Rafsígarettur – Stórhættuleg tískubylgja

Á landsþingi NLFÍ  sem haldið var í byrjun mánaðarins var samþykkt ályktkun þess efnis að hvetja til aukinnar fræðslu í grunn- og framhaldsskólum um skaðsemi áfengis, tóbaks og ólöglegra vímuefna sem sífellt er auðveldara aðgengi að hér á landi. Landsþingið hvetur stjórnvöld einnig til að vara við notkun svokallaðra rafsígaretta, en vísbendingar eru um að efni í þeim séu skaðleg heilsu fólks.

Rafsígarettur eru því miður orðnar mjög vinsælar og það er varla þverfótað fyrir fólki sem er að reykja rafsígarettur eða að „veipa“ eins og það er kallað. Það er mjög skondið að verða vitni að því í umferðinni þegar fólk veipar í bílum sínum því þá fyllist bílinn af reyk, líkt og kviknað sé í bílnum.
Krabbameinsfélag Íslands hefur verið ötult við það undanfarið að fræða landsmenn um áhættuna af notkun rafsígaretta. Hér er mjög góð grein frá þeim um rafsígarettur og virkni þeirra.

Það geta allir séð það sem sjá vilja að þeir sem eru helst að nota rafsígarettur eru yngri kynslóðin og oft sér maður unglinga í góðra vina hóp nota rafsígarettur. Þetta er það langalvarlegasta við rafsígaretturnar, það hversu „töff“ þetta er orðið hjá yngri kynslóðinni.
Þeir sem selja rafsígaretturnar segja að þær séu góð lausn fyrir þá sem eru að hætta að reykja og séu rafsígaretturnar séu ekki eins heilsuspillandi og venjulegar sígarettur. Þetta má vel vera að þær séu minna hættulegar en venjulegar sígarettur og þeir sem eru að hætta að reykja mega gjarnan nota öll þau meðul sem gætu nýst þeim í „reykleysinu“ og m.a. rafrettur, það er bara af hinu góða en ekki sívaxandi áhugi og notkun unglinga á rafsígarettum.

Reykingafólki hefur stórfækkað á Íslandi undanfarna áratugi. Árið 1998 reyktu daglega 23% nemenda í 10. bekkjum grunnskóla og hafði fækkað í 2% árið 2014. Nemendur framhaldsskóla reyktu einnig minna en áður, árin 2000–2013 hefur þeim sem reyktu daglega fækkað úr 21% í 7,6%.
Það er virkilega gleiðilegt að sjá hversu vel hefur tekist til í forvörnum gegn reykingum yngri kynslóðarinnar undanfarin ár og því er það enn sorglegra að sjá hversu rafsígarettur eru orðnar vinsælar í þessum hópi. Hlutfallslega fleiri 15 ára börn (25%) hafa prófað rafsígarettur en fullorðnir einstaklingar (5%). En rannsóknir sýna að börn sem fikta við rafsígarettur eru líklegri til að byrja að reykja venjulegar sígarettur, því þau eru orðin háð nikótíninu.

Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að unglingar ættu ekki að nota rafsígarettur og ekki heldur að vera innan um rafsígarettureyk:

  • Flestallar rafsígarettur innihalda niktótín, sem er mjög ávanabindandi efni. Það virðist líka vera flottara hjá ungu kynslóðinni að hafa meira niktótín í rettunni. Sá er mesti töffarinn sem notar rafsígarettu með mestu nikótíninu.
  • Nikótínvökarnir eru oft í litríkum umbúðum og getur verið freistandi fyrir lítil börn að neyta þeirra. Litlir skammtar af nikótínvökanum geta valdið dauða ungabarna.
  • Það eru yfir 8000 bragðtegundir af nikótínvökanum og margir þeirra eru með nöfnum og bragðtegundum sem er heillandi fyrir börn og unglinga s.s. tyggjó- eða lakkrísbragði
  • Börn og unglingar eru enn að vaxa og þroskast og langtímanoktun af rafsígarettum er ekki þekkt.

Markaðssetning þeirra sem selja rafsígarettur er alveg eins og sú sem var fyrir venjulegar sígarettur fyrir áratugum. Rafsígarettur eru auglýstar af flottum og frægum einstaklingum og bara er talað um jákvæðu áhrif þess að reykja með rafsígarettum. Hefur þeim því miður tekist með þessu að gera notkun rafsígaretta eftirsóknarverða og spennandi eins og venjulegar sígarrettur voru hér um miðja síðustu öld. Hér eru t.d. markmið innflytjanda á rafsígarettum á Íslandi (af heimasíðu hans):

  • „Að hjálpa fólk að hætta að reykja. Að hjálpa fólki að byrja að veipa!“
  • „Að veipa á að vera ódýrara en að reykja!“

Það er vonandi að þessum innflytjanda takist ekki að hjálpa mörgum að byrja að veipa þó vissulega megi hann hjálpa fólki að hætta að reykja. Til að sporna gegn aukinni notkun unglinga á rafsígarettum ætti verðið einnig að vera í hæstu hæðum og á pari við venjulegar sígarettur, helst hærra.

NLFÍ hvetur stjórnvöld, félagasamtök, fyrirtæki, einstaklinga og alla þá sem annt er um heilsu Íslendinga, sérstaklega ungu kynslóðarinnar, að sporna við aukinni notkun rafsígaretta. Stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi í forvörnunum gegn rafsígarettum með því hefta aðgengi að þeim og stuðla að hárri verðlagningu þeirra.

Heimildir:
https://www.mottumars.is/fraedsla/rafrettur/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/28/rafrettur_hafa_ruglad_okkur_i_riminu/
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=70681
https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item29653/Throun_tobaksneyslu_a_Islandi-2016(2).pdf
http://www.webmd.com/smoking-cessation/features/vape-debate-electronic-cigarettes#3
http://ok2vape.is/um-ok2vape

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing