Þó móti blási – 14 ár í heilsueflingu

Frá því að ég man eftir mér hefur heilsa og næring verið mér hugleikin og það hefur lengi legið fyrir mér að vera að stuðla að heilsueflingu minni og annarra.  Það er því engin tilviljun að ég starfi við næringar- og heilsuráðgjöf. Frá því að ég útskrifaðist með mastersgráðu í næringarfræði árið 2006 hef ég leiðbeint þúsundum manns í átt að betri heilsu með einstaklingsráðgjöf, á fyrirlestrum og á ráðstefnum.

Mér fallast því miður oft hendur í bráttu minni fyrir betri heilsu landsmanna, þegar ég heyri af ofursölu á gerviorkudrykkjum, aukinni offitu barna, aukinni sykursýki, minni svefn, meiri skjánotkun, meira hreyfingarleysi, meiri kulnun, auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu og minni útgjöld í alvöru forvarnir til heilsueflingar.

Því meira og lengur sem ég starfa í þessum heilsubransa þá átta ég mig á því að þeir sem við virkilega berjast fyrir heilsueflingu landsmanna,eiga sér fáa ef einhverja bakhjarla og verða að standa fast á eigin fótum. Alltof mörgum sem starfa í „heilsu“bransanum er nokk sama um heilsu fólks og vill helst bara reyna að græða sem mest á heilsuleysi fólks. Eða þannig lítur það a.m.k. út fyrir mér s.s. með því að selja tilgangslaus og rándýr fæðubótarefni, framleiða lyf sem halda niðri einkennum en lækna ekki, setja fólk á stranga og tímabundna kúra eða skrifa lífsstílsbók sem enginn nútímamaður getur fylgt án þess að flytja lögheimili sitt í klaustur.

Ég mun aldrei geta selt fólki falsheilsu og verð aldrei moldríkur maður í peningalegum skilningi og er það heldur ekkert markmið hjá mér í lífinu. Hins vegar er ég alveg moldríkur af ást og tilfinningum. Mig langar svo innilega að sem flestir jarðarbúar upplifi alvöru lífsgæði með góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Það er köllun mín í lífinu að vera heilsupredikari og það mun aldrei breytast svo lengi sem ég dreg andann. Meðan ég lifi mun ég fordæma óhóflega sykur- og sætuefnaneysluna, skyndibitaátið, svefnleysið og hreyfingarleysið og vill sjá alvöruhollustu í skólum og íþróttahúsum.

Það er ekki hægt að vera sannur og hreinn í þessu hlutverki í heilsueflingu landsmanna nema að vera viðkvæmur, elskandi og gefandi manneskja. En þetta er einmitt það sem getur valdið því að maður brennur upp í baráttunni þegar óhollustan virðist ætla að gleypa samfélagið og maður tekur það of mikið inn á sig. Þessi pistill minn er ákall til allra þeirra sem virkilega brenna fyrir bættri heilsu fólks, að gefast ekki upp því oft er þörf á ykkur en nú er nauðsyn.

Annar hópur sem ég samsvara mig við í þessari baráttu að bættri heilsu landsmanna eru umhverfisverndarsinnar. Ég held að þeim líði oft svipað og mér í baráttu sinni. Sjá þeir ekki fleiri og fleiri fréttir um mengun, fleiri virkjanir, minnkandi jökla, skógarelda, hamfarahlýnun og súrnun sjávar á meðan hægt gengur að koma áætlunum um aðgerðir í framkvæmd.

Alveg sama hversu svarta mynd við sjáum af heilsu jarðarbúa eða heilsu móður jarðar verðum við að berjast fram í rauðan dauðan. Því jörðin  og landar okkar þarfnast okkar, sérstaklega nú á tímum.
Það eru viðkvæmar sálir eins og ég í þessari baráttu fyrir heilsu almennings og umhverfis en ekki gefast upp eða missa geðheilsuna. Notið allar mögulegar aðferðir til að styrkja ykkur í baráttunni s.s að sækja Dale Carnegie námskeið, panta tíma hjá sálfræðingi, stunda hugleiðslu, núvitund og hreyfið ykkur.
Best er að byrja á sjálfum sér og vera góð fyrirmynd. Það er ákall mitt til ykkar sem berjist sannarlega fyrir heilsu fólks og móður jarðar að vera alvöru fyrirmyndir, ásamt því að berjast fyrir málstaðnum með skrifum, í samtökum, í pólitík, í miðlum, í skólum og bara sem flestum sviðum þessa lífs okkar.

Munið að þið eruð ekki ein og það er fullt af fólki í þessari veröld sem brennur fyrir betri heilsu og heimi en gengur ekki bara fyrir mætti peninganna eða auknum hagvexti.
Ef þið viljið græða pening þá hvet ég ykkur að fara frekar í tölvugeirann, þeir sem fara í heilsubransann með ekkert nema gróðasjónarmið eru fæstir með raunverulega umhyggju fólks í huga.

Ég ætla að láta Andra Snæ, Árna Finnssyni, Grétu Tunsberg og Ómari Ragnarssyni og aðra umhverfisverndarsinna eftir að huga að heilsu móður jarðar en ég mun sjá um heilsu Jarðarbúa. Þó er ég viss um að móðir jörð vilji vera heilbrigð en ég efast stundum um að jarðarbúar vilji vera heilbrigðir því þeir streitast oft á móti heilsuráðleggingum.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi