Um matarsaltið

Í ritum NLFÍ hefir oft verið talað um matarsaltið sem skaðlegt krydd. Skoðun lækna almennt er hinsvegar sú, að nauðsynlegt sé að bæta salti í matinn, hvort sem menn lifa á dýra- eða jurtafæðu. Þessi skoðun stangast við staðreyndir úr ýmsum áttum:

Eskimóar N-Ameríku lifðu á algerlega saltlausu fæði, og þar vandi Vilhjálmur Stefánsson sig af því að neyta salts. Ýmsar hitabeltisþjóðir lifa og hafa lifað á ósaltaðri jurtafæðu. Frummaðurinn eða forfaðir mannsins þekktu ekki saltið, enda var yfirleitt hvergi aðgangur að því, sízt af öllu inni í landi. Fyrst þegar menn komast að því, að saltið ver matvæli fyrir skemmdum, fara að nota eldinn og safna matarbirgðum, þá verður matarsaltið neyzluvara. Þó er það ekki fyrr en seint á öldum, að notkun þess verður almenn hér á Norðurlöndum. Hér á landi var maturinn súrsaður, þurrkaður eða reyktur fram eftir öllu, en söltun var sjaldgæf fyrr en á 19. öld. Loks má benda á það, að engin dýr neyta salts. Þótt dýr geti orðið sólgin í salt, sannar það ekki, að það stafi af saltþörf. Dýr geta einnig orðið sólgin í sykur, áfengi og fleiri ónáttúrleg og skaðleg efni. Og flest dýr jarðar, önnur en sum húsdýr, sjá aldrei matarsalt. Af þessu er augljóst, að matarsaltið er ekki nauðsynleg né náttúrleg fæðutegund.

Hitt er annað mál, að í flestum matvælum er lítið eitt af salti eða frumefnum þeim, klóri og natríum, sem salt er samsett af, og eru þessi efni líkamanum ómissandi. En svo lítið magn þarf líkaminn af þeim, að í venjulegu viðurværi, hvort heldur er dýra- eða jurtafæða, er meira en nóg af þeim, þótt engu salti sé bætt í matinn, og ýmsir læknar og næringarfræðingar halda því fram, að öll óþarfa saltneyzla sé skaðleg og líkamanum til óþurftar. Telja margir læknar saltneyzlu eina aðalorsök margra sjúkdóma, m.a. liðagigtar. Þýzkur læknir, dr. Gerson, varð kunnur fyrir það að fyrirskipa sjúklingum sínum algerlega ósaltað fæði. En því miður var honum ekki ljós þýðing hrámetisins, svo að hann skemmdi matinn með suðu og náði því ekki fullum árangri.

Þótt skiptar séu skoðanir meðal lækna um skaðsemi matarsaltsins, er læknum kennt, að nauðsynlegt sé að forðast það með öllu í vissum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, þótt heilbrigðu fólki sé talið ósaknæmt að neyta salts. En margir læknar fordæma það með öllu. Þeirra á meðal er þýzki læknirinn dr. Klimaszevski frá München, sem segir á þessa leið um matarsaltið:

„Almennt er litið á matarsaltið, klórnatrium, sem nauðsynlegt krydd. En það er rangt. Í alvarlegum hjarta- og nýrnasjúkdómum verkar það sem banvænt eitur. Á heilbrigt fólk hefir það einnig skaðleg áhrif, og verða þau greinilegri með aldrinum. Þau koma fram sem kláði, útbrot á hörundi, kýli, óeðlilegur þorsti, taugaslappleiki, veiklanir í hjarta, truflanir á sjón og jafnvel blinda, æðahnútar, gyllinæð, of miklar blæðingar með tíðum o.fl. Pokar undir neðri augnlokum hjá eldra fólki eru næstum ávallt merki um langvarandi salteitrun.

Saltið, sem notað er í mat, er ekki næringarefni, heldur geymsluefni, sem drepur rotnunargerla og kemur þannig í veg fyrir, að þeir valdi breytingum og skemmdum á matvælum úr dýraríkinu, svo sem kjöti, fiski og eggjum. Um matarsaltið má því segja, að það „verndi hið dauða efni (kjötið) með því að eyða lífi (rotnunargerlum)“. En í líkama okkar megnar það þó ekki að eyðileggja þessa skæðustu fjendur hans, heldur eitrar það í staðinn blóðið, taugar og önnur líffæri.

Sú skoðun, að nauðsynlegt sé að bæta salti í matinn, fellur um sjálfa sig af þeirri staðreynd, að öll villt dýr og allar frumstæðar þjóðir, sem þekkja það ekki og hafa aldrei vanið sig á það, verða álíka veik af að borða saltan mat eins og byrjendur af að reykja. Það er alkunna, að þegar Kolumbus fann Ameríku, þekktu þjóðir þær, er hann kynntist, ekki matarsaltið, þótt þær lifðu í hitabeltinu. Þær höfðu frá ómunatíð lifað við fullkomna heilsu án þess. Í daglegu og náttúrlegu viðurværi sínu fengu þær allt það salt, klórnatrium, sem líkami þeirra þarfnaðist, í lífrænum efnasamböndum úr jurtum og aldinum, sprottnum upp af jörðinni. Þær voru því með öllu lausar við þá sjúkdóma, sem saltið veldur hjá menningarþjóðunum og húsdýrum þeirra. Salthrúga, sem skilin er eftir í ógáti, getur kostað hundruð hænsna lífið. Saltsíld í svínadallinum hefir oftar en einu sinni orðið svíni að bana. Uglan getur gleypt heila rottu án þess að verða meint af, en reykt síld verður henni að fjörtjóni. Eitt saltkorn nægir til þess að drepa fálka. Villisvínið lítur ekki við söltum mat, sveltur heldur í hel.

Frumstæðar veiðiþjóðir hafa samskonar andúð á saltinu, t.d. Eskimóar, sem borða blóð, innýfli og kjöt veiðidýranna hrátt eða lítið soðið. Þetta sýnir, að lítið eða ekki soðin dýrafæða og náttúrleg jurtafæða inniheldur yfrið nóg af matarsalti fyrir menn og dýr, í eðlilegu og lífrænu formi, og að öll aukreitis saltneyzla er ekki einasta óþörf, heldur beinlínis skaðleg.“

Annar þýzkur læknir skýrir frá því, að í lifandi jurtum séu frumefni matarsaltsins, klór og natríum, í lífrænum efnasamböndum (sítrónusúrt natríum og lífræn klórsambönd). Þegar grænmetið sé hitað yfir 60 stig (Celsíus), breytist þessi nytsömu efni í skaðleg efnasambönd að verulegu leyti. Af því kemur það, að þegar menn hafa vanið sig með öllu af matarsalti, þyrstir þá af soðnu grænmeti, en ekki af ósoðnu.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1951

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing