Næringarráðstefna – Hvað segja fræðin?

Dagana 3. – 6. september sl. var haldin stór næringarráðstefna í Vínarborg í Austurríki á vegum Evrópusamtaka um klíníska næringarfæði og efnaskipti (European Society for Clinical Nutrition and Metabolism) eða öðru nafni ESPEN.
Þessi næringarráðstefna hefur verið haldin frá árlega frá árinu 1979 og þar koma saman helstu sérfræðingar á sviði klínískrar næringarfræði.

Rúmlega 4000 þátttakendur frá 105 löndum tóku þátt í ráðstefnunni og var henni einnig streymt í gegnum netið. Ásamt fjölda fyrirlestra og kúrsa  var stór vöru- og stoðtækjasýning hluti af ráðstefnunni.

Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var EAT and MOVE eða borðum og hreyfum okkur.

Á ráðstefnunni voru þessi næringartengdu málefni rædd:

  • Meltingarsjúkdómar
  • Þarmaflóran og mikilvægi í heilbrigði
  • Næring nýrnasjúklinga
  • Hvernig auka má trefjaneyslu
  • Bólgur og næring
  • Næring og smitsjúkdómar eins og t.d. COVID-19
  • Sjálfsát frumna (autophagy) og næring
  • Fæðuval, matarvenjur og heilsa
  • Nýjar leiðir í offitumeðferðum s.s. lyf
  • Offita, andleg heilsa og heilastarfsemi
  • Vannæring barna

Undirritaður sótti þessa ráðstefnu og það kom margt áhugavert fram sem tengist starfi mínu sem næringarfræðingur. Einnig var gott að hitta þarna kollega í faginu og deila reynslu og ræða hvernig bæta megi störf sín.
Það sem vakti mesta athygli mína er hvað það er mikill fróðleikur sem kemur þarna fram en almenningur fær lítið að njóta þessa fróðleiks. Þarna voru rúmlega 4000 heilar stútfullir af þekkingu og stór hluti þátttakenda með doktorspróf í  t.d. í næringarfræði, læknisfræði, hjúkrun og sjúkraþjálfun. Hvert fer öll þessi þekking? Vissulega var þetta ráðstefna í KLÍNÍSKRI næringarfræði og er þekkingin notuð inni á spítölum, hjúkrunarheimilum, endurhæfingarstofnunum og læknastofum en ekki sem fræðsla eða forvörn fyrir almenning í ALMENNINS næringarfræði.

Það er því mitt hlutverk að reyna að koma eitthvað af þeim fróðleik sem mér þótti áhugaverður á þessari ráðstefnu í mannamál. En ég hafði því miður hvorki tíma né geta til að hlýða á öll erindin og er það sem fylgir hér á eftir það sem vakti hvað mesta athygli mína og/eða tengist mest mínum störfum sem næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ. Vert er að taka það fram að of mikið af þessu hámenntaða og gáfaða fólki sem hélt erindi þarna hafði bara litla sem enga þekkingu á því að koma þekkingu sinni vel frá sér. Það kom því miður stundum fyrir að undirritaður gekk út af fyrirlestri því fyrirlesarinn var illskiljanlegur og/eða þurr á manninn þó vissulega hafi efnið sem viðkomandi átti að ræða um væri áhugavert.

Offita – Meðferðir, kostir og gallar magaaðgerða

Offita er stærsta heilbrigðisvandamál nútíma neyslusamfélags og fræðasamfélagið er á fullu að reyna að finna lausnir á vaxandi offitu og fylgikvillum. Því miður fyrir mín störf þá virðist sú meðferð sem undirritaður veitir í næringar- og heilsuráðgjöf ekki vera mjög virk eða skila miklu þyngdartapi í samfélaginu. Hér er yfirlit yfir helstu offitumeðferðir og virkni þeirra í samfélaginu (samkvæmt niðurstöðum rannsókna):

  • Lífsstílsmeðferð (næring, hreyfing, atferlismeðferð) á einstaklingsgrunni 1-2 kg, hlutfallslegt þyngdartap < 5%
    • Fjölþætt meðferð með breyttri næringu, hreyfinu og atferlismeðferð í a.m.k. 6 mánuði (basic therapy) 4-5 kg, hlutfallslegt þyngdartap 5-10%
    • Fjölþætt meðferð auk megrunardrykks  í að mesta lagi 12 vikur, 10-30 kg, hlutfallslegt þyngdartap 15-26%
    • Magaaðgerðir (bypass og ermisaðgerð) 20-50 kg, hlutfallslegt þyngdartap 20-40%

Miðað við þessar tölur þá er kannski ekkert skrítið að aðsókn í magaaðgerðir sé að aukast en þær eru því miður heldur engin töfralausn þegar litið er til fylgikvilla og langtímaáhrifa. Skurðaðgerðir stuðla vissulega að meira þyngdartapi en þettar er stórt inngrip í meltingarveginn, stuðlar að meira tapi á vöðvamassa, auknar líkur eru á vannæringu vegna skorts á orkuefnum, vítamínum og steinefnum,

Kostir skurðaðgerða og hefðbundinna offitumeðferða

SkurðaðgerðirHefðbundar meðferðir
Meira þyngdartap  Minna tap af vöðvamassa og ekki neikvæð áhrif á meltingarveginn
Sykursýki og metabólískir sjúkdómar  ganga oft tilbaka  Minna um vannæringu vegna skorts á orkuefnum, vítamínum og/eða steinefnum
Skjótari árangur meðferðar  Minni takmarkanir í matarvali
Enginn sem hættir í miðri meðferð eftir aðgerð
(no drop-off)  
Viðkenndari meðferð í samfélaginu
Minni þyngdaraukning eftir meðferð  Ódýrari

Vannæring eldri borgara – Alvarlegt heilsufarsvandamál

Vannæring eldri borgara er stórt vandamál í Evrópu og má telja að tíðnin sé

  • 20-50% á spítölum
  • 20-40% á hjúkrunarheimilum
  • Í samfélaginu
    • Á heimilum fólks 5%
    • Í heimahjúkrun 15%

Gera má ráð fyrir um 500 milljón Evrópubúum og þar af eru um 17% eldri en 65 ára og eru það um 80 milljónir eldri borgara og þar af eru 4-8 milljónir vannærðir á heimilum og rúmlega 2 milljónir á sjúkrastofnunum.

En hvernig er vannæring metin? ESPEN hefur sett saman prógramm Global Leadership Initiative on Malnutrition (GLIM) sem notað er til að meta vannæringu.
GLIM mælikvarðinn metur alvarleika vannæringar út frá:

  • Alvarleika þyngdartaps undanfarna 6 mánuði
  • BMI (Body Mass Index)
  • Tapi á vöðvamassa og styrk
  • Minnkuð matarlyst og fæðuinntaka
  • Undirliggjandi sjúkdómar og vandræði með meltingu og upptöku næringarefna

Vannæring er flókið heilbrigðisvandamál og má skipta henni í:

  1. Líkamleg
    1. Sjúkdómar s.s í stoðkerfi, hjarta- og æðakerfi, meltingarvegi og bólgur
    1. Lélegar tennur og kyngingarerfiðleikar
    1. Aukaverkanir lyfja
  2. Félagsleg
    1. Skert vitsmunageta
    1. Þunglyndi
    1. Sorg,einmanaleiki
    1. Fátækt

Það er sorglegt að sjá hversu mikið vandamál vannæring er í þessum ríku þjóðfélögum okkar í Evrópu er. Það er oft einblínt á vandamál offitunnar en vannæringin er einnig risastórt heilbrigðisvandamál sem kostar þjóðfélög mikið og minnkar lífsgæði verulega.

Algengasti skortur á vítamínum og steinefnum hjá eldri borgurum er D-vítamín, B-12 vítamín, B-6 vítamín, þíamín, C-vítamín, kalk, járn og járn.

Önnur hlið á vannæringunni og hækkandi aldri er aldurstengt vöðva- og styrkartap eða sarcopenia. Til að koma í veg fyrir þetta vöðvatap með aldri er mikilvægt að stuðla að virkum lífsstíl og sérstaklega styrktarþjálfun, næg orkuinntaka og gæta sérstaklega vel að því að hafa matvörur próteinríkar (25-30 g prótein í hverri máltíð).

Þarmaflóran – Mikilvæg í heilbrigði okkar

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að þarmaflóran skiptir miklu máli í heilbrigði okkar og er m.a. talið og heilbrigð þarmaflóra geti haft jákvæð áhrif í meðferð eftirfarandi sjúkdómum:

  • Offita
  • Hjarta- og æðasjúkdómar
  • Sykursýki
  • Lifrarsjúkdómum
  • Lungnasjúkdómum
  • Bólgusjúkdómum í þörmum
  • Geðrænum sjúkdómum
  • Krabbameini
  • Iðraólgu – Irritable Bowel Syndrome (IBS)

Það sem getur stuðlað að sem heilbrigðastri þarmaflóru er:

  • Trefjaneysla s.s. ávextir, grænmeti, heikorn, baunir, hnetur og fræ
  • Miðjarðarhafsfæði
  • Hófleg áfengisneysla s.s. rauðvín
  • Súrkál, sýrðar mjólkurafurðir og súrdeigsbrauð

Það eru miklar rannsóknir í gangi á virkni þarmaflórunnar og einstakra gerla innan hennar. Það er farið að vinna með að nota þarmaflóruna í læknisfræðilegum tilgangi og talað um „bugs as drugs“ eða búa til lyf úr virkum gerlum þarmaflórunnar.

Offita og átraskanir eru nátengd fíknisjúkdómum

Offita, átraskanir og fíknisjúkdómar eiga þetta sameiginlegt:

  • Áfallasaga
  • Fjölskyldusaga um offitu, átröskun eða fíknisjúkdóm
  • Oft mikill kvíði og þunglyndi
  • Mikil hvatvísi
  • Aðrir fylgikvillar s.s. meltingarfærasjúkdómar
  • Óheilbrigður lífsstíll
  • Slæmar fyrirmyndir
  • Hafa góð not af hugrænum sálfræðimeðferðum

Enginn morgunmatur – Hefur mjög slæm áhrif á börnin okkar og unglinga

Því miður er orðið of algengt í okkar samfélagi að sleppa morgunmat og er það skilgreint sem að borða ekki mat milli kl.6 – 9/10.
Börnin okkar og unglingar eru hluti af þessu samfélagi og rannsóknir hafa sýnt að 10-30% barna og unglinga borða aldrei morgunmat.

Rannsókn á tæplega 300.000 börnum og unglingum sýndi það að þeir einstaklingar sem ekki neyttu morgunmatar voru með:

  • Hærra hlutfall ofþyngdar og offitu
  • Verri blóðfitusamsetningu
  • Aukinn blóðþrýsting
  • Skerta virkni insúlíns (forstig sykursýki)

Það að sleppa morgunmat hefur mun verri áhrif á börn og unglinga heilsufarslega en fullorðna. Einnig er mjög mikilvægt upp á almenna heilsu að fjölskyldan setjist niður að kvöldi og neyti næringarríkrar máltíðar.

Við lok ráðstefnunnar var gefin út yfirlýsing að næringarþjónustu (nutrional care) séu mannréttindi hvers og eins lifandi mannsbarns. Þar undir falli réttur til NÆGUR MATUR, NÆRINGARÞJÓNUSTA og góðrar HEILSU.

Yfirlýsing ráðstefnunnar

Niðurstaða

Þessi ráðstefna var engin Nóbelsverðlaunaráðstefna þar sem hvert erindi var einhver nýr sannleikur en það kom margt fróðlegt fram og svona ráðstefnur eru  mikilvægar í endurmenntun minni sem næringarfræðingur.

Inni á heimasíðu ESPEN eru leiðbeiningar með margt er snýr að klínískri næringarfræði s.s. með vannæringu aldraðra, næring lungnasjúklinga, leiðbeiningar með magn orkuefna, næringarefna og margt fleira. Hægt er að skoða þessar leiðbeiningar hér.

Heimildir:
https://espencongress.com/
https://www.espen.org/
https://www.espen.org/guidelines-home
https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Fraedsla/Byltur-og-byltuvarnir/Radleggingar_um_mataraedi_hrumt_eda_veikt_eldra_folk.pdf

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi