Bland í poka – Pistill frá Gurrý


Til að fyrirbyggja allan misskilning tel ég rétt að taka það fram í upphafi þessa pistils að ætlunin er alls ekki að fjalla um þann sið landans að troðfylla nammipoka af sælgæti á hálfvirði á laugardögum.  Nei, ég ætla að ræða um tómata.  Eins og áður hefur komið fram í pistlaskrifum mínum eru mér tómatar mjög kærir, svona eftir að ég komst til þess þroska í lífinu að kunna að meta þá.  Volgur tómatur, kafrjóður og fullur af sól, tíndur beint af plöntunni og borðaður samstundis, er himnesk fæða og skýtur öllu öðru sælgæti ref fyrir rass. 

Tómatar eru í okkar huga eldrauðir og gljáandi en smám saman eru neytendur að uppgötva að þessi aldin koma í ótrúlega mörgum gerðum.  Tómatar geta verið í ótal mörgum litum, gulum, rauðum, appelsínugulum, brúnum, svörtum, grænum og bleikum eða jafnvel tvílitir og röndóttir.  Enn sem komið er getum við hins vegar ekki keypt alla þessa litadýrð í búðum, þó eru nokkrir garðyrkjubændur farnir að rækta gula kirsuberjatómata sem eru fyllilega þess virði að prófa.  Lögun tómata er einnig mjög fjölbreytt.  Þeir geta verið agnarsmáir, um 2 cm í þvermál og kúlulaga yfir í sannkölluð ofurskrímsli sem eru yfir 12 cm í þvermál.  Slíkur tómatur gæti dugað sem aðalréttur í kvöldmat.  Ekki eru allir tómatar kúlulaga.  Sumir eru aflangir, eins og plómutómatar og konfekttómatar og enn aðrir eru eins og perur í laginu.

Um nokkurt skeið hafa nemendur í Garðyrkjuskólanum haft það sem lokaverkefni sitt að rækta tómata. Hver nemandi fær ákveðið tómatafræ í hendurnar í upphafi annar og svo þarf hann að skila af sér tómötum í lok annarinnar.  Nemandinn þarf sjálfur að skipuleggja og framkvæma ræktunina og nýta til þess þá þekkingu sem hann hefur öðlast í náminu.  Þetta verkefni er mjög skemmtilegt, ekki síst vegna þess að oftast fá nemendur í hendur mismunandi gerðir af tómötum og fjölbreytnin í gróðurhúsum skólans verður því dásamleg.  Eitt af því sem kom á óvart þegar hafist var handa við þetta verkefni í fyrsta sinn var hve bragð tómatanna var ólíkt milli gerða.  Rauður tómatur er alls ekkert á bragðið eins og næsta rauða tómatagerð, sumir gulir tómatar eru bragðlausir á meðan aðrir eru stútfullir af bragði, grænir tómatar (þ.e. tómatar sem eru grænir þegar þeir hafa náð fullum þroska) koma manni alltaf á óvart því maður býst við súru grænjaxlabragði en þeir eru fullþroskaðir og sætir.   Þegar maður  hefur alla þessa litadýrð fyrir augum langar mann til að geta farið í næstu verslun og keypt bland í poka af litríkum tómötum, það er svo dásamlega fallegt að búa til litríkan mat, hann er einhvern veginn svo miklu girnilegri en grátóna fæði.

Nú þegar vorar eru garðyrkjuverslanir stútfullar af alls konar fræi og á leið minni í slíka verslun um daginn rakst ég á nokkuð margar gerðir af tómatafræi.  Þar var hægt að fá kirsuberjatómata í gulu, rauðu og appelsínugulu og rauða perulaga tómata.  Fyrir þá sem hafa áhuga á að rækta sitt eigin grænmeti og eiga góðan suðurglugga er tilvalið að kaupa tómatafræ og rækta sitt eigið litríka tómatasalat.  Á umbúðum utan um tómatafræ kemur yfirleitt alltaf fram hversu margir dagar líða frá sáningu til uppskeru.  Þegar um kirsuberjatómata er að ræða er þessi tími oft 60-75 dagar en heldur lengri tími þegar um hefðbundna stóra tómata er að ræða, oft 75-90 dagar.  Fræinu er sáð í áburðarsnauða mold, vökvað varlega og sáningin geymd á hlýjum stað þar til plönturnar spíra.  Í heimahúsi getur verið sniðugt að hafa glært plast yfir sáningunni þar til litlu sáðplönturnar gægjast upp úr moldinni.  Þegar plönturnar eru komnar aðeins á legg þarf að potta þeim í stærri pott.  Það getur verið sniðugt að byrja á því að setja plönturnar fyrst í pott sem er um það bil 12 cm í þvermál og umpotta þeim svo í 5 lítra pott þegar þær eru orðnar sex vikna eða svo.  Tómatplönturnar elska sól og hita og eru því ánægðastar ef þær fá að standa í sólríkum suðurglugga. 

Tómatplöntur eru mjög frekar á vatn þannig að það þarf að passa að vökva þær vel yfir vaxtartímann.  Ef sólin skín og hitnar vel í glugganum þarf jafnvel að vökva þær oftar en einu sinni á dag.  Það er því nauðsynlegt að vera búinn að tryggja sér afleysingavökvara ef maður  hefur í hyggju að bregða sér frá í sumarfríinu.  Ég hef reyndar heyrt því fram að það sé álíka flókið að fá pössun fyrir tómatplönturnar eins og að fá pössun fyrir hundinn þegar fólk fer til útlanda.  Mér sýnist nú flestir geta leyst slík vandamál greiðlega þannig að það ætti ekki að stöðva ræktunaræfingarnar.  Einnig þarf að huga vel að áburðargjöf því plönturnar eru sísvangar.  Fljótandi áburður sem notaður er á inniblóm virkar ágætlega á plönturnar, hann þarf að blanda saman við vökvunarvatnið og vökva að minnsta kosti þrisvar, jafnvel fjórum sinnum í viku með áburðarblöndunni.  Mikilvægt er að gæta þess að blanda áburðinn ekki of sterkt, þá getur hann skemmt rætur plantnanna.

Tómatar eru hraðvaxta og geta orðið nokkuð háir.  Það er því nauðsynlegt að hafa einhvers konar stuðning við plönturnar í pottinum, til dæmis bambusprik eða litla klifurgrind sem  kemst vel fyrir í potti, annars leggjast stönglar plantnanna bara út í alla gluggakistuna og það er ekkert sérlega lekkert. 

Þá er það frjóvgunin.  Fæstir búa svo vel að eiga vel þjálfaðar hunangsflugur heima hjá sér til að sjá um frjóvgun blómanna, fólki er jafnvel meinilla við að vera með slíkan flugfénað inni í hýbýlum sínum.  Til að frjóvgun eigi sér stað og tómatar geti myndast verða frjókorn að komast milli blóma.  Auðveldast er að fjárfesta í litlum og mjúkum vatnslitapensli og fara reglulega með pensilinn inn í blómin hvert á fætur öðru.  Við þessar æfingar færast frjókorn milli blómanna og frjóvga þau og litlir tómatar fara að birtast.

Þegar plantan fer að framleiða aldin þarf sólin að ná að skína á tómatana til að þeir verði almennilega rauðir.  Ef sumarið er rigningasamt getur verið sniðugt að eiga einhvers konar blómaljós til að bæta upp birtuþörf tómatanna.  Svo er um að gera að leyfa tómötunum að ná réttum lit áður en þeir eru tíndir af plöntunni, því lengur sem tómatarnir fá að þroskast á plöntunni því betra verður bragðið af þeim. 

Tómatplöntur eru einærar þannig að þær lifa ekki nema eitt vaxtartímabil.  Þær geta hins vegar vaxið og framleitt tómata vel fram á haust, sé þeim sinnt vel og þær vökvaðar og nærðar reglulega og meðan birtan er næg fyrir þær.  Ein planta getur gefið af sér ótrúlegt magn tómata en það er þó í ákveðnu samhengi við iðni þess sem frjóvgar blómin.  Þegar plantan fer að dala og þegar fer að skyggja úti við er rétt að klippa toppinn af plöntunni, leyfa síðustu tómötunum að klára að þroskast og svo er plantan sett í safnhauginn eftir að síðustu tómatarnir hafa verið tíndir. 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó