Tíu einföld ráð gegn elliglöpum


Hrörnunarsjúkdómar eru meðal þeirra sjúkdóma sem hafa orðið mun algengari með breyttum lifnaðarháttum. Ég ákvað því að skoða hvað nýjustu rannsóknir segja um hvernig við getum unnið gegn elliglöpum með bættum lifnaðarháttum.

Hér eru 10 einföld ráð um hvað þú getur gert til að sporna gegn elliglöpum og stuðla að ánægjulegra ævikvöldi:
1. Mundu eftir tannburstanum! Já, þetta kemur kannski á óvart, en rannsóknir benda til þess að góð tannhirða verndi heilann gegn ótímabærri hrörnun. Vísindamenn við Kaliforníuháskóla hafa komist að því að þeir sem ekki bursta reglulega í sér tennurnar séu 65% líklegri til að þjást af elliglöpum heldur en þeir sem bursta tennurnar vel á hverjum einasta degi. Norskir vísindamenn hafa áður sýnt fram á að þeir sem eru með eigin tennur eru síður líklegir til að fá alzheimer heldur en fólk með gervitennur.
2. Nóg af svefni! Það er ekki góð regla að geyma svefninn þangað til maður deyr. Fjöldamargar rannsóknir hafa sýnt að svefnskortur er hreint eitur fyrir heilasellurnar. Það eru ekki ýkjur, því ef þú sefur vel myndast ekki eins mikið af amínósýrunni beta-amyloid en mikið af henni finnst í alzheimer sjúklingum. Svefn, streita og þunglyndi skipta miklu máli fyrir elliglöp og alzheimer.
3. Heilabrot! Krossgátur og sudoku eru frábærar æfingar fyrir heilann og hafa góð áhrif á hann. Heilasérfræðingurinn Henning Kirk segir skák og bridge ennþá betri fyrir heilann.
4. Passaðu upp á blóðsykurinn! Sykursýki 2 eykur mjög líkurnar á elliglöpum. Því er mikilvægt að halda blóðsykrinum í skefjum og mæla hann mjög reglulega. Truflanir á insúlíni geta haft áhrif á efnaskipti í heilanum. Tilraunir hafa sýnt að insúlíngjöf getur haft jákvæð áhrif á minni alzheimer sjúklinga.
5. Hreyfing! Þetta kemur ekki á óvart, en regluleg hreyfing vinnur gegn alzheimer. Jafnvel einföld verk eins og garðvinna, heimilisþrif og matargerð. Nýleg rannsókn sem gerð var á 716 manns þar sem meðalaldurinn var 82 ár sýndi að líkamsrækt og styrktaræfingar höfðu mjög góð áhrif á heilann og minnið.
6. Minnisæfingar! Æfðu þig að muna nöfn, dagsetningar, tölur og innkaupaseðla. Til dæmis með því að slá inn símanúmerið hjá ættingjunum í stað þess að nota alltaf minnið í símanum, rifja upp gömul kvæði og læra ný utan að versla án þess að taka innkaupamiðann úr töskunni. Síðan eru til ýmis spil og leikir sem eru góð fyrir minnið.
7. Lærðu nýtt tungumál! Kanadísk rannsókn þar sem bornir voru saman alzheimer sjúklingar sem töluðu tvö tungumál og alzheimer sjúklingar sem töluðu eitt tungumál sýndi fram á að þeir sem töluðu tvö tungumál veiktust að meðaltali 4-5 árum síðar af sjúkdómnum en þeir sem töluðu eitt tungumál. Sú heilaæfing að læra annað tungumál virðist því halda aftur af sjúkdómnum.
8. Mataræðið er mikilvægt! Það er augljóst í tengslum við blóðsykurinn og sykursýki, en það skiptir líka miklu máli upp á æðakölkun sem getur flýtt fyrir elliglöpum. Grænmeti, ávextir og fiskur er afbragðsmatur fyrir heilann og fiskurinn á án efa sinn þátt í langlífi Íslendinga. Grænt te er líka gott fyrir heilann.
9. Vertu skapandi! Syngdu, spilaðu á harmónikku eða annað hljóðfæri, málaðu og haltu áfram að skapa eitthvað nýtt. Það örvar heilann og heldur honum í æfingu.
10. Vertu í góðum félagsskap! Já, það hefur raunverulega áhrif. Það skiptir miklu máli til að halda aftur af elliglöpum að taka virkan þátt í félagsstarfi og eiga í góðum samskiptum við fjölda fólks.

Heimildir:
BT 12. sept. 2012
CBSnews 18. feb. 2011
gizmag.com 29. feb. 2012

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing