Þungur heimur

Globe in hands

Undirritaður er nýkominn af Evrópuráðstefnu um offitu sem haldin var í Glasgow í Skotlandi 28.aprí – 1.maí s.l.
Það er áhugavert og nauðsynlegt fyrir mig sem næringarfræðing að sækja svona ráðstefnur. Með þessari ráðstefnu sér maður stærri myndina af þessu mikla heilsufarsvandamái sem offitan er. Ég fæ til mín hundruðir einstaklinga á hverju áru í heilsu- og næringarráðgjöf og um 80% af þeim vilja léttast og þetta er yfirleitt það fyrsta sem fólk nefnir í sambandi við sína heilsu og sín markmið.
Á þessari ráðstefnu voru á annað þúsund þátttakendur og hundruðir fyrirlestrar í boði. Maður fyllist smá vonleysi yfir því hversu litlum árangri við höfum náð í baráttu við offituna. Það er mjög miklu fé eytt í rannsóknir á offitunni og við vitum orðið mjög mikið um ástæður og þróun sjúkdómsins.  Magaminnkunaraðgerðir er sú meðferð sem hefur reynst hvað best yfir lengri tíma (+5 ár) í báráttunni við offituna, þó hún sé vissulega ekki fyrir alla og hana bera að ígrunda vel.
Þegar ég var nýútskrifaður með mastersgráðu í næringarfræði fyrir 13 árum var ég fullur eldmóðs og handviss um að ég gæti sigrað þetta mikla heilsufarsvandamál. En þetta stóra heilsufarsvandamál verður ekki unnið af einum næringarfræðingi, prófessor, frumkvöðli, lyfjafræðingi, lækni eða heilsugúru. Til þess að ná tökum á offitunni þarf allt þjóðfélagið og heimurinn að vera samstíga, það er langt í við séum að ná því.
Hér eru nokkrir punktar sem komu fram á þessari rástefnu og eru mikilvægir í því að skilja þetta mikla heilsufarslega vandamál:

BMI (Body Mass Index): Líkamsþyngdarstuðull

Skilgreining:
Offita er krónískur sjúkdómur samkvæmt skilgreiningu læknisfræðinnar.
BMI (Body Mass Index) eða líkamsþyngdarstuðull er oftast notaður til þess að skilgreina offituna.
Þó held ég að enginn sem er með BMI mikið yfir 30 sé í einhverjum efa að hann sé að burðast með of mikla þyngd. Þó er þessi stuðull ekki sérlega góður ef fólk er vöðvamikið eða vöðvalítið, því þetta segir ekkert til um magn vöðvamassa eða fitumassa.

Fylgikvillar offitu eru:

  • Hjarta- og æðasjúkdómar s.s. blóðtappar (heila og hjarta), hækkað kólesteról, hækkaður blóðþrýstingur
  •  Sykursýki týpa 2, meðgöngusykursýki, skert sykurþol (forstig sykursýki)
  • Ýmis krabbamein s.s brjóstakrabbamein og ristilkrabbamein
  • Stoðkerfissjúkdómar s.s. bakverkir og slit í mjöðmum, höndum og hnjám.
  • Þvagsýrugigt
  • Gallsteinar
  • Geðsjúkdómar s.s. kvíði og þunglyndi
  • Kæfisvefn og astmi
  • Ófrjósemi

Hvað þjást margir af offitu?
Meirihluti Íslendinga eru of þungir eða offeitir. 26,6% Íslendinga þjást af offitu og 38,8% af ofþyngd samkvæmt tölum Landlæknis. Þetta eru sorglega háar tölur þar sem meirihluti landsmanna er að klást við of mikla þyngd. Það er einkennilegt að hugsa til þess að það sé orðið normið að vera of þungur en fólk í kjörþyngd er komið í minnihluta.

Fitufordómar eru stórt vandamál
Fólk með offitu (sérstaklega alvarlega offitu) verður því miður fyrir miklum fordómum í samfélaginu og frá heilbrigðisstarfsfólki. Það er nógu alvarlegt að vera með alvarlegan sjúkdóm en að fá ekki þá þjónustu og virðingu sem allar manneskjur eiga skilð er ekki ásættanlegt og forkastanlegt. Þessir fordómar eru ein ástæðan fyrir því að við erum ekki komin lengra í því að vinna bug á offitunni. Hvernig væri það t.d. ef ég fengi ristilkrabbamein að meðferðaraðilinn (læknir, hjúkrunarfræðingur) færi að úthúða mér fyrir að hafa borðað rauða kjötið og beikonið?  Fólk á ekki fá mismundandi heilbrigðisþjónusutu eftir húðlit, hárlit, kyni, nefstærð, þjóðerni, trú, kynhneigð eða þyngd. Margir sem eru að kljást við offitu hafa verið að klást við einelti og fordóma frá því að þau voru á unga aldri og þessi mismunun hefur bara gert þeirra sjúkdóm alvarlegri.
Fordómar eiga aldrei rétt á sér og þeim ber að eyða með þekkingu og því hefur fólk sem er að eiga við offituna stofnað samtök offitusjúklinga. Hægt er að kynna sér samtök offitusjúklinga í Evrópu .

Offita er að stórum hluta andllegs eðlis, heilasjúkdómur
Léleg sjálfsmynd, kvíði og þunglyndi gera oft vart við sig hjá offitusjúklingum. Hjá mörgum hafa áföll í æsku s.s. líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi leitt til þess að það byrjaði að þyngjast. Fólk notaði og notar enn mat til að deifa tilfinngar, finna gleði og samband við mat verður mjög brenglað. Með því að verðlauna sig með mat og einnig með því að refsa sér fyrir ofát eða óhollan mat.
Þegar fólk er að berjast við offituna eru ýmis hormón (ghrelin, leptin)sem stýra seddu og svengd i miklu ójafnvægi og margir eru sísvangir og það er stöðug hugsun um mat.
Það vantar ekki viljastyrkinn í fólk með offitu því flestir hafa prófað alla kúra heimsins en alltaf endað í sama farinu með þyngdina. Því er erfitt að heyra frá samfélaginu að offita sé bara leti og aumingjaskapur, það þurfi bara að borða hollara fæði og hreyfa sig.

Þarmaflóran spilar stórt hlutverk í offitu
Þarmaflóran er alltaf spila stærra hlutverk í heilsu okkar en við gerðum okkur grein fyrir. Mikið af rannsóknum er í gangi núna varðandi virkni góðrar þarmaflóru sem forvörn gegn ofþyngd og offitu.Hvet lesendur til að lesa grein hér um mikilvægi góðrar þarmaflóru á heilsu okkar.

Vatnsdrykkja er nauðsynleg sem forvörn í offitu
Almennt erum við ekki nógu dugleg að drekka vatn og ef við erum duglegri við það þá erum við að drekka minna af gosi, ávaxtasöfum, kaffi eða áfengum drykkjum.
Hér eru leiðbeiningar um það hversu mikið við ættum að drekka á dag miðað við aldur:
1,3L á dag fyrir 4-8 ára
– 1,5-1,7L á dag fyrir 9-13 ára
– 1,6-2,0 L á dag fyrir eldri en 14 ára

Gæta verður að því að drekka ekki bara vatn ef mikið er svitnað því þá er maður að rugla vökva- og steinefnajafnvægi líkamans.

Allar lífsstílsbreytingar skipta máli
Í lífsstílsbreytingum ef að þyngdartap á sér ekki stað eða bara að litlu leyti eru ýmir aðrir þættir sem geta haft jákvæð áhrif á heilsu fólks sem er að burðast með mikið af aukakílóum. Má þar nefna bætt andlega heilsa, minni liðverkir, betri svefn, lækkaður blóðsykur, lækkaðar blóðfitur og meira þol. 

Offita er stórt samfélagslegt vandamál
Við lifum í offituheimi sem er rekinn áfram af sífellt meiri hagvexti og kapitalisma þar sem offitusjúklingar eru fornarlömbin á vígvelli ofneyslusamfélags.
Ef okkur á að takast að sigrast á offitunni væri gott að við værum laus við alla „isma“ því hinn póllinn með kommúnisa er ekkert betri ismi, við þurfum að koma upp heilsuisma þar sem þjóðfélög og heimurinn er rekinn áfram af því að auka heilsu og vellíðan allra jarðarbúa og móður Jarðar.
Kapitalisminn er ekki bara að selja okkur óhollustuna heldur er hann einnig hinum megin við borðið og ætlar að selja okkur pillur og stoðtæki við öllum kvillunum vegna offitunnar eða selja okkur nýjasta kúrinn sinn.
Það er alveg sama hvaða lausnir og rannsóknir vísíndasamfélagið mun koma með, offitan verður ekki sigruð nema með alheimsátaki þar sem farið verður í minni framleiðslu á óhollum mat, við förum að nota bílinn minna, andleg heilsa og svefn verða sett í forgang í heilbrigðisþjónustu.
Með kapitalismanum og  sifellt meiri hagvexti hefur peningaöflunum tekist að ganga mjög svo á þessa Jörð okkar og það sama er að gerast með holdarfar fólks. Ef við náum að draga úr neyslu og minnka framleiðslu björgum við Jörðinni og borgurnum þessa heims frá glötum.
Við Íslendingar sem smáþjóð á eyju getum verið leiðandi í þessu mikilvæga verkefni að bjarga heilsu Jarðar og Jarðarbúa. Við ættum að vera fremst þjóða í þessari baráttu og vera t.d. með hæsta sykurskatt í heimi, varúðarmerkingar á óhollar matvörur, mest útgjöld til forvarna í heilbrigðisþjónustu, minnstu skammtana af skyndibitanum, bann við sölu sætinda og gosi í skólum, íþróttahöllum og heilbrigðisstofnunum. Þetta eru drastíksar aðgerðir en vandamálið er líka gríðarlega stórt og krefst mikilla og stórra aðgerða.
ERUM VIÐ TILBÚIN TIL AÐ MINNKA HAGVÖXTINN OG NEYSLUNA TIL ÞESS AÐ SIGRAST Á OFFITUNNI?

Heimildir:
http://eco2019.org/
https://www.ruv.is/frett/offita-staersta-heilbrigdisvandamal-evropu
http://www.mni.is/mni/calculations.aspx
https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item35880/49_50_zbmifl_BMI_UTGEFID.pdf
https://www.facebook.com/ECPObesity/
https://nlfi.is/heilsan/tharmafloran-og-heilsa/

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing