Vörn og orsök krabbameins – 2.grein


II. LYKILLINN AÐ GÁTU KRABBAMEINSINS.

Krabbamein eftir stéttum
Í síðasta hefti voru birtar dánartölur frá ýmsum löndum og ýmsum tímum og umsagnir lækna, sem sýna, að krabbameinið er trúr fylgifiskur menningarinnar, lætur þjóðirnar að mestu eða öllu leyti í friði, meðan þær búa við frumstæða lifnaðarhætti, en eykst svo jafnt og þétt með vaxandi menningu. Sjúkdómur þessi stendur því bersýnilega í nánu sambandi við lifnaðarhættina.

Þetta kemur einnig vel í ljós, ef bornar eru saman dánartölur innan mismunandi stétta þjóðfélagsins. Samanburðurinn hér á eftir er gerður eftir enskum og dönskum skýrslum frá því um 1923. Tölurnar sýna, hve margir deyja úr krabbameini á aldrinum 25 til 65 ára, miðað við 100 þúsund manns úr hverri stétt.

Prestar: England (45) – Danmörk (62)
Verkamenn í landbúnaði: England (54) – Danmörk (82)
Bændur: England (58) – Danmörk (85)
Læknar: England (70) – Danmörk (93)
Verkamenn: England (102) – Danmörk (144)
Sjómenn: England (110) – Danmörk (150)

Það getur tæplega verið tilviljun, að meira en helmingsmunur er hér milli stétta. Og eftirtektarvert er það, að þær stéttir, sem lifa óbrotnustu lífi, eins og bændur og landbúnaðarverkamenn, hafa einna minnst af þessum sjúkdómi að segja, þótt þeir séu flestum öðrum langlífari. — Sama er raunar að segja um aðra hrörnunarkvilla, eins og hægt væri að sýna með svipuðum tölum, en það leyfir rúmið ekki. Ein slík tafla hefir líka birzt áður hér í ritinu (1.-2. hefti 1946). Allir mega vita, að mjög mikill munur er á mataræði og öðrum lífsháttum manna eftir stéttum, og ekkert er eðlilegra en að ætla, að það sé þessi mismunur, sem gerir menn mismunandi móttækilega fyrir krabbameini og ýmsum öðrum sjúkdómum. Telja mætti margt fleira, sem bendir í sömu átt, og skal hér aðeins drepið á tvennt.

Ofeldissjúkdómur
1. Hinn heimskunni krabbameinshagfræðingur, dr. Fr. Hoffmann, sem getið var í síðasta hefti, segir í einu riti sínu: Í Ameríku hafa 43 líftryggingafélög látið gera töflur yfir dauðsföll úr krabbameini eftir því, hvort menn eru feitir eða magrir. Þessi rannsókn sýnir, að á aldrinum 30 til 45 ára deyja 53% fleiri feitir menn en magrir úr þessum sjúkdómi, og 30% fleiri yfir 45 ára aldur.

Nú er magurt fólk mun langlífara en feitt fólk, og eftir því mætti ætla, að krabbamein væri algengara meðal hinna fyrrnefndu. En á aldrinum yfir 45 ár deyja samt sem áður 30% fleiri feitir menn en magrir, samkvæmt þessum rannsóknum líftryggingafélaganna, sem erfitt mun að vefengja. Þá má bæta því hér við, að í engu landi í heimi er “eins margt af feitum körlum og konum og í Danmörku”, eftir því sem Hindhede segir, og hvergi í heimi deyja hlutfallslega eins margir úr krabbameini og þar, a.m.k. er það eitt hinna fremstu landa á því sviði.

2. Í Þýzkalandi jókst krabbamein um:
55% á árunum 1876-1884
58% á árunum 1885-1894
19% á árunum 1895-1903
20% á árunum 1904-1912

Nú skyldi mega ætla, að á styrjaldarárunum og næstu árum á eftir, þegar þjóðin átti við sult og seyru að búa, hefði sjúkdómurinn magnazt að mun. Þeim mun eftirtektarverðari eru staðreyndirnar, sem sýna, að á árunum 1913-1921 fækkar dauðsföllum úr krabbameini um 6%. Þegar velgengni þjóðarinnar kemst í samt lag, heldur sjúkdómurinn áfram sigurför sinni og eykst um 25-30% næstu 5 árin, 1922-1926.

Allt það, sem hér hefir verið talið, og ótal mörg önnur dæmi, sem hér verður að sleppa rúmsins vegna, sýna, að krabbameinið er fyrst og fremst sjúkdómur þeirra, sem eiga við velgengni að búa í efnahag og lífsafkomu. Og tvö síðustu dæmin virðast benda til þess, að böndin berist framar öðru að mataræðisvenjum manna. Einfalt fæði, jafnvel sultarfæði, svo sem var í Þýzkalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina, fangafæði og munkafæði — hjá þeim munkareglum, sem fyrirskipa sparneytni og hófsemi í mat og drykk — dregur úr krabbameinshættunni. Hinsvegar er hin svokallaða fjölbreytni í mataræði, ofát, munaður og óhóf hinir beztu bandamenn þessa sjúkdóms. Skýringarnar á þessum merkilegu staðreyndum verða raktar síðar, og fela þær í sér meginorsakir allra krabbameina og þá jafnframt aðferðirnar til að verjast þeim.

Er krabbamein ættgengt eða smitandi?

Læknar hafa löngum talið krabbameinið einn hinn dularfyllsta allra sjúkdóma, enginn viti neitt að ráði um orsakir hans eða uppruna. Fjöldi sprenglærðra vísindamanna hafa varið allri ævi sinni í að rannsaka sjúkdóminn, og í flestum menningarlöndum eru heilar stofnanir, sem fást við krabbameinsrannsóknir. Hefir ógrynnum fjár verið varið í þetta, og er ekkert lát á þeirri sókn. Árangurinn er því miður næsta lítill, enn sem komið er. Aldrei hefir tekizt að færa sönnur á, að hægt væri að bendla neina bakteríu eða vírus við sjúkdóm þennan.*) Og þótt baktería eða vírus finnist, er ekki þar með sagt, að hin eiginlega orsök sé fundin, og því síður að tekizt hafi að útrýma henni eða lækna sjúkdóminn. Þótt liðin séu 67 ár frá því berklabakterían fannst, hefir ekki enn tekizt að finna lyf gegn þeim sjúkdómi, og hafa menn þó sannarlega ekki legið þar á liði sínu. Svipað er og að segja um fleiri bakteríu- eða vírussjúkdóma, svo sem mænuveiki, kvef o.fl. Það er því langur vegur frá því, að gáta sjúkdóms sé ráðin eða sigur unninn á honum, þótt einhver sýkill finnist í sambandi við hann.

*) Nýlega hefir að vísu fundizt vírus í sambandi við brjóstakrabba í músum, en fræðimenn eru ekki á einu máli um það, hvort þessi vírus sé hin raunverulega orsök sjúkdómsins.

Það hefir aldrei sannazt, að krabbameinið væri smitandi. Læknar og hjúkrunarkonur, sem stundað hafa krabbameinssjúklinga, smitast ekki, eiginmenn eða konur smitast ekki af maka sínum. Hlyti þetta þó að koma fyrir, ef sjúkdómurinn væri smitandi, t.d. þegar um er að ræða krabbamein í vör eða kynfærum.

Þá hefir heldur ekki verið hægt að leiða gild rök að því, að krabbamein sé arfgengt eða ættgengt.

Krabbameinið er vissulega ekki dularfyllra en aðrir sjúkdómar yfirleitt. Spyrjið lækna, af hverju eksem, gigt, magasár, ristilbólga, botnlangabólga, tannskemmdir, æðakölkun, heilablóðfall o.s.frv. stafi. Hjá flestum verður svarið: ”Það vitum við ekki” eða þeir koma með “skýringar”, sem ekkert segja um hinar eiginlegu og upprunalegu orsakir sjúkdómsins, eða einhverjar óljósar bollaleggingar um “efnaskort”, svo að spyrjandinn er jafnnær. Þannig spurði ég lækni einn, af hverju sykursýki stafaði. “Hún stafar af því, að briskirtillinn hættir að framleiða insúlín,” var svarið. “En það er einmitt sjúkdómurinn sjálfur en ekki orsök hans,” sagði ég. “Mig fýsir að vita, af hverju brisið er hætt að framleiða insúlín.” “Það vitum við ekkert um.” Þegar ég kynntist náttúrulækningastefnunni, fékk ég brátt að vita, að ofneyzla sykurs og léleg næring eru höfuðástæðurnar fyrir því, að insúlínkirtlarnir í brisinu ofreynast og hrörna og hætta að geta leyst af hendi þetta mikilvæga hlutverk sitt.

Merkileg dýratilraun
Þess var getið í lok greinar minnar í síðasta hefti, að orsakir sumra krabbameinstegunda væru vel þekktar og viðráðanlegar. Verður nú að því vikið, en fyrst verður sagt frá tilraun, sem telja má einhverja merkilegustu dýratilraun, er nokkru sinni hefir verið gerð, því að segja má, að hún sé lykillinn að gátu allra krabbameinssjúkdóma.

Hollenskur prófessor, dr. H.T. Deelman að nafni, gerði eftirfarandi tilraun: Hann bar tjöru á eyrað eða á einhvern vissan stað á músum daglega eða nokkrum sinnum í viku í nokkra mánuði samfleytt. Margar mýsnar fengu krabbameinsæxli í húðina á þeim stað, sem tjaran hafði verið borin á. Mýsnar voru á ýmsum aldri, og fengu þær yngri krabbamein ekki síður en hinar eldri. Mælir það þegar gegn þeirri skoðun, að krabbameinið sé í eðli sínu ellisjúkdómur. Hinsvegar sýndi það sig, að það þurfti að halda tilrauninni áfram í marga mánuði, eða sem svarar 10 til 30 árum í ævi mannsins, til þess að æxli mynduðust. Bendir það til þess, að krabbamein í mönnum sé marga áratugi að búa um sig, áður en það brýzt út, enda er það staðfest af reynslunni, þar sem tímaákvörðun hefir verið möguleg.

Það er kunnugt, að í tjöru og biki eru eiturefni. Og það eru þessi eiturefni, sem framleiða krabbameinið í tilraunamúsunum, þegar þau fá að verka nægilega langan tíma. Eituráhrifin eru svo lítil, að þeirra verður ekki vart jafnóðum, en stöðug og langvarandi verkun hinna smáu eiturskammta hefir þessi alvarlegu áhrif.

Nú var tilrauninni breytt á þann veg, að skinnspretta var sett á músina fjarri tjörublettinum, eða músin brennd lítið eitt, og jafnframt hætt að bera tjöru á dýrið, alllöngu áður en krabbamein gæti myndazt á tjörustaðnum. Brá þá svo við, að í flestum tilraunadýrunum myndaðist eftir stuttan tíma krabbameinsæxli í skinnsprettunni eða brunasárinu, jafnvel eftir að það var gróið. Af þessari merkilegu niðurstöðu er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá, að eiturefnin úr tjörunni hafi hafzt við í líkamanum og blóðinu og leitað færis að framleiða æxli, undir eins og einhver frumuvefur glataði hinum eðlilega viðnámsþrótti sínum.

Af þessum einföldu tilraunum höfum við lært tvennt:
1. Krabbamein verður til við langvarandi verkun eiturefna í smáum stíl.
2. Krabbamein kemur fram á þeim stað í líkamanum, þar sem veiklun eða skemmdir eru fyrir.

Sönnunargildi tilraunarinnar nær að vísu ekki út fyrir þá dýrategund, sem hún er gerð á, og þau líffæri, sem æxlin koma í. En hún lýkur upp, ef svo má segja, dyrunum að leyndardómum krabbameinsins. Þegar þessi tilraun er borin saman við það, sem menn vita þegar um ýmiskonar krabbamein, þá er óhætt að fullyrða, að ekkert sé dularfullt við þennan sjúkdóm lengur, fram yfir aðra sjúkdóma yfirleitt, að því er snertir orsakir hans og varnir gegn honum. Um það verður nánar rætt í næsta hefti.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd, 2. tbl. 1949, bls. 13-18

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing