cm breið.
Friðarliljan er ættuð úr frumskógum S-Ameríku, þar sem hún vex við heitar, rakar og skuggsælar aðstæður.
Blómgunartími friðarliljunnar er aðallega á vorin þegar birta eykst.
Staðsetning
Friðarliljan þarf góða birtu en hentar ekki að vera í beinu sólarljósi. Hún dafnar því best í nálægð við austur- eða norðurglugga. Ef plantan blómstrar ekki er það líklega vegna lítillar birtu og því mikilvægt að færa plöntuna á bjartari stað, án þess að hún fari í beina sól.
Hita- og rakastig
Þar sem hún er ættuð úr frumskógum S-Ameríku þolir hún ekki of lágt hita- eða rakastig og þrífst hún best við 18-24°C og mikinn loftraka. Gott er að úða reglulega yfir plöntuna því oft vantar loftraka á heimilum.
Vökvun og næring
Vikuleg vökvun er æskileg en þó ekki of mikið, sérstaklega á veturna. Friðarlilja er ekki frek á næringu og er hentugt að vökva með þunnum áburðarvökva í þriðja hvert skipti á blómsturtíma frá vori og fram á haust.
Annað
Friðarlilja er mjög lofthreinsandi og talið er að hún geti dregið til sín óæskileg efni í andrúmsloftinu eins og formaldehýð, bensen og kolmónoxíð.
Þó að friðarlilja vaxi ekki utandyra á Íslandi þlá getur hún dafnað vel utandyra í loftslagi þar sem aðstæður eru heitar og rakar.
Friðarliljan, þó lilja sé kölluð er ekki af Liljuættinni Liliaceae. Sannar liljur eru oft mjög eitraðar, og þola húsdýr eins og hundar og kettir þær illa, en friðarliljan er ekki eins eitruð og aðrar liljur. Friðarliljan inniheldur kalsíumoxalat kristalla sem geta valdið kláða á húð, brunatilfinningu í munni og ógleði.
Því er æskilegt að halda plöntunni frá óvitum og húsdýrum, sem gætu mögulega smakkað á plöntunni.
Heimildir:
https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/fridarlilja-%E2%80%93-falleg-allt-arid
https://www.gardheimar.is/is/inniplontur-og-pottar/pottaplonturnar/fridarlilja
https://en.wikipedia.org/wiki/Spathiphyllum
https://en.wikipedia.org/wiki/Liliaceae
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is