Fósturgeitin Bella er búin að bera


Fósturgeit Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) hún Bella, sem býr að Háafelli í Hvítársíðu (www.geitur.is), bar fallegri huðnu í fyrrakvöld. Við munum fá myndir af þeim mæðgum við fyrsta tækifæri.

NLFÍ er stolt af því að styrkja ræktun á íslenska geitastofninum. Fósturgeitur auka nefnilega möguleika bændanna á Háafelli á að stækka geitastofninn og gera ræktunina að hagnýtri landbúnaðargrein.
Tengsl íslenskra borgarbarna við sveitir landsins eru alltaf að minnka. Þessi möguleiki fólks, að taka geitur í fóstur, eykur tengsl borgarbúa við sveitir landsins.

Ritstjóri NLFÍ fór á dögunum í heimsókn að Háafelli til að heilsa uppá Bellu og Hansínu, dóttur hennar, sem fæddist í fyrra.  
Jóhanna bóndi á Háafelli tók vel á móti mér og fjölskyldu minni. Búskapurinn á Háafelli er mjög blómlegur. Þarna eru ekki bara landnámsgeiturnar á vappi heldur eru líka til sölu ýmsar afurðir frá geitunum s.s skinn, mjólk, pylsur, krem og sápur. Þar eru einnig til sölu snyrtivörur sem unnar eru úr jurtunum sem ræktaðar eru við bæinn.
Við heilsuðum uppá geiturnar þó Bella hafi ekki verið mjög spök eða gestrisin (því hún var ekki búin að bera) þá bætti dóttir hennar Hansína fyrir afskiptaleysi móðurinnar og var mjög mannelsk.
Það var gaman að sjá hvað geitur eru miklu mannblendnari en íslensku kindurnar sem eru oft mjög styggar. Sérstaklega voru kiðlingarnir mikið fyrir knúsið og kjassið og langaði mann helst að taka þá með sér heim.

Við hjá NLFÍ þökkum Jóhönnu á Háafelli innilega fyrir að taka svona vel á móti okkur og það er gaman sjá hversu vel íslenski geitastofninn er að dafna þarna.

Skrifað af Geir Gunnar Markússyni, ritstjóra NLFÍ.

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Lífræn ræktun – Framtíð okkar allra