Börn Náttúrunnar

Af moldu ertu kominn og að moldu skaltu verða“ , þessi orð fá að hljóma þegar maður er lagður til hinnstu hvílu undir grænni torfu. Þetta er furðuleg tilhugsun að vita til þess að við verðum að mold en einnig ákveðin frelsun.  Því  við erum gerð úr sömu efnum og náttúran en gleymum því stundum hvað við erum náskyld henni.

Við mennirnir erum vissulega mestu vitsmunaverur þessarar  Móður Jarðar en það gerir okkur samt ekkert æðri en hvaða annar hluti þessar Jarðar. Oft á tíðum göngum við um náttúru OKKAR eins og við séum vitlausustu verur þessarar Jarðar eða að við getum bara skipt henni út fyrir nýja eins við gerum við fötin okkar eða bílana.

Góð regla sem allar kynslóðir sem byggja þessa jörð ættu að tileinka sér er að skila náttúruni í sama standi og við tókum við henni . Við ættum að forðast að eiga of mikið við náttúruna því oftar en ekki getur það refsað okkur. Það er ekkert vit í því að græða 10 krónur á morgun en tapa svo 100 krónum eftir nokkur ár.

Það er staðreynd að náttúran hefur allt að bjóða til að næra sál okkar og líkama. Náttúran býr til fallegri listaverk en Rembrandt eða Picasso gátu málað. Náttúran gefur af sér  bestu mögulegu næringu fyrir okkur í formi heilnæms vatns, ávaxta, grænmetis, jurta og frjósams jarðvegar. Fuglasöngurinn og náttúruhljóðin eru oft fegurri en nokkur hljómsveit gæti framkallað.

Í ys og þys hversdagsins hér á Höfuðborgarsvæðinu erum við umlukin steinsteypu og malbiki flesta daga og fátt sem minnir á náttúruna sem  við erum komin frá.  Því eru margir sem reyna að fá sinn skammt af náttúrunni í lok hvers vinnudags. Þeirra á meðal er vinkona mín sem er mikil hestamanneskja. En hún kom til mín um daginn og var furðulostinn á ungri dömu sem kom skokkandi á móti henni…. þegar hún var í reiðtúr, með ipod í eyrum og að skrifa sms í síma!  Þessi vinkona mín fór nefnilega í  í  þennan reiðtúr með Rauðavatni á honum Skjóna sínum, til að sjá fuglalífið, hlusta á fuglasönginn og njóta náttúrunnar til hins ýtrasta eftir erfiðan vinnudag.

Förum að að njóta náttúrunnar og alls þess sem hún gefur okkur. Því við erum hluti af náttúrunni og allt sem við þurfum til nærast líkamlega og andlega er til staðar í náttúrunni.  Daginn sem við áttum okkur á því að í náttúrunni er hamingja okkar fólgin erum við hólpin og náttúran í leiðinni.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi