Fegurðin í náttúrunni – Pistill frá Gurrý


Margar skoðanakannanir undanfarin ár benda til þess að flestir ferðamenn sem koma til Íslands vilji sjá óviðjafnanlega náttúru landsins. Kvikmyndafyrirtæki hafa komist að því að landið komi sérlega vel út í mynd og senda hingað heimsfrægar kvikmyndastjörnur sem líta enn betur út, með þennan fallega bakgrunn.  Ekki spillir að hægt er að bjóða upp á hugguleg eldgos sem koma vel út í mynd og eru jafnvel notuð sem bakgrunnur fyrir ameríska morgunsjónvarpsþætti.  Önnur eins landkynning er fáheyrð. 

Íslendingar almennt virðast vera þeirrar skoðunar að þeir búi í einu fegursta landi heims.  (Þessi fullyrðing byggir á ítarlegum viðtölum mínum við mína nánustu ættingja og vini.)  Flestir nefna ósnortna náttúruna, óhindraða fjallasýn, ólgandi haf, óútreiknanleg veðrabrigði, bullandi hveri og einstakt gróðurfar sem ástæður þess að landið sé framar öðrum löndum hvað fegurð varðar. 
Í heimi vísindanna þykja það hins vegar ekki góð vinnubrögð að byggja fullyrðingar sem þessar á einkaviðtölum eingöngu þannig að ég ræddi við samstarfsmenn mína um fegurð náttúrunnar og í hverju þeir teldu að fegurðin væri fólgin. 
Einn af mínum ágætu samstarfsmönnum sagði mér þá frá skoðanakönnun sem hann hefur gert hjá nokkrum árgöngum af tveimur mismunandi hópum nemenda.  Annar hópurinn samanstendur af nemendum sem aldir eru upp í sveit, í hefðbundnum búskap og hinn hópurinn af nemendum sem hafa áhuga á náttúrufræði og gróðri en hafa ekki bakgrunn úr landbúnaði.  Könnunin var þannig að hann spurði nemendurna hvort þeim þætti fallegra, vel slegnir vegkantar meðfram íslenskum þjóðvegum eða vegkantar þar sem náttúrulegur gróður, eins og víðitegundir og ýmsar blómplöntur, hefur fengið að vaxa ósleginn upp.  Niðurstöðurnar voru mjög afgerandi.  Þeir nemendur, sem aldir voru upp í sveit, voru mjög hrifnir af vel slegnu vegköntunum en hinn hópurinn var mun hrifnari af þeim vegköntum sem aldrei höfðu verið slegnir. Þessar skýru niðurstöður vöktu miklar umræður meðal samstarfsmanna minna en kannski fyrst og fremst þessar spurningar: Hvernig metur maður fegurð?  Er fegurðarmat meðfætt eða lært atferli?  Er hægt að móta fegurðarsmekk? 

Ég geri mér engar sérstakar grillur um að til séu algild svör við svona stórum spurningum en mín skoðun er sú að fegurðarsmekkur mótist mjög af því umhverfi sem hver og einn lifir og hrærist í.  Nemendurnir með bakgrunn úr hefðbundnum landbúnaði sáu fegurðina í vel slegnum grasköntum. Ég er viss um að þeirra smekkur hefur mótast af uppeldinu, af þeirri ánægju sem fylgir því af horfa yfir vel slegin tún og akra að heyskap loknum og vita að þar með er heimilinu borgið fyrir veturinn, fóðrið komið í hús, bústofninn tryggður.  Fegurðin er fólgin í árangri erfiðisins, bundin tryggðri afkomu búsins.  Nemendurnir sem ekki höfðu bakgrunn úr landbúnaði sáu hins vegar fegurðina í óbeislaðri náttúru, náttúru sem lætur ekki að sér hæða heldur vex upp við erfið skilyrði í vegköntum, sættir sig við saltaustur á veturna og útblástur á sumrin, gefst ekki upp þótt einstaka rolla gæði sér á safaríkum laufblöðunum, náttúru sem mætir sífelldum áskorunum en tórir samt.  Fegurðin er fólgin í fjölbreytninni, bundin þrautseigjunni.    

Ég tel að sérhver atvinnugrein hafi innbyggðar hugmyndir um fegurð sem eru nátengdar afkomu viðkomandi greinar.  Þannig eru rauðir og þrýstnir tómatar ávísun á góða uppskeru og þar með fallegir í augum garðyrkjumannsins, spegilsléttur sjór veit á örugga sjóferð og er því fallegur í augum sjómannsins, skafrenningur á vegum kallar á mikinn mokstur og er þar með fallegur í augum skafarans (snjómoksturssérfræðingsins), skógræktarmenn vita fátt fegurra en beinvaxna viði með myndarlega boli. 

Þessar hugmyndir um afkomutengdan fegurðarsmekk gilda þó ekki endilega um alla sem vinna í viðkomandi atvinnugrein.  Til eru garðyrkjumenn sem eru hreinlega ekkert hrifnir af tómötum, hvað þá að þeim finnist þeir fallegir, sjómenn sem vita fátt fegurra en hvítfysstar öldur, skafarar (einkum í Kópavogi) sem halda sig frekar heima við en stússast í snjómokstri og skógræktarmenn sem rækta kjarr.  Það þýðir samt ekki að þessir einstaklingar séu smekklausir eða í lausbundnum tengslum við atvinnugrein sína.  Á þeim sést að þótt fegurðarsmekkur geti verið afkomutengdur, þarf hann alls ekki að vera það.  Aðdáun náttúruunnenda á íslenskri náttúru er til dæmis seint hægt að tengja við afkomu þeirra, mér vitanlega hafa fáir haft af því góðar tekjur að horfa á fjöll og dali aðdáunaraugum. Ef svo væri er ég þess fullviss að allir þeir ættingjar og vinir sem nefndir voru hér í upphafi þessa pistils væru vellauðugir. 

Niðurstaða mín eftir þessar vangaveltur er byggð á þeim trausta grunni sem hér hefur verið lýst.  Hún er þessi:  Íslensk náttúra er falleg, hvort sem fegurðin er tengd við afkomu eða ekki. 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið