Speki frumkvöðlanna – Jónas Kristjánsson (1870-1960)

Einn helsti frumkvöðull heilsueflingar á Íslandi og  einn af stofnendum Náttúrulækningafélags Íslands; Jónas Kristjánsson læknir, hafði sig mikið í frammi til heilsueflingar landsmanna með náttúrulegum leiðum. Þegar gamlar greinar eftir hann eru lesnar þá er líkt og hann hafi verið sjálfur Nostradamus og séð fyrir hvað óheilbrigt líferni mundi gera okkur í framtíðinni. Hér eru nokkur brot úr áhugaverðri grein eftir hann sem var rituð árið 1948 en hún ber heitið „Um sykursýki“.

„Sykursýkin er tiltölulega nýlegur sjúkdómur hér á Íslandi. Má segja, að hún sé nýlegt blóm í aldingarði sjúkdóma eða vanþekkingar. Hitt er ískyggilegt, að þetta blóm er í hraðri þróun og vexti allsstaðar meðal vestrænna menningarþjóða. Hér á Íslandi telja læknar, að hún hafi vart þekkzt eða verið til fyrir síðustu aldamót. Nú er hún orðin talsvert algeng. Eg hygg þó, að um það séu ekki til skýrslur. Væri það þó fróðlegt að vita.“ – Hér reyndist Jónas Kristjánsson þvímiður sannspár og er sykursýki í dag einn af helstu lífsstílssjúkdómunum vegna lélegs mataræðis og lítillar hreyfingar. Lækning við sykursýki er ekki fundin en henni er haldið niðri með lyfjum og insúlíni án þess þó að hvetja fólk nóg til að breyta sínum óhollu lifnaðarháttum.

„Ekki verður annað séð, en að hin sama efnishyggja og fégirnd ráði miklu og hafi ráðið miklu um framleiðslu hrörnunarkvillanna, sem nú sverfa fastast að menningarþjóðunum. Það er sama fégirndin og gróðafíknin, sem stendur á bak við framleiðslu og sölu vopna og annarra drápstækja og framleiðslu á áfengi, tóbaki, ýmsum cola-nautnameðölum, hinum hvíta eiturbleikta hveitisalla, hvítum sykri, hefluðum hrísgrjónum og öðrum spilltum matvælum. Og hvað er gert til að vernda heilsuna gegn árásum allra þessara skaðlegu efna?“ – Horfum á veröldina í dag í lok árs 2015!  Þá sjáum við að þessi skrif Jónasar eru 100% sönn og enn sannari í dag þar sem fégirndin og gróðafíkín er takmarkalaus og það virðist vera lítið um samfélagslega ábyrgð þeirra sem framleiða vopnin og óhollu matvörurnar. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar þessi grein Jónasar er rituð fyrir 67 árum þá voru Íslendingar rétt byrjaðir að kynnast kóladrykkjum en í dag eru þeir seldir á tilboði í tveggja lítra kippum í stórmörkuðum alla daga ársins.

Hér eru aðrar frábærar tilvitnanir í þessa grein sem óþarfi er að útskýra því þær skýra sig sjálfur og eina enn betur við í dag árið 2015 þar sem lífsstílssjúkdómar eru helsta dánarorsök okkar.

„Næringin er sterkasti hlekkurinn í akkerisfesti lífsins. Sé hann unninn úr lélegu efni, reynizt hann undantekningarlaust svikull, þegar á reynir. Líkaminn er það hljóðfæri, sem sálin spilar á. Lífslagið fer eftir samræmi og samstillingu allra strengja þess.“

„Framþróun alls lífs byggist á samræmi og samstarfi. — Leiðin til heilbrigði liggur gegnum lifandi og heilbrigðan jarðveg og lifandi og heilbrigðar jurtir, sem eru hinar eðlilegu fæðutegundir mannsins.“

„Jarðvegurinn er sem sé morandi af lífi, sé hann rétt hirtur. Þar eru gerlar, skordýr og lindýr, sem búa jurtunum í hendur rétta og auðtekna næringu. En til þess þarf jarðvegurinn að fá réttan áburð. Nú hefir þessu samræmi verið raskað með því að ausa dauðum, tilbúnum áburði yfir jörðina í stað hins lífræna áburðar. Úr slíkum jarðvegi vaxa sjúkar jurtir, sem eru þess ekki megnugar að veita dýrum eða mönnum fullkomna heilbrigði.“

„Nýsköpun er orð á hvers manns vörum hér á landi. En sú nýsköpun stefnir aðeins að útvegun og framleiðslu efnislegra verðmæta, en ekki að eflingu líkamlegrar eða andlegrar heilbrigði eða að friðsamlegu samstarfi einstaklinga og þjóða.“

Ónáttúrlegar lífsvenjur eru leiðin til sjúkdóma og aldeyðu.“

Hér er hægt að lesa þessa grein í heild sinni: https://nlfi.is/um-sykursyki.  NLFÍ hvetur alla til að kynna sér skrif Jónasar um málefni tengd heilsu landsmanna hér á heimasíðu félagsins. Þessar greinar eru alveg á pari við allar heilsubækur og heilsupistla nútímans.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi