Um (of)notkun fúkkalyfja


Höfundur þessarar greinar er nýlega tekinn til starfa við Landspítalann eftir fimm ára framhaldsnám í Bandaríkjunum í lyflækningum og smitsjúkdómum. Greinin birtist í tímaritinu Hjartavernd, 1. tölubl. 1975, og er tekin hér upp með góðfúslegu leyfi höfundar og ritstjóra Hjartaverndar, Snorra P. Snorrasonar yfirlæknis.

Það er erfitt fyrir okkur yngri lækna að ímynda okkur þá byltingu, sem varð í meðferð bakteríusjúkdóma með tilkomu fúkalyfja. Sjúkdómar, sem áður voru banvænir, urðu skyndilega tiltölulega auðlæknaðir. Fyrsta fúkalyfið, penicillin, hafði einnig þann kost að vera tiltölulega meinlaust og valda sjaldan aukaverkunum. Það var því ekki að furða, að læknar jafnt og almenningur fylltust vissri öryggiskennd og kannske nokkru gáleysi í notkun þessa lyfs. Í flokk fúkalyfja hafa á síðustu 2 áratugum bæst fjölmörg lyf. Mörg þessara lyfja hafa orðið læknum kærkomin vopn í baráttunni gegn sýkingum, en fá þeirra hafa staðist penicillininu snúning í lágri tíðni aukaverkana. Aukin reynsla í notkun þessara lyfja hefir leitt í ljós fjölda mismunandi alvarlegra aukakvilla. Bráður bani getur hlotist af svæsnum ofnæmissvörunum (anaphylaxis) gegn ýmsum fúkalyfjum. Einstöku sinnum eftir töku chloramphenicols hættir mergur framleiðslu á lífsnauðsynlegum blóðkornum. Athyglisvert er, að sambands milli þessa sjúkdóms og chloramphenicols varð fyrst vart meðal barna bandarískra lækna sem höfðu verið send sýnishorn af lyfinu í auglýsingaskyni. Flest fúkalyf valda röskun á eðlilegri bakteríubyggð í meltingarvegi, húð, fæðingarvegi. Verður slík röskun þeim mun meiri sem verkunarsvið fúkalyfsins er breiðara. Afleiðingarnar verða oft ofvöxtur ónæmra baktería, svo og sveppa. Af þessu geta hlotist ýmis vandræði, allt frá lítilfjörlegum niðurgangi til lífshættulegra sýkinga af völdum þessara ónæmu sýkla. Ónæmir sýklastofnar eru sérstaklega hættulegir innan veggja sjúkrahúsa, þar sem sjúkir einstaklingar með minnkaðar varnir gegn sýkingu verða þeim oft auðveld bráð. Sýnt hefir verið fram á, að tíðni slíkra sýkinga stendur í beinu hlutfalli við notkun ýmissa fúkalyfjategunda. Af öðrum aukaverkunum má nefna bráða nýrnabilun, heyrnartap, aflitun á tönnum barna, jafnvægistruflanir, margs konar ofnæmisútbrot, svo að nokkur dæmi séu tekin. Flestar þessara aukaverkana eru að sjálfsögðu ekki algengar. Tvær allviðamiklar kannanir á bandarískum sjúkrahúsum sýndu, að u.þ.b. 5% af sjúklingum, sem gefin eru fúkalyf, fá af því umtalsverðar aukaverkanir. Er því augljóst, að ekki tjóir að halda því fram, að fúkalyfjagjöf sé með öllu hættulaus.

Erfitt er að gera sér grein fyrir, hver sé eðlileg fúkalyfjanotkun eins þjóðfélags. Því hefir þó verið haldið fram, að í vestrænum löndum fái hver einstaklingur bakteríusjúkdóm og þarfnist fúkalyfjagjafar einu sinni á hverjum 5-10 árum. Notkunin hins vegar, byggð á nákvæmustu fáanlegu tölum, er a.m.k. 20 sinnum meiri. Ofnotkunin er því gífurleg. Bæði læknar og almenningur eiga sök á þessu vandamáli. Margir, og kannske flestir læknar hafa tilhneigingu til að ávísa fúkalyfjum til sjúklinga með veirusýkingar, annaðhvort vegna óvissu um eðli sjúkdómsins eða til að fyrirbyggja bakteríusýkingu. Síðarnefnda á sérstaklega við um gamla og veila sjúklinga. Sannleikurinn er hinsvegar sá, að slík meðferð er ekki aðeins gagnslaus, heldur beinlínis eykur hættuna á sýkingum og þá oft með ónæmum sýklastofnum, sem erfiðir eru í meðferð. Sjúkdómsgreining er oft óörugg vegna þess að ræktanir eru ekki gerðar, og eins eru niðurstöður slíkra ræktana oft mistúlkaðar. Á þetta einkum við um hrákaræktanir, því að algengt er, að úr hráka ræktist bakteríur, sem þekktar eru að því að valda lungnabólgu, án þess að um raunverulega sýkingu sé að ræða. Hafa þá þessar bakteríur tekið sér bólfestu í koki sjúklings, og þarfnast slík sýklun (colonisation) ekki neinnar meðferðar. Enn eitt vandamál er röng meðhöndlun sýnis, áður en það kemur á rannsóknardeildina. Sérstaklega er mikilvægt, að settum reglum sé fylgt í töku og meðhöndlun á þvagsýnum þar sem auðvelt er að menga sýnið bakteríum frá ytri kynfærum. Læknar eru einnig fórnarlömb auglýsinga lyfjaframleiðendanna. Þær eru ótaldar myndirnar af brosandi börnum, takandi inn nýjustu fúkalyfjamixtúruna, sem koma fyrir auga læknisins í viku hverri, eða þá þvagblaðra með tilheyrandi nýrum, sett saman úr steindu, sjálflýsandi gleri, og þessu fylgir fagnaðarboðskapur um lyfið, sem auglýst er. Það er grátbroslegt, að svo vill til, að einmitt þetta sama lyf er að verða ein algengasta orsök bráðrar nýrnabilunar víða um heim. Samkeppni lyfjaverksmiðjanna fer sífellt harðnandi, og gætir þess nú töluvert, að sett séu á markaðinn ný lyf, sem í litlu eða engu eru frábrugðin eldri lyfjum, en síðan eytt milljónum í að auglýsa lyfið og þá oft ekki gætt hófs í fullyrðingum. Verður því sífellt flóknara fyrir lækna að átta sig á kostum og göllum hinna einstöku fúkalyfja. Það er kannske vegna þess, að meir og meir ber á að notuð séu fúkalyf með meðalstórt eða breitt verkunarsvið, þar sem ódýrari lyf eins og penicillin gerðu sama gagn. Á þetta einkum við um sýkingar í efri loftvegum, svo og hálsbólgu.

Fúkalyf eru einnig misnotuð á sjúkrahúsum. Sérfræðingar í smitsjúkdómum hafa kannað notkun fúkalyfja bæði á háskóla- og einkasjúkrahúsum í Bandaríkjunum. Reyndist meðferðin í 2 af hverjum 3 tilfellum annaðhvort beinlínis ónauðsynleg eða að röngu lyfi var beitt. Kostnaður sjúkrahúsanna af fúkalyfjagjöfum er geysihár og fer vaxandi. T.d. kostar fullur dagskammtur af carbenicillini rúmlega 22 þúsund krónur samkvæmt núgildandi verðskrá. Áður en lagt er út í slíka fjárfestingu þarf að sjálfsögðu góð rök fyrir nauðsyn þessa eða svipaðra lyfja. Ef ofangreindum staðhæfingum um ofnotkun fúkalyfja og hættuna, sem er því samfara, er trúað, hlýtur sú spurning að vakna, hvað hægt sé að gera til úrbóta. Efla þarf upplýsinga- og kennslustarfsemi fyrir lækna og aðrar heilbrigðisstéttir um fúkalyf, um kosti þeirra og galla, svo og upplýsingar um verð hinna einstöku lyfja. Gæti þetta verið verðugt viðfangsefni fyrir læknafélögin. Sýkladeild Rannsóknarstofu Háskólans býr við mikil þrengsli, og mætti með bættri aðstöðu stórauka þjónustuna, a.m.k. á Reykjavíkursvæðinu. Auðvelda ætti læknum að senda viðeigandi sýni til að sanna sjúkdómsgreiningu og síðan að beita viðeigandi meðferð fremur en hefja handahófsmeðferð. Gætu slík vinnubrögð sparað stórfé með lækkun lyfjakostnaðar. Á sjúkrahúsum má einnig lækka þennan kostnað með nákvæmri skráningu fúkalyfjanotkunar. Kæmi þá í ljós, ef einstakar deildir notuðu óeðlilegt magn einstakra lyfja. Á þetta einkum við fyrirbyggjandi meðferð, sem stundum vill verða vanabundin.

Kröfuharka almennings á hendur lækninum að ávísa fúkalyfjum er vel þekkt. Þegnar neysluþjóðfélagsins vilja fá eitthvað fyrir snúð sinn, þegar læknir er kvaddur til sjúklings. Það er auðveldara að láta undan þrábeiðni um fúkalyf heldur en útskýra fyrir hlutaðeiganda hversvegna ekki ber að veita slík lyf. Kannske breytast ekki notkunarvenjur lækna á fúkalyfjum fyrr en almenningur skilur, að oft er læknir betri þeim mun minna af lyfjum sem hann ávísar.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi