Neysla og meiri neysla

Hugmyndin að þessum pistli kom úr nýju lagi Ásgeirs Trausta sem heitir „Limitless“. Þar er sungið „Everybody’s on a shopping spree – Buying things that they don’t really need“. Á íslensku útleggst þetta sem „allir eru kaupóðir að kaupa hluti sem þeir hafa enga þörf fyrir“.

Það eru ótrúlega miklar breytingar sem hafa orðið á þjóðfélagi okkar undanfarna áratugi þegar kemur að neyslu. Hér eru nokkur dæmi um þessa miklu neyslu okkar í nútímanum (a.m.k. ef horft er á hana frá sjónarhorni 47 ára fjölskylduföðurs í Kópavogi)

  • Í „gamla“ daga stoppaði mamma í sokka sem voru götóttir en í dag kaupum við 5 pör í H&M á 999 kr. Áður fyrr voru húsmæður líka mjög duglegar að prjóna og sauma föt á fjölskyldumeðlimi. Það svarar hvorki tíma né kostnaði í dag. En því miður er mikið af þessum ódýrum klæðum sem kaupum af svo lélegum gæðum að við þurfum fljótt að kaupa meira! Til að minnka neysluna og stuðla að umhverfisvernd þá ættum við að kaupa flíkur af góðum gæðum og versla við „second hand“ fatabúðir.
  • Í mínu ungdæmi voru ávallt sömu eldhús- og baðinnréttiningarnar uppi og nýjasti lampinn frá Epal var ekki staðalbúnaður.
    Það sem fólk á mínu reiki gerir þegar það kaupir íbúð eða hús í dag er að tæma allar innréttingar og gólfefni úr húsinu og byggja innviði þess upp á nýtt.
    Við getum gert betur og minnkað þessa neyslu og gert frekar upp gamla muni í stað þess að henda þeim, nema að þeir séu ónýtir.
  • Matarsóun hefur aldrei verið meiri og erum við að henda um 30% af þeim mat sem við kaupum. Algjörlega galið og við verðum að fara að huga betur að því hvernig við getum nýtt matinn okkar. Á saman gegn matarsóun er hægt að fá góðar hugmyndir að því hvernig má stuðla að minni matarsóun. Einnig er hér grein á NLFÍ um það hvernig er best að geyma ávexti og grænmeti svo þeir geymist lengur.
  • Ungar dætur mínar eiga stútfull herbergi af dóti sem þær leika sárasjaldan með. Ég og eiginkonan grisjum reglulega dótið þeirra og geymslan og bílskúrinn er fullur af dóti sem þær nota ekki. 
    Þegar ég var ungur man ég sérstaklega eftir fjarstýrða bílnum mínum sem var mitt uppáhaldsleikfang og ég fæ enn hlýju í hjartað að hugsa um það hvað ég lék mikið með hann. Því miður held ég að dætur mínar geti ekki valið sér eitthvað uppáhalds leikfang, það er bara alltof mikið af dótinu til að geta valið. Það er eitthvað svo kómískt og sorglegt að við erum með herbergi barna okkar stútfull af rándýru dóti sem þau svo leika sér sárasjaldan með!
    Leggjum frá okkur snjallsímana og förum og leikum við börnin okkar í herberjum þeirra með öllu þessu dóti.
  • Það er gjörsamlega að vera að drekkja okkur í rafmagnstækjum og við eigum helst að eiga nýjasta snjallsímann, tölvuna, heyrnatólin, ryksuguvélmennið, öryggiskerfið, dyrabjölluna, snjallljósin,  ísskápinn, hátalarann og fl. Það ótrúlega við þessar græjur er að það er alltaf að koma ný útgáfa og neyslan er botnlaus ef maður hefur tíma og fjárráð að eltast við allt það nýjasta í tækninni.
    Þessi þörf á nýjustu græjum verður aldrei uppfyllt og við verðum að reyna að hemja okkur með „gömlu“ græjurnar ef við viljum minnka neysluna okkar. Framleiðendur rafmagnstækja eru líka snillingar í að koma fram með nýja tækni á hverju ári til að viðhalda þessari fíkn okkar í það nýjasta.
  • Endalausir afsláttardagar. Ef þið eruð að lesa blöðin eða að skrolla í gegnum samfélagsmiðla ykkar sjáið þið ekkert nema einhverja afsláttardaga, tax-free daga, helgarsprengja, vinaafsláttur, svartur fössari, o.fl. ofl.
    Við þurfum að opna augum og hætta að falla fyrir þessum gylliboðum þó að það sé auglýst 40-80% afsláttur. Við eigum vel flest nóg af dóti og fötum fyrir og þetta mun bara auka á draslið í geymslunni og bílskúrnum.
  • Það sorglegasta í allri þessari neyslu að við lítum of mikið upp til þeirra sem eru mestu eyðsluseggirnir þ.e.a.s. þeir sem eiga endalaust af peningum og eru með eysluna í botni og eiga jafnvel einkaþotu.
  • Í þessum pistli hefur bara verið vakin athygli á neyslu á fötum, dótum og öðrum varningi en það er mikið búið að rita á þennan miðil um gígvænlegu ofneyslu okkar á dauðum og næringarsnauðum gervimat sem einnig er hluti af þessu neyslusamfélagi okkar.

Þessi neysla er alls staðar, hvort sem það snýr að vinnu, einkalífi og tómstundum. Nýfædd börn okkar eiga að eiga öll dýrustu fötin, vagnana og græjurnar. Sá sem stundar íþróttir á að eiga bestu skóna, flottustu fötin, bestu og nýjustu græjurnar og það er sífellt áreiti í því að við neytum meira.
En við erum að kaupa svo mikið af dóti að við erum orðin dofin tilfinningalega. Okkur er flestum skítsama um marga af þessum munum okkar og getum ekki beðið eftir því að fá okkur sem fyrst nýja.

Það að við séum tilfinngalega dofnar eyðsluklær eru smámunir miðað við hið raunverulega fórnarlamb í þessari neyslu…..MÓÐIR JÖRÐ! Hnattræn hlýnun er vegna þessarar miklu neyslu okkar og við þurfum að minnka þessa neyslu verulega til að gera Jörðina byggilega mönnum í framtíðinni.

Velflestir af þeim sem lásu þennan pistil munu því miður fara að plana næstu utanlandsferð,  kaupa skyndibita í kvöldmatinn, spá í dýrum jólagjöfum, kaupa nýtt öryggiskerfi, huga að því að taka eldhúsið í gegn o.fl.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing