Vér Íslendingar höfum nokkra sérstöðu meðal vestrænna þjóða í því að innleiða þá hrumu heilsu, sem þær hafa tileinkað sér á síðari árum. Vér sluppum síðar en þær flestar undan ánauðaroki, er vér höfðum haft yfir oss allt frá 13. öld. En vér höfum orðið því snarpari á sprettinum í því að tileinka okkur lærdóma vestrænnar sjúkramenningar. Og nú er svo komið, að vér erum að verða hæstir af vestrænum þjóðum í ræktun krabbameins. Til þess tíma höfðum vér lifað af eigin framleiðslu. Það gekk sæmilega, þegar vel lét í ári; þjóðinni fjölgaði og hún lét sér allt vel líka. En þegar tíðarfar spilltist og hafís eða jarðeldar sóttu oss heim, þá féll peningurinn fyrst og fólkið á eftir. Þannig hefur þetta gengið allar aldir síðan land byggðist.
Vér þóttumst hafa himininn höndum tekið, er vér áttum von á að fá hvít hrísgrjón flutt til landsins. Þau þóttu fyrirmyndarfæða, eftir að þau höfðu verið soðin í allt að því 4 klst. Auðvitað var þetta vendilega deydd fæða, enda vakti það síðar eftirtekt mína, að berklaveiki og krabbamein urðu frá upphafi skæðastir vágestir á þeim heimilum, sem mest fluttu í búr af hvítum hrísgrjónum, hvítu hveiti og sykri, þ.e.a.s. þau sem efnuðust voru og bezt gerðu við fólk sitt.
Það er furðulegt, að margt menntað fólk skuli ekki hafa áttað sig á því ennþá, hve viðsjárvert það hlýtur að vera, að svipta hveitikornið sínum beztu lífefnum, hýði og kími, og bleikja það síðan með efni, sem er eitrað og deyðandi. Þetta tiltæki, sem í fyrstu er sprottið af hégómaskap, er ennþá friðhelgur siður. Og hið eiturbleikta hveiti er allvíða meginþáttur í daglegu fæði manna. Hér á Íslandi eru árlega notuð 50 kíló á hvern mann, unga sem gamla, af hvítu hveiti. Og neyzla hins hvíta sykurs er litlu minni. Þetta er ein fyrsta næring ungbarnsins, að ekki sé talað um móðurina og svo eru menn forviða yfir því, að kvillar skuli byrja í börnunum alveg nýfæddum! Engum sæmilega menntuðum manni ætti þó að geta dulizt, að næring vestrænna þjóða hlýtur að vera meginundirrót þeirra hrörnunarsjúkdóma, sem þær eru hrjáðar af, krabbameins, ekki síður en tannskemmda, sálsýki ekki síður en magasjúkdóma, botnlangabólgu ekki síður en augnveiki. Vegna þess að líkami hvers manns er ein lífsheild, þar sem hvert líffæri situr að máltíð við sama borð sem önnur, þá hlýtur þeim öllum að vera hætt, ef eitt þeirra bilar vegna óheppilegs mataræðis. Þetta er nokkuð, sem hver meðalgreindur maður, og þá ekki sízt læknar, ættu að vita, eða leggja alla stund á að læra og skilja. Ýmsir talshættir, spakmæli og fróðleikur á máli flestra þjóða, lýsa skilningi ómenntaðrar alþýðu á þeirri staðreynd, að „matur er mannsins megin, skilningi, sem virðist fyrirmunaður mörgum lærðum lækni.
Einn kollega minn sakaði mig þannig eitt sinn um það, að ég predikaði villukenningu fyrir mönnum. Ég bað hann að skýra mál sitt, og myndi ég taka því með þökkum, ef hann gæti bent mér á í hverju villa mín væri fólgin. Jú, hann sagði að ég predikaði það, að menn þyrftu að neyta lifandi fæðu. Ég viðurkenndi, að það væri rétt, þetta teldi ég grundvallarskilyrði fullkominnar heilbrigði. En þetta er rangt og tilhæfulaust, mælti hann. Mér varð að orði Segðu kúnni þetta. Bjóddu henni eitthvert dautt fæði; ég ætla að bjóða henni lifandi gras; og vittu hvort hún dæmir þér í vil.
Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir alla menntun vestrænna þjóða, er hinn hvíti kynstofn öllum öðrum krankfelldari. Og orsökin er efalaus, sú, að menn deyða fæðu sína áður en hennar er neytt. Ég benti á dæmið af hvítu hveiti, að það væri svipt öllu lífi, vítamínum, auxon-efnum og steinefnum, og síðan gert baneitrað með bleikingarefnum og óhæfilegt til manneldis. Það er margsannað, að á hvítu hveiti geta menn ekki lifað einvörðungu nema skamma hríð, og eru dauðir ef þeir reyna það lengur en 12-13 daga. Fáir halda þá raun lengur út en 8 daga, eru þá orðnir fóðurveikir og tekur það allt að 3 vikur að ná sér. Þetta er svo kallaður hollur matur og gefinn börnum og góðum gestum!
Eins er það, þegar hafragrjón eru völsuð, að þau eru þá eldhituð til þess að drepa kímið og bræða feitina, sem lykur um kímið. Með þessu tiltæki er framin hin versta yfirsjón, sem mæðir á flestum vestrænum þjóðum. Og um flestar fæðutegundir, sem gerðar eru að verksmiðjuiðnaði, er hið sama að segja, að þeim er stórspillt við framleiðsluna og verða auk þess oft og tíðum óhæfar til matar vegna upplausnar sem myndast í þeim við geymsluna.
Eftir að Englendingar höfðu lagt undir sig Indland og Hollendingar Jövu og Súmötru, kenndu þeir hrísgrjónaræktarþjóðum þessara landa að svipta þau hýðinu. Skömmu eftir að farið var að neyta þessara hýðislausu grjóna fór að bera á áður óþekktum sjúkdómi með þessum þjóðum, sem kallaður er síðan „beri-beri. Töldu menn í fyrstu, að hér væri um sóttnæman kvilla að ræða, og var hafin leit að ákveðnum sýkli, sem væri hér að verki. Gekk svo um hríð. Þá var það í fangelsi einu á Jövu, þar sem flestir sjúklinganna voru illa haldnir af beri-beri, að fangelsislæknirinn veitti því eftirtekt einn daginn, að hænsnin lágu til og frá í fangelsisgarðinum, og kona ein var að bjástra við að reisa hænurnar á fætur, en þær féllu aftur um koll, ef andvari kom á þær. Læknirinn spurði, hverju þetta sætti, og kom til hugar, að hænsnin væru svelt. En honum var sagt, að hænsnin fengju leifar fanganna. Hann ályktaði þá aftur, að þetta kynni að stafa af fóðrinu, þar sem sjúkdómseinkenni fanganna og hænsnanna voru svo lík. Lagði hann þegar svo fyrir, að hænsnunum skyldu gefin hrísgrjón eins og þau kæmu af akrinum. Það var gert, og batnaði hænsnunum alveg á þriðja degi. Fangarnir fengu því næst hina sömu meðferð og tóku einnig bata fyrir sitt leyti. Þar með var það sannað, að afhýðing grjónanna, sem fangarnir lifðu á, átti sök á þessum sjúkdómi, beri-beri.
Menn skyldu nú ætla, að sá ósiður hefði verið lagður niður að svipta grjónin hýðinu, en því er nú ekki að fagna. Bretar flytja enn þá heim til sín hefluð hrísgrjón, og sjúkdómar eru enn þá ræktaðir af slíkum völdum hér á Íslandi sem annars staðar. Ég hef orðið var við beri-beri í hænsnum og mönnum hér á landi. Neyzla gamals, soðins kjöts, hvíts hveitis og annarrar dauðrar fæðu er orsökin. Lifandi þang t.d. læknar hins vegar beri-beri í mönnum og húsdýrum á nokkrum dögum.
Margt er skylt með mannrækt og jarðrækt. Árið 1888 kom út dálítill bæklingur, fyrirlestur eftir sr. Jón Bjarnason höfuðprest Vestur-Íslendinga. Nafn þessa bæklings var Er Ísland að blása upp? Í þessum fyrirlestri var varað við eyðingu landsins, og bent á allmarga staði, þar sem eyðst hefðu skógar og kjarr fyrir vægðarlausa beit, auk eyðingar af jarðeldum, skógarhöggi og hrísrifi. En undiralda og hinn dýpri tilgangur þessa fyrirlesturs var að benda á þá hættu, að andlegur uppblástur tæki að herja með þjóðinni. Mannfólkið sjálft er ekki síður en landið í slíkri hættu statt. Og hinn öri vöxtur menningarsjúkdóma ýmsra með þjóðinni, er órækt merki um slíkan uppblástur, andlega og líkamlega. Neyzla allskyns dauðrar fæðu, hóglífi og kyrrsetur, tóbaksreykingar, víndrykkja, kókakóla-þamb og sælgætisát barna og unglinga allt þetta verkar á þjóðarstofninn líkt og nauðbeit að vetri til á kjarr og skóglendi. Það er ekki minni þörf á að rækta fullkomna heilbrigði til varnar gegn sjúkdómum en að rækta skóg til varnar gegn landeyðingu.
Sjúkdómar stafa undantekningarlítið af því, þegar slys eru frátalin, að vér brjótum þau lögmál, sem lífið er háð, eins og landeyðing stafar af því, að raskað er jafnvægi gróðurríkisins, t.d. með eyðingu skóganna, sem halda hinum lífsnauðsynlega raka í jarðveginum.
Hinn nýlátni manneldis- og lífeðlisfræðingur dr. Alexis Carrel vann eitt sinn það vandaverk að taka hjarta úr hænufóstri og halda því síðan lifandi. Síðan eru yfir 50 ár, og ég veit ekki betur, en að þetta hjarta „slái enn, vaxi og taki til sín næringu. Þess hefur verið gætt af þremur lærðum lífeðlisfræðingum. Hið ófrávíkjanlega lífsskilyrði þess var þetta, að næringarvökvanum væri haldið hreinum. Væri það vanrækt um stund, dró þegar úr lífskrafti þess og efnaskiptum; en jafnskjótt og nýr súrefnisríkur næringarvökvi kom til, blossaði líf þess upp að nýju.
Þannig er manninum og hverri annarri lifandi veru einnig farið. Sérhver líftegund gerir kröfu til réttrar og lifandi næringar og síns ákveðna skerfs af súrefni. Líf verður að nærast á lífi.
Merkilegt má það heita, að allt til þessa dags eru þeir læknar og sérfræðingar, sem lærðastir eru taldir, fjær því að ráða fram úr vandamálum lífs og heilbrigði en ólærðir menn með praktisk hyggindi. En svo er þessu þó farið. Og svo mikið er víst, að fjölmenn læknaþing fara ekki nær því sanna um úrlausn mála en þeir sem starfa í kyrrþey, eins og þeir Dr. Bircher-Benner og Sir Robert McCarrison. Þessir tveir menn hafa um langa ævi starfað sinn á hvoru verksviði, en þó komizt að sömu niðurstöðu.
Dr. Bircher-Benner starfaði um langa ævi við sjúkrabeði og komst að þeirri niðurstöðu, að rétt valin, lifandi fæða ráði mestu um heilbrigði manna. Sir Robert McCarrison hitti hins vegar fyrir sérstaklega heilbrigðan mannflokk austur í dölum Himalajafjalla, svo að það var því líkast að sjúkdómar gætu alls ekki hrinið á honum. Þessi mannflokkur, sem kallar sig Húnsa, lifir við fremur kröpp kjör, að mestu á lifandi jurtafæðu, sem er lítið breytt frá því sem hún kemur af ökrunum; þeir grófmala t.d. kornið og gera úr því brauð, sem er lítið bakað. Sir Robert ól rottur á þessu sama fæði til hárrar elli á rottuvísu og slátraði þeim þá og rannsakaði dýrin eftir því sem beztur kostur var á. Útkoman varð sú, að öll reyndust dýrin vel hraust og var enginn vottur sjúkdóma finnanlegur. Hins vegar fóðraði Sir Robert aðrar rottur á mat, sem líktist mest fæði Englendinga og annarra vestrænna þjóða eins og það gerist í stórborgunum á meginlandinu. Reynslan af því varð sú, að öll dýrin urðu sjúk og voru með sjúklegar breytingar í líffærunum við krufningu eins og raunin varð einnig á við Parckham-rannsóknirnar, sem áður hefur verið getið hér í ritinu, en í þessu Lundúnahverfi reyndist enginn maður heill heilsu svo öruggt mætti telja.
Með þessu var sýnt fram á, að neyzla náttúrlegrar og lifandi fæðu er sæmilega öruggt ráð til að varðveita fullkomna heilbrigði eins og hún getur bezt orðið. Þessir tveir látlausu og þó vel lærðu menn komust báðir að hinni sömu niðurstöðu um ráðið til að fyrirbyggja sjúkdóma og njóta fullkominnar heilbrigði, sem sagt það, að neyta náttúrlegrar og lifandi jurtafæðu.
Aldrei hefur heilsufar Íslendinga staðið valtari fótum en einmitt nú, og fer mjög hrakandi eins og bezt sést af dánartölum af völdum krabbameins. Á undanförnum árum hefur þjóðin þó lifað við allsnægtir og nútíma menningarfæði, þar sem ekkert hefur verið til sparað af hinu tíðkanlega sælgæti; af því hefur þjóðin etið um 400 tonn á ári, og eftir því kjöt og brauð úr hvítu hveiti, og annan dauðan mjölmat sem sagt fæðu, sem að dómi viturra og vel menntaðra manna hefur reynzt skaðvæn fyrir heilbrigði og hreysti.
Afleiðingin sést bezt á hinum hraðfara krabbameinsvexti sem er að heltaka þjóðina. Sú óheillaþróun verður ekki stöðvuð nema upp verði teknir aðrir hættir í manneldismálum.
Ég get tilfært hér dæmi, sem í þessu sambandi er lærdómsríkt. Fyrir nokkrum árum kom til mín kona, blóðlítil (62-65%), föl og sorgbitin. Hún hafði æxli í báðum brjóstum. Hún hafði sýnt læknum þessi æxli og réðu þeir eindregið til að framkvæmd yrði skurðaðgerð sem fyrst. Konu þessari, sem var um 50 ára að aldri, varð svo mikið um þetta, að hún réð af að láta skeika að sköpuðu, og tilkynnti mér, að hún léti ekki skera sig, og vildi aðeins vita, hvort unnt væri að draga úr þrautum sínum þar til yfir lyki. Ég sagði henni að það væri hægt, og bað hún þá um ráð til þess. Ég gaf henni ráð, sem hún lofaði að fara nákvæmlega eftir. Útskýrði ég þau fyrir henni eins og unnt var og fann að hún hafði áhuga fyrir því, sem ég sagði. Ég hafði svo ekki frekari spurnir af henni fyrr en eftir 10 mánuði. Þá kom hún til mín aftur og var þá orðin rjóð í andliti, glaðleg og létt í spori og augun fjörleg. Ég spurði hana strax um brjóstin. Æxlin voru gersamlega horfin og henni leið vel. Þessu hafði fengizt áorkað með breyttu mataræði einu saman.
Vegna þess, að þessi reynsla mín er í samræmi við reynslu margra annarra lækna, hef ég skýrt frá henni hér. Ég get ekki látið vera að undrast yfir því, hve lítið er gert til umbóta á fæði þjóðar vorrar, eins og sú nauðsyn liggur beint við, í stað þess að fljóta þannig sofandi að feigðar ósi. Það ætti þó að geta verið sýnilegt hverjum manni, hve mataræði vort er fjarlægt því að vera líklegt til heilsubóta. Vér eigum ekki glæsilega tíma í vændum, ef vér höldum áfram að rækta sjúkdóma eins og gert hefur verið undanfarna 5-6 áratugi. Þeim fjölgar látlaust, er sjúkir verða, og læknar vorir fást því nær eingöngu við aðgerðir á áorðnum sjúklegum breytingum, en brýnum ráðstöfunum til almennrar heilsuverndar er lítið sinnt.
Uppbyggingarstefna sú, sem Alexis Carrel kallar Remaking of Man, og fólgin er í fyrirbyggingu sjúkdóma með ræktun fullkominnar heilbrigði, þarf að verða hér ráðandi afl í stað þeirrar óheillastefnu, eða stefnuleysis, sem vér höfum fylgt síðustu áratugina. Menn verða að hætta að rækta í sjálfum sér tannskemmdir, botnlangabólgu, sykursýki, magasár, skjaldkirtilsjúkdóma, hjartasjúkdóma, sálsýki o.s.frv. með óhollu mataræði og lífsvenjum og krabbameinið mun þá einnig hverfa, alveg hljóðalaust.
Sjúkdómar eru óþarfir. Vér höfum allt sem vér þurfum til þess að skapa í landi voru hrausta og heilbrigða þjóð, ef skilninginn vantar ekki á mikilvægi þess starfs né opin augu fyrir því, hvert stefnir fyrir oss eins og nú er fram haldið.
Hornsteinn hins nýja heilsuhælis vors í Hveragerði er þessi uppbyggingarstefna. Það er heilsuræktarhæli. Það er enn sem komið er af vanefnum gert og þarf sem fyrst að komast í það horf, sem því er ætlað. Og það mun takast því fyrr, sem fleiri gera sér ljóst, hve líf og velferð þjóðar vorrar er því háð, að vér hverfum af braut hrörnunarsjúkdómanna til heilbrigðrar lífsstefnu.
Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1955.