Við ættum alltaf að reyna að huga að umhverfisvernd og heilsu móður Jarðar eins mikið og við getum. Eitt af því er að fara sparlega í ýmis kemísk hreinsiefni sem notuð eru við heimilisþrifin. Sum hreinsiefni eru stútfull af alls kyns efnum óæskilegt er að anda að sér né jafnvel koma í beina snertingu við. Slík efni eru ekki aðeins skaðleg okkur heldur einnig umhverfinu.
Það er vel hægt að þrífa heimilið með umhverfisvænum efnum og til eru ýmsar uppskriftir sem við getum framleitt úr efnum sem til eru á mörgum ef ekki flestum heimilum.
Hér eru nokkur góð ráð:
- Húsgagnabón – Tilvalið er að blanda saman hálfum bolla af sítrónusafa og einum bolla af ólífuolíu og bera á viðarhúsgögn með mjúkum klút. Þetta gefur viðnum fallegan gljáa og svo ilmar þetta vel!
- Hreinsi – og rúðuúði – Gott er að blanda 4 msk. af ediki út í 1l. af vatni og úða á rúðurnar. Best er svo að þurrka vökvan af með dagblöðum og þannig endurnýta hluta af þeim pappír sem safnast fyrir hjá okkur flestum.
- Blettaeyðir – Hægt er að blanda saman matarsóda við smá vatn til þess að búa til frábæran blettaeyði. Þykkri blöndunni er nuddað yfir blettinn og flíkin svo þvegin eins og venjulega. Þessi undrablanda ræður við mjög marga bletti.
- Fituleysir – Hver hefði trúað því að hægt væri að nota kartöflumjöl til margra góðra húsverka? Sé kartöflumjöli og vatni blandað saman í hlutföllunum 4:1 virkar blandan vel til þess að leysa t.d. upp fitu af borðplötum í kringum eldavélar og á öðrum stöðum þar sem fita á það til að setjast fyrir. Best er að bera blönduna á með klút, nudda smá og þrífa svo vel með vatni.
- Klósetthreinsir – Hægt er, á auðveldan hátt, að búa til klósetthreinsi sem ekki aðeins hreinsar klósettskálina vel heldur ilmar einnig frábærlega. Blanda skal saman hálfum bolla af matarsóda ásamt hálfum bolla af ediki og 6 dropum af lavender olíu, hella í klósettskálina og skrúbba eins og vanalega. Ath. að ekki er hægt að geyma þessa blöndu heldur þarf að nota hana strax.