Rétta jógað fyrir þig

Hvað er það sem kemur upp í hugann þegar þú heyrir orðið jóga? Tágrannur maður í lótusstellingu, fólk á hvolfi, ótrúlegur liðleiki, grænmetisfæði eða gamlir hippar? Jóga eru aldagömul lífsvísindi sem snúast um margt annað en að geta snert á sér tærnar. Jógastöðurnar eru aðeins einn hluti af jóga en það sem ruglar flesta í ríminu eru allar þessar tegundir af jóga. Vegna þess að við erum jafn misjöfn og við erum mörg hafa þróast ótal tegundir af jógaæfingum sem henta ólíkum persónuleikum og líkömum. Þegar byrjendur fara í sinn fyrsta tíma eru þeir með mismunandi væntingar. Sumir búast við algerri slökun en fara svo óvart í hratt vinaysa flæði og setja jóga á hilluna eftir það. Aðrir vilja meira fjör og hundleiðist í hægum jógatíma þar sem hverri stöðu er haldið lengi og áhersla er á mikla og djúpa slökun. Vegna þessa tók ég saman yfirlit yfir nokkrar tegundir af jógaæfingum sem eru vinsælar hér á landi, svo að þú getir fundið það sem þú leitar að:

EINBEITING OG STREITULOSUN

Ef þú vilt fara í rólegan jógatíma þar sem stöðum er haldið lengi þá er hatha jóga rétta aðferðin fyrir þig. Hatha er í raun og veru kennsla í grundvallar jógastöðunum sem aðar gerðir jóga, sem taldar eru upp hér á eftir, byggja á. Þetta er sú hefðbundna útgáfa af jóga sem flestir þekkja og er Hatha jógatími oftast frábær fyrir byrjendur og þá sem vilja fara varlega. Markmið hefðbundins Hatha jóga tíma er að auka liðleika og jafnvægi og taka andardráttinn með í hverja hreyfingu. Hatha jóga er endurnærandi og slakandi á sama tíma. Hatha jógatímar eru þó afar ólíkir á milli kennara.

Gott að vita: Styrkleiki Hatha jóga tíma getur verið mjög misjafn og hraðinn líka. Gott er að spyrja kennarann hversu hratt þið munið fara í tímanum. Ef þú ert ekki tilbúinn til að fara á jógastöð þá getur þú byrjað á þessu jógamyndbandi HÉR

Jógastöðvar: Jógahofið Akureyri, Jógasetrið, Jógastúdíóið.

STYRKUR OG AGI

Ef þú ert að leita eftir auknum styrk ásamt liðleika þá er Asthanga Viniyasa jógað fyrir þig. Ashtanga Viniyasa er tilvalið fyrir þá sem hafa áður stundað jóga, fimleika eða dans og vilja meiri áskorun. Þetta er líkamlega erfið tegund af jóga sem byggist upp af nokkrum seríum sem fólk lærir smám saman utan að og bætir við sig. Venjulega eru gerðar 70 stöður í 90 mínútna tíma í kraftmiklu flæði sem verður á endanum eins og hugleiðsla á hreyfingu. Þú getur fundið fyrir auknum styrk á aðeins örfáum vikum með ástundun og líkaminn fer að mótast fljótlega, en þetta reynir þó mikið á úlnliðina. Mikil áhersla er á taktfasta öndun í gegnum æfingarnar og sumar þeirra minna jafnvel á fimleika.

Gott að vita: Ashtanga krefst styrks og úthalds svo að þú færð mest út úr því að stunda það reglulega.
Ekki láta þér bregða því í byrjun tíma er farið með möntru, fylgstu bara með.

Jógastöðvar: Yoga Shala, Sólir.

ALGER SLÖKUN

Ef þú ert búin á því og finnst þú aldrei ná að slaka á þá er kannski lausn að prófa Jóga Nidra sem verður sífellt vinsælla hér á landi. Jóga Nidra þýðir jógískur svefn og er slökunaraðferð sem fer með mann á staðinn á milli svefns og vöku. Það inniheldur engar jógastöður nema Savasana (líkstaðan, þar sem þú liggur á bakinu) og kennarinn leiðir þátttakendur inn í djúpa slökun. Einnig er hægt að taka með sér ákveðin vandamál inn í slökunina og sjá hvort svarið kemur til þín.

Gott að vita: Jóga Nidra er ekki líkamleg æfing að neinu leyti heldur slökun, því er gott að hafa hlýtt teppi með.

Yogastöðvar: Jóga Jörð, Sólir, Jóga hjá Lily, Jógahofið (Akureyri) o.fl.

FLÆÐI OG TJÁNING

Vinyasa jóga þýðir í einfaldri mynd flæði jóga. Vinyasa eða Vinyasa Flow er frekar hratt flæði jógaæfinga, stundum kallað power jóga. Þessi stíll krefur þig til þess að hreyfa þig allan tímann, yfirleitt í takt við andardráttinn. Þekktasta vinyasa serían er sólarhyllingin, flæði af teygjum og stöðum. Þú getur búist við að gera æfingar standandi og sitjandi sem gefur aukinn styrk, liðleika og jafnvægi. Þessi stíll er suðurpottur þar sem blandað er saman hinum ýmsu æfingum og nálgunum. Helsti munurinn á Vinyasa og Asthanga er sá að í Ashtanga eru ákveðnar seríur af stöðum en Vinyasa er fjölbreyttara á milli tíma.

Gott að vita: Vinyasa jóga er hvað best til brennslu en er mjög misjafnt á milli kennara.

Jógastöðvar: Yogavin, Yogashala, Jógastúdíóið o.fl

ANDLEGAR UPPGÖTVANIR

Kundalini jóga er ekki eingöngu líkamsrækt heldur að mörgu leiti andleg upplifun. Það er tegund af jóga sem er gerð til að róa hugann og gefa líkamanum aukna orku með hreyfingu, möntrum og öndunaræfingum. Kundalini jógakennari þekkist auðveldlega á hvítum fatnaði og túrban. Venjulegur tími má segja að sé um það bil 50% jógaæfingar, 20% öndun og 20% hugleiðsla og 10% slökun. Markmiðið er að losa orkuna sem iðkendur Kundalini jóga trúa að sé neðst við hrygginn. Í Kundalini er lögð mikil áhersla á að virkja orkustöðvar og orkubrautir sem að þeim liggja. Fullkomið fyrir þá sem vilja stunda jógaæfingar í bland við andlegar iðkanir.

Gott að vita: Mættu í tímann með opinn huga og ef þér finnst erfitt að syngja möntrur farðu þá bara með þær í hljóði.

Jógastöðvar: Andartak, Jógasetrið, Jóga hjá Lilý, Jógahofið (Akureyri) ofl.

LIÐLEIKI OG SVITI

Hot jóga er talið gott til þess að ná meiri liðleika á styttri tíma. Það kom fyrst fram sem tilraun jógakennara til að líkja eftir loftslagi í heimabæ sínum í Norður-Indlandi með því að hækka hitann í sölunum verulega og bæta við raka. Heitt jóga er kallað ýmsum nöfnum, en hér er átt við almennt jóga sem stundað er í heitum sal. Hitinn losar vöðva og eykur hæfni til að teygja segja þeir sem stunda þetta, auk þess svitna nemendur meira en venjulega. Þetta eru jógaæfingarnar sem hægt er að finna í flestum líkamsræktarstöðvum en oft á tíðum er búið að hreinsa úr þeim flest sem heitir andleg nálgun þó það sé ekki algilt.

Gott að vita: Gott er að byrja á styttri tíma og ofreyna sig ekki. Ekki borða tveimur tímum fyrir tíma og drekktu vatn jafnt og þétt yfir allan daginn. Mundu eftir handklæði til að hafa á dýnunni!

Jógastöðvar: World Class, Sólir, o.fl.

NÚIÐ OG ÚTHALD

Kripalu jóga er þríþætt nálgun sem kennir þér að þekkja, taka í sátt og læra af líkama þínum. Kripalu jóga var lengi vel ein helsta jóganálgun sem kennd var á Íslandi en það hefur þó breyst. Það hefur sterk tengsl við tantra heimspeki þar sem mikil áhersla er lögð á að finna áhrif hverrar hreyfingar og hverrar jógastöðu. Nýttar eru kröftugar öndunaræfingar svipað og í Kundalini jóga og einnig er algengt að jógastöðum sé haldið til lengri tíma. Í þessu jóga eru mjög sterk búddísk tengsl þar sem mikil áhersla er lögð á gjörhygli (mindfulness) í hverri hreyfingu.

Gott að vita: Kripalu kennir þér að vera meðvitaður um hverja hreyfingu og þú getur búist við að tengjast sjálfum þér betur.

Jógastöðvar: Heilsubót, o.fl.

Þessi listi er að sjálfsögðu ekki tæmandi en gefur þér vonandi einhverja hugmynd um hvað er í boði og við hverju er að búast. Það getur verið að jógakennarar blandi nokkrum stílum saman, eða kenni á sinn hátt, eða kalli jóga bara jóga, þá er um að gera að prufa og sjá hvernig tími það er. Það er mikilvægt að finna kennara sem þú kannt vel við og vilt læra af. Þá er um að gera að kíkja á mismunandi staði og sjá hvað hittir í mark!

Heimildir:

http://skemman.is/stream/get/1946/9232/22394/1/bs_ritgerð_lokaútgáfa.pdf

http://www.womenshealthmag.com/yoga/

http://www.realsimple.com/health/fitness-exercise/stretching-yoga/types-yoga/

Dagný Gísladóttir ritstýra.
ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi