Nýir tímar

Fyrir tveimur árum ákvað bæjarfélagið sem ég bý í, algjörlega óumbeðið, að sparka mér og minni fjölskyldu inn í 21. öldina.  Við höfðum dvalið í góðu yfirlæti á 20. öldinni, undum okkur við bóklestur og annars konar gamaldags afþreyingu, horfðum til dæmis saman á RUV kvöldin (náttúrulífsþættir með David Attenborough voru í uppáhaldi allra heimilismanna, að ógleymdum eldklárum heimilisvini okkar á föstudagskvöldum, Barnaby lögregluforingja sem í áratugi hefur barist við að halda uppi lög og reglu í banvænasta héraði heims, Midsomer) og spjölluðum saman um heima og geima á þágufallssýkilausri íslensku.  Almennt töldum við að þetta væri bara hið ágætasta líf, við foreldrarnir höfðum ágætis innsýn í hugarheim ungmeyjanna á heimilinu og tókum virkan þátt í að aðstoða þær við heimanámið þegar á þurfti að halda.

Bæjarfélagið sá hins vegar að svona gamaldags aðferðir við barnauppeldi eru barn síns tíma og hreinlega barnalegar. Framtíðin verður svo ólík fortíðinni og nútímanum að nauðsynlegt er að búa sig undir hana með nútímalegum aðferðum.  Bærinn ákvað því að nú skyldi spjaldtölvuvæða öll skólabörn í bænum, frá 10 ára aldri og upp úr, því eins og allir vita eru tölvurnar framtíðin.  Verkefnið var kynnt fyrir foreldrum á fjölda funda og þeir upplýstir um þessa ákvörðun.  Eitthvað var um það að foreldrar mölduðu í móinn, einkum voru það veikróma athugasemdir um þroska barna til að höndla rafræn samskipti, áhyggjur af því að tölvurnar tækju kannski upp allan aukatíma barnanna eða að dvölin í rafheimum hefði ekki jákvæð áhrif á félagsfærni og samskipti í raunheimum.  Fulltrúar bæjarins fullvissuðu foreldrana um að svona áhyggjur væru algerlega óþarfar og endurspegluðu í raun fornan og forpokaðan hugsunarhátt sem ætti alls ekki upp á pallborð framtíðarinnar.

Spjaldtölvurnar voru innleiddar í öllum skólum bæjarins samtímis og verkefninu fylgt úr hlaði af miklum myndarskap.  Smám saman tileinkuðu kennarar sér rafræna kennsluhætti og margvísleg spennandi verkefni spruttu upp þar sem möguleikar hins nýja miðils voru nýttir til hins ítrasta. Samhliða þessu uppgötvaði æska bæjarins öll í einu hina ýmsu samfélagsmiðla, sem áður flokkuðust undir forboðin svæði, að minnsta kosti hjá mörgum foreldrum.

Við foreldrarnir á mínu heimili höfðum ekki uppi nein áform um einstaklingsspjaldtölvuvæðingu heimilisins fyrr en dæturnar næðu fermingaraldri að minnsta kosti, enda fannst okkur líf þeirra ganga ágætlega með takmarkaðri sítengingu við félagana.  Við vorum því kannski frekar neikvæð í garð verkefnisins í fyrstu.  Satt best að segja hefur sú neikvæðni einungis aukist með tímanum.  Þrátt fyrir að foreldrar ræði við börnin sín um að takmarka tölvunotkun á daginn þá er veruleikinn einfaldlega hinn sami og hjá músunum og hinum fjarlæga ketti, þegar foreldrarnir eru að heiman hanga börnin á netinu.  Á fjölmörgum fundum í skólum bæjarins hafa foreldrar lýst áhyggjum sínum af þessari þróun og fengið þau skýru svör að það sé foreldranna að setja börnunum sínum mörk og fylgja því eftir.  Ég tek heils hugar undir það en tel jafnframt að ráðin hafi verið svipt úr höndum foreldranna með þessu tilraunaverkefni.

Á sama tíma koma fram æ fleiri rannsóknir benda á að kvíði barna og unglinga sé að aukast, í réttu hlutfalli við aukningu þess tíma sem þau eru á samfélagsmiðlum.  Stoðkerfisvandamál grafa um sig hjá ungum börnum vegna oft á tíðum skringilegrar líkamsstöðu á meðan ferðast er um netheima.  Í alþjóðlegu samhengi hrakar þekkingu íslenskra skólabarna í grunnfögum náms og er það grafalvarlegt mál.  Það eru einnig gömul sannindi og ný að lestur eykur færni barna í fjölmörgum námsgreinum.  Því miður hefur spjaldtölvunotkun ekki jávæð áhrif á bóklestur á mínu heimili.  Meira að segja bókaormur heimilisins dvelur langdvölum með vinkonum sínum í rafheimum á meðan hetjur ólesinna spennusagna bíða þess að vera lesnar úr vandræðum sínum.

Ég hef fullan skilning á því að bæjarfélagið vilji stuðla að því með þessu verkefni að búa unga fólkið undir framtíðina með nútímalegum aðferðum.  Í hjartanu held ég samt að í framtíðinni þurfi fólk samt að geta lesið, skilið og skrifað texta og átt samskipti við fólk í raunheimum.  Ég er ekki viss um að þessi aðferð tryggi það.

Guðríður Helgadóttir, áhyggjufullt foreldri

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi