Eldpipar – Chilipipar – Pistill frá Gurrý


Veturinn í vetur fer að öllum líkindum á spjöld sögunnar sem einstaklega hryssingsleg útgáfa af vetri. Hann byrjaði vel, nóvember var mildur og tiltölulega blíðlegur en desember skall á af fullum þunga. Endalaus halarófa af lægðum, kuldakaflar, skafrenningur, asahláka, ófærð, þæfingur, næðingur úr öllum áttum, myrkur og él. Snjórinn hékk þó kyrr á sínum stað rétt yfir blájólin þannig að jólin voru hvít, svo byrjaði fjörið aftur. Svona veðurfar veldur því að manni verður kalt inn að beini og lítið skjól í stöðugri gæsahúðinni.  Lopapeysan verður að staðalbúnaði, jafnvel undir dúnúlpunni og heitir drykkir duga illa til að ná upp eðlilegum líkamshita. Svona veðurfar kallar á sterkari meðul.

Ef manni á að hlýna almennilega er best að gera það innan frá. Þá er ég ekki að tala um gúlsopa af sterku áfengi heldur mat sem yljar manni um hjartaræturnar. Gamla góða kjötsúpan hefur löngum haldið eðlilegum líkamshita á Íslendingum en það getur verið dálítið leiðigjarnt að borða kjötsúpu í margar vikur samfleytt. Það sem þarf er almennilegt krydd í tilveruna, krydd sem bragð er að, krydd sem kveikir í manni þannig að maður logar að innan, krydd sem hrekur gæsahúðina svo rækilega á brott að hún verður minningin ein, kryddið eldpipar.

Eldpipar eða chili-pipar er aflangt aldin plöntunnar Capsicum annuum sem er af sömu plöntuætt og kartöflur og tómatar, kartöfluættinni. Aldin plantna af þessari tegund geta verið fjölbreytt að lögun og mismunandi á bragðið. Paprika og sæt paprika er til dæmis af þessari sömu tegund.  Þær eru frekar belgvíðar, sætar og bragðgóðar og fást í gulum, appelsínugulum og rauðum litum. Aldin þeirra eru rík af C-vítamíni og ákaflega holl og bæði notuð fersk í salöt eða til matargerðar. Eldpiparinn er frábrugðinn þessum bragðmildu og sætu systrum sínum í því að hann er mun sterkari á bragðið og mjóslegnari í vaxtarlagi, yfirleitt annað hvort grænn eða rauður. Til eru mörg yrki af eldpipar og eru þau missterk á bragðið. Plönturnar eru einærar og lifa einungis í nokkra mánuði en á þeim tíma geta þær myndað fjöldann allan af aldinum. Aldinin eru yfirleitt notuð fersk eða þurrkuð sem krydd í matargerð. 

Eldpipar er stundum ruglað saman við fjölæran ættingja sinn, Capsicum annuum var. glabriusculum, sem gengur undir ýmsum nöfnum, fuglapipar (sem vísar til þess að í heimkynnum hans í Mexíkó eru fuglar duglegir að dreifa fræjunum) eða drauga-chili (e. ghost chili). Aldin þessa pipars eru mun minni en aldin eldpipars, þau eru stutt, kúlulaga, dálítið odddregin í annan endann og eru rauð eða appelsínugul á litinn.  Þessi pipar er margfalt sterkari en eldpipar.

Ýmsar tegundir af papriku og eldpipar hafa verið prófaðar í gróðurhúsum Garðyrkjuskólans á Reykjum. Nepalskur góðvinur skólans kom með fræ af chili-pipar að heiman og þóttu aldin þeirra plantna sérlega sterk og krassandi. Úr fræpoka sem skólanum barst frá Englandi komu plöntur sem gáfu áferðarfalleg aldin en ekki dugðu þau til að hrekja hrollinn úr starfsfólki og nemendum. Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem fræ af drauga-chili var sáð og plantnanna beðið í ofvæni.  Upp spruttu myndarlegar plöntur sem fljótlega fóru að blómstra. Aldinin komu hvert af öðru, lítil og dálítið aflöng, eldrauð á litinn og gljáandi.

Skömmu eftir að fyrstu aldinin litu dagsins ljós kom ungur maður í heimsókn í gróðurhúsin. Hann sýndi ræktuninni í húsunum kurteislegan áhuga, allt þar til kom að drauga-chili plöntunni.  Þá rak hann upp mikið fagnaðaróp og harmaði það eitt að félagar hans í chili-klúbbnum væru ekki með sér. Í chili-klúbbi þessum er hópur  vina sem hafa það að áhugamáli að borða bragðsterkan mat.  Í því skyni heimsækja þeir austurlenska veitingastaði og biðja um það sterkasta á matseðlinum. Karlmennskan er í réttu hlutfalli við styrkleika matarins. Þegar gleðilátunum linnti spurði maðurinn hvort hann mætti smakka eins og eitt aldin af drauga-chili plöntunni.  Á þessum tíma hafði starfsfólkið enn ekki náð að safna kjarki til bragðprófana þannig að lítið var vitað um raunverulegan styrkleika aldinanna, þó grunaði starfsmenn að þau gætu verið sterk.  Leyfið til smökkunar var veitt en því fylgdu mikil varnaðarorð.  Ungi maðurinn gladdist mjög, skar sér fallegt aldin af plöntunni og borðaði helminginn af því í einum bita. Aðspurður sagði hann aldinið sterkt á bragðið en alls ekki sterkara en hann átti von á. Hann sporðrenndi því umsvifalaust afgangnum af aldininu. Í stutta stund virtist ástand hans með eðlilegum hætti en skyndilega spratt fram á honum sviti og hann snaraði sér úr þykkri úlpunni. Lopapeysan fór rakleiðis sömu leið. Maðurinn bar sig þó mjög mannalega og gerði lítið úr óþægindum sínum, spurði aðeins hvort hægt væri að fá eitthvað að drekka. Lítið var um drykki á staðnum, annað en blessað blávatnið og það virtist ekki duga til að kæla þann innri loga sem nú hafði greinilega kviknað í meltingarfærum mannsins. Hann hljóp því við fót upp í eldhús skólans og þambaði þar einn lítra af mjólk, sleitulaust. Mjólk er góð og hún sló á logann, mun betur en vatnið hafði gert. Þrátt fyrir þessar eldheitu hremmingar fölnaði gleðibros mannsins aldrei eitt andartak, hann hafði náð að sanna karlmennsku sína svo um munaði og það í vitna viðurvist.

Veðurfarið í vetur hefur gefið starfsfólkinu á Reykjum tilefni til að rifja upp kynnin af drauga-chili plöntunum. Eftir nokkurra mánaða kuldakast með tilheyrandi krónískum hósta og krókloppnum fingrum er ljóst að hér duga engin vettlingatök.  Við þurfum að ná upp almennilegum hita sem fyrst og við höfum fundið réttu leiðina til þess, við hitum upp innanfrá.  Nýju drauga-chili plönturnar eru nýbyrjaðar að blómstra. 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið