Einn öl

Áður en ritstjóri heimasíðu Náttúrulækningafélagsins fær áfall yfir því að hér sé verið að skrifa pistil til stuðnings áfengis vil ég fullvissa hann um að svo er alls ekki, ég drekk ekki bjór eða neins konar öl, hef aldrei sé tilgang í því að eyða plássi í maganum í eitthvað sem mér finnst ekki gott.  Aðrir drykkir heilla mig meira, svo sem vatn og kaffi og jafnvel stöku rauðvínsglas en þessi pistill fjallar alls ekki um drykkjuvenjur mínar. Nei, nú þegar haustar stefna sveppafíklar út í skóga og það er gróðursetningarvertíð í garðyrkjunni.  Það er því vel við hæfi að ræða aðeins um nafngiftir plantna og sveppa.

Íslensk plöntunöfn eru mörg hver yndisfögur og lýsandi fyrir viðkomandi tegund.  Þannig má nefna eyrarrós sem skreytir áreyrar með sínum rósrauðu blómum um mitt sumar; gullkoll, sem myndar ljósgular fínlegar breiður í þurrlendi á suðvesturhorninu, bláklukkuna sem býr til bláma fjarlægðarinnar á Austurlandi eða melasól, hina harðgerðu draumsól Vestfjarðanna sem lætur ekkert stoppa sig í að blómstra á örgrýtissvæðum, ófrjósömum og harðbýlum.  Þarna fara saman falleg plöntunöfn sem eru jafnframt mjög lýsandi fyrir tegundirnar og eiginleika þeirra. 

Þegar kemur að sveppum landsins hef ég stundum á tilfinningunni að sveppafræðingar hafi fengið að leika lausum hala í orðabókum til að finna frumlegustu sveppaheitin.  Jafnframt held ég að sveppafræðingar sé upp til hópa nýyrðasmiðir af guðs náð og spurning hvort ekki væri hægt að virkja sköpunargáfu þeirra á fleiri sviðum.  Um daginn las ég bráðskemmtilega færslu nöfnu minnar Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur um sveppina fýlunálung og fjólujussu, að ógleymdri ígulskrýfunni sem hefur nýlega glatt aðdáendur með nærveru sinni.  Þá er sveppurinn slímstautull að sögn ljúffengur matsveppur og skyldi engan undra, hver myndi fúlsa við slímstautlasósu með lambalærinu á sunnudagskvöldið?

Lengi vel starfaði formleg og opinber nefnd um íslensk háplöntuheiti (og er kannski enn), hafði hún það hlutverk að finna góð gild íslensk heiti á plöntur, kannski ekki ósvipað og mannanafnanefnd fjallaði um mannanöfn og meint gæði þeirra. Jafnframt hafði þessi nefnd með höndum ákveðið samræmingarhlutverk því til voru dæmi um að sama plantan hefði fengið nokkur íslensk heiti og það skapar að sjálfsögðu vandræði þegar fram líða stundir.  Það að styðjast við ákvarðanir sérfræðinga kemur þó alls ekki í veg fyrir að einstaka sinnum geti komið upp dálítill ruglingur þegar kemur að plöntuheitum.  Íslensku heitin koma úr ýmsum áttum.  Stundum hafa latnesk nöfn verið þýdd á íslensku, eins og í tilfelli hundarósarinnar, Rosa canina (þar sem canina þýðir lítill hundur).  Sum íslensk heiti eru sameiginleg norrænum eða evrópskum plöntuheitum eins og á birkinu okkar sem allir elska.  Í sumum tilfellum hafa latnesk heiti verið nýtt sem grunnur að íslensku heiti og búið til eitthvað sem svipar til latneska heitinu.  Þannig er um ættkvíslina Caragana sem eitt sinn hafði hið hljómþýða nafn baunatré en er nú kallað kergi. Ættkvíslin Amelanchier var eitt sinn nefnd hunangsviður en fékk svo íslenska heitið amall, sem bæði vísar til latneska ættkvíslarheitisins og þess að amall er fornt orð yfir konung.  Í samsetningum hefur þetta ættkvíslarheiti oft á tíðum glatt garðyrkjumenn ósegjanlega, eins og þegar kemur að tegundunum fjallamall og lóamall, ég skellti aðeins upp úr bara við að skrifa þessi orð.  Svo er það ættkvíslin Alnus, harðduglegra frumherjaplantna, sem hefur verið uppspretta beygingarvandræða allt frá fyrsta degi.  Alnus ættkvíslin nefnist á íslensku ölur og innan hennar er að finna gráöl, rauðöl, ryðöl og margar fleiri skemmtilegar tegundir.  Stundum hafa menn hins vegar talað um elri ættkvíslina og eru þá að meina sömu ættkvísl. 

Ung afgreiðslustúlka í garðyrkjustöð stóð við afgreiðsluborðið og var að sinna viðskiptavinum þegar maður á besta aldri vatt sér upp að borðinu og sagði við hana:  ,,Ég ætla að fá hjá þér einn öl!”  Stúlkan horfði á hann forviða eitt andartak og svaraði svo að bragði:  ,,Því miður þá erum við ekki þannig búð, vínbúðin er hér aðeins neðar við götuna.”  Það tók manninn nokkrar mínútur að jafna sig á krampakenndum hlátrinum áður en hann gat stunið því upp að hann vildi kaupa gráöl. Samhliða ræktunarleiðbeiningum ættu þessari ættkvísl alltaf að fylgja beygingarleiðbeiningar.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og áhugamanneskja um orð

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið