Stafar atvinnuvegum Íslendinga hætta af kenningum Waerlands?


Því hefir stundum verið haldið fram, að með komu Are Waerlands til Íslands væri NLFÍ að hefja herferð gegn kjöti og fiski og stofnaði þannig aðalatvinnuvegum landsmanna í hættu. Og fljótt á litið kann svo að virðast, sem starfsemi NLFÍ geti unnið landsmönnum tjón á þennan hátt. En þetta er hinn mesti misskilningur, og því nauðsynlegt að skýra málið með nokkrum orðum:

1. Are Waerland er sérfræðingur á sviði heilsufræði og næringar. Hann hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé heilsu manna fyrir beztu að afneita öllum nautnalyfjum og borða ekki hvítan sykur, hvítt hveiti, kjöt, fisk né egg. Fjöldi þekktra lækna og manneldisfræðinga halda þessu einnig fram og hafa fært fyrir því svo sterk rök, að telja má fullgildar sannanir, þótt læknastéttin hafi ekki enn fallizt á þær eða viðurkennt. Meðal þessara manna má nefna hinn heimsfræga ameríska lækni John Harvey Kellogg, sem nýlega er látinn á tíræðisaldri. Með því að skýra frá þessum niðurstöðum eru þeir Waerland og skoðanabræður hans ekki að ráðast á neina atvinnuvegi út af fyrir sig, heldur aðeins að leiðbeina fólki og segja því það, sem þeir vita sannast og réttast um þessi mál.

2. Ef koma Waerlands hingað til Íslands yrði til þess, að allir landsmenn steinhættu allt í einu að borða kjöt, þá færi auðvitað illa fyrir bændunum í bili. En enginn þarf að láta sér detta í hug, að neinar snöggar breytingar verði á mataræði Íslendinga eða annarra þjóða, þótt svona fræðslustarfsemi sé haldið uppi. Öll slík þróun gengur hægt, þannig að atvinnuvegirnir hafa yfrið nógan tíma til að laga sig eftir breytingunum, í þessu tilfelli eins og svo ótal sinnum áður í sögu Íslendinga og mannkynsins.

3. Um fiskinn má segja hið sama. Auk þess vitum við, að minnstur hluti af síldinni okkar fer til neyzlu, og það er hverfandi hluti af fiskframleiðslu okkar, sem við borðum sjálfir. Og engar líkur eru til þess, að t.d. Ítalir og Spánverjar hætti að borða fisk á næstunni, svo að sjómennirnir okkar þurfa ekki neinu að kvíða.

4. Einhver spakur maður hefir sagt: "Við eigum að eta til að lifa, en ekki lifa til að eta". Á sama hátt má segja hér: Atvinnuvegir og framleiðsla eiga að laga sig eftir okkar þörfum og kröfum, en við ekki að vera þrælar atvinnuveganna. Það lifa milljónir manna á því að framleiða og selja tóbak og áfengi og önnur skaðleg nautnalyf. Á að láta þetta afskiptalaust — eða jafnvel hvetja fólk til að reykja og drekka — af ótta við atvinnuvandræði þessara milljóna manna? Og eiga þeir menn, sem bezt eru að sér um manneldismál, að þegja yfir ókostum kjöts og fiskjar, bara af því að nokkrar þúsundir Íslendinga lifa á kvikfjárrækt og fiskveiðum? Nei, þá vil ég heldur skipa mér í lið með Waerland og Jónasi Kristjánssyni, en að standa í sporum þeirra manna, sem hvetja fólk til að eta sér til óbóta og heilsutjóns til þess að koma í lóg nokkrum kindaskrokkum eða fáeinum þorskum fleira en ella. Allir vita, að við Íslendingar borðum allra þjóða mest af kjöti og fiski, og þar við bætist, að kjötið fá menn ekki nýtt eða sæmilega borðandi nema fáar vikur á ári. Allan hinn tíma ársins verða menn að leggja sér til munns kjöt, sem engin skepna mundi líta við. En samt eru til menn — m.a. úr læknastétt –, sem hika ekki við að eggja þjóðina á að borða enn meira af gömlu og skemmdu kjöti.

5. Kenningar Waerlands eru síður en svo óhagstæðar fyrir landbúnaðinn. Ef allir notuðu mjólk og mjólkurafurðir eins og hann vill vera láta, þyrfti framleiðsla mjólkur að stóraukast. Bændur þurfa þá m.ö.o. að "breyta kindunum í kýr". Og líkt má segja um grænmetisframleiðsluna, sem enn er á algerðu byrjunarstigi hjá okkur. Er þar í uppsiglingu nýr atvinnuvegur, sem þúsundir manna geta lifað á og bændurnir ættu einmitt að geta lagt undir sig að verulegu leyti.

6. Það sem Waerland er að gera, er að benda okkur á þær leiðir, sem vænlegastar eru til að ná sem fullkomnastri heilbrigði, eða til að öðlast "toppheilsu", eins og hann kallar það. Sumir kalla það öfgar og ofstæki að ganga eins langt í þessu og hann og margir gera. En það, hvað menn kalla öfgar og ofstæki, fer eftir því, hverju menn eiga að venjast. Það eru þá líklega einnig öfgar og ofstæki að hirða áhöld sín og vélar svo vel, að aldrei sjái á þeim og þau vinni og endist margfalt betur en ella. Og fara menn ekki líka út í öfgar í meðferð á refum og minkum; þar má engu skeika. Nei, þetta eru ekki kallaðar öfgar, vegna þess að allir vita, að svona á það að vera, og eru þessu vanir. En ef einhver vill reyna að ala barnið sitt upp eftir ráðum lærðustu og reyndustu manna, bægja frá því sælgæti, hvítum sykri o.s.frv., þá er sá hinn sami stimplaður sem sérvitringur og ofstækismaður, ég tala nú ekki um, ef hann þar að auki hvorki reykir né drekkur kaffi eða áfengi og borðar ekki kjöt, fisk eða egg. — Auðvitað á hverjum manni að vera frjálst að ganga eins langt eða skammt í þessa átt og honum sýnist. Engum er það of gott að ná bezta árangri. Og Waerland hefir sýnt það á sjálfum sér og þúsundum fylgismanna sinna, hvernig hægt er að ná toppheilsu. Ef menn kæra sig ekki um það, þá þeir um það. Og auðvitað er til millivegur fyrir þá, sem af einhverjum ástæðum vilja eða geta ekki stigið skrefið til fulls. Waerland gefur einnig þessum mönnum góð ráð. Þannig ráðleggur hann t.d. þeim, sem borða eitthvað af kjöti og fiski, að borða með því mikið af hráum lauk, sem dregur úr rotnuninni í þessum matvælum, og svo eiga þeir auðvitað að auka neyzlu grænmetis til stórra muna, en draga að sama skapi úr neyzlu sykurs og hvíts hveitis.

7. Í sambandi við hætturnar af starfi NLFÍ fyrir atvinnuvegi landsmanna vil ég að lokum segja þetta:

Þjóðin eyðir árlega milljónum króna í bein útgjöld vegna sjúkdóma: læknishjálp, sjúkrahús og lyf. Menn missa vinnu vikum, mánuðum og árum saman, og þannig tapast einnig óhemju fjármunir. Og þá eru ótalin óþægindi, takmarkalaust böl og eymd og líkamlegar og andlegar þjáningar, sem ekki verður metið til fjár. Og svo vilja menn reyna að telja fólki trú um, að þeir sem benda á beztu leiðirnar út úr þessum ógöngum, séu þjóðhættulegir menn, óalandi og óferjandi. Sannleikurinn er sá, að hvert minnsta spor, sem stigið er í þá átt að aflétta þessari óáran, er mörgum sinnum meira virði en kjöt það og fiskur, sem kynni að fara forgörðum, og gerir miklu meira en að bæta upp þau stundaróþægindi, sem kynni að leiða af hinum breyttu lifnaðarháttum. Og loks skal á það minnst, að með því að taka upp heilnæmari lífsvenjur, geta menn ekki aðeins losnað við sjúkdóma og varðveitt heilbrigði sína, heldur eykst vinnuþrek og vinnuafköst, þannig að þegar á allt er litið, er svo langur vegur frá því, að Íslendingum stafi fjárhagsleg hætta af kenningum Waerlands og starfi NLFÍ, heldur þýðir þetta, ef eftir því er farið, stórkostlegri framför og blessun, fyrir einstaklinga og þjóðarheild, en nokkur dæmi eru til í sögu nokkurrar þjóðar.

Björn L. Jónsson
Heilsuvernd, 2. tbl. 1947, bls. 15-18

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi