Munurinn á almennum lækningum og náttúrulækningum.


Náttúrulækningastefnan, eins og hinir lærðustu læknar hafa skýrt hana og skilgreint, t.d. dr. John Harvey Kellogg í Ameríku, dr. Birchner-Benner í Sviss og prófessor Alfred Brauchle í Þýzkalandi, er frábrugðin hinni almennu háskólalæknisfræði í allþýðingarmiklum grundvallaratriðum, er snerta líf og heilsu manna og lækningu á sjúkdómum.
Mikill hluti starfs flestra lækna fer til þess að gera við sjúkdómseinkenni, án þess að skeytt sé um orsakir þeirra, sem eru annaðhvort taldar óþekktar eða eru ekki viðurkenndar.

Náttúrulæknarnir skýra heilbrigði og sjúkdóma út frá þeim grundvelli, að allt líf á jörðu hér er háð ákveðnu náttúrulögmáli og heilbrigði og þroski séu bundin við hlýðni og hollustu við þetta lögmál. Náttúrulæknirinn segir sem svo:

1. Flestir sjúkdómar eru afleiðingar af ónáttúrlegum lifnaðarháttum, t.d. óeðlilegu mataræði, neyzlu eiturlyfja eða nautnavara, óheppilegum vinnuskilyrðum, slæmu andrúmslofti, lítilli hreyfingu og útivist o.s.frv.

2. Eina leiðin til að útrýma þessum sömu sjúkdómum er að ráða bót á orsökunum, þ.e. færa lifnaðarhættina í náttúrlegt horf, eftir því sem við verður komið. Ef þetta væri gert, mundu sjúkdómarnir hverfa af sjálfu sér.

3. Bezti læknirinn er náttúran sjálf, þ.e. lækningamáttur hins rétt nærða líkama. Áhrifaríkasta aðferðin við lækningu sjúkdóms er því fólgin í þessu þrennu:
a) Að taka fyrir orsakir sjúkdómsins — eða sjúkdómanna, sem oftastnær fara margir saman, — með því að breyta mataræði sjúklingsins og öðrum lífsvenjum á viðeigandi hátt.
b) Að bægja frá honum öllum óhollum áhrifum eða efnum, þar á meðal flestum lyfjum, sem yfirleitt eru annaðhvort óþörf eða skaðleg og sum beinlínis hættuleg, sérstaklega ef þeim er ekki beitt af ýtrustu nákvæmni og kunnáttu.
c) Að aðstoða lækningamátt líkamans með ýmsum ráðum: heitum og köldum böðum eða bökstrum, sólböðum, loftböðum, föstum, líkamsæfingum o.s.frv., eftir því sem við á í hvert sinn.
En ráð þessi miða ýmist að því að hjálpa hreinsunartækjum líkamans og örva þau og flýta þannig fyrir tæmingu skaðlegra efna, sem oft hafa safnazt mjög fyrir innan líkamans, eða að því að herða hann og auka þannig viðnáms- og varnarþrótt hans gegn sýkingaröflunum, og loks að því að hvíla hann og verja gegn skaðlegum ytri áhrifum, til þess að hann geti gefið sig óskiptur að lækningastarfinu.

Náttúrulæknar hafa verið uppi á öllum öldum. Og náttúrulækningastefnan er jafngömul læknisfræðinni sjálfri, því að „faðir læknisfræðinnar“, Grikkinn Hippókrates, var náttúrulæknir (400 árum f.Kr.). Náttúran sjálf og glögg eftirtekt viturra manna voru hinir fyrstu kennarar í læknisfræði, ekki sízt Hippókratesar. Annars var allri læknisfræði lengi vel mjög ábótavant og er enn. Og einmitt það, hve hinni almennu háskólalæknisfræði miðar seint að lækna sjúkdóma og útrýma þeim, hefir gefið náttúrulækningastefnunni byr undir báða vængi.
Hinsvegar hefir árangur af starfi náttúrulækna orðið minni en ella fyrir þá sök m.a., að venjulega leita sjúklingar ekki til þeirra, fyrr en eftir að hafa gefið upp alla von um bata með hinum venjulegu lækningaaðferðum, en þá er það oft um seinan. Auk þess hafa margir ranglega kallað sig eða verið kallaðir náttúrulæknar. Og auðvitað hefir læknastéttin, sem jafnan hefir haft horn í síðu þeirra, gripið fegins hendi hvert tækifæri til árása á náttúrulæknana og til að koma óorði á þá, kallað þá skottulækna o.s.frv. En þeir gleyma því, að á öllum öldum hafa innan læknastéttarinnar sjálfrar verið uppi fúskarar og talsverður hluti af nútíma lyfjalækningum er ekkert annað en hreinar skottulækningar, eins og vikið verður að hér á eftir.

Á síðari áratugum hefir náttúrulækningastefnan átt vaxandi fylgi að fagna meðal almennings og lækna. Margir þekktir læknar hafa tekið hana upp á arma sína og komið henni á öruggan vísindalegan grundvöll sem er byggður á því lögmáli, sem ræður lífi og heilbrigði og styðst í senn við sögulegar staðreyndir, athuganir og reynslu úr lífi einstaklinga, heilla þjóða og ýmissa dýra, og loks við vísindalegar tilraunir og rannsóknir. Hin almenna læknisfræði og læknastéttin í heild er smátt og smátt að þokast í sömu átt, með því að viðurkenna í meginatriðum kenningar náttúrulækningastefnunnar og taka upp ýmsar aðferðir náttúrulækna. Má sem dæmi nefna það, að margir þekktir læknar, erlendis og hér á landi, hafa í seinni tíð gagnrýnt mjög notkun hins hvíta hveitis og mælt með heilhveiti í staðinn. Og í nýútkomnum bókum, sem ætlaðar eru læknum og læknaefnum, staðfesta viðurkenndir læknar og fræðimenn gamlar og nýjar kenningar náttúrulækna um gildi fæðunnar og einstakra matvæla fyrir heilsuna og sambandið milli lifnaðarhátta og sjúkdóma.
Ef sjúklingur kemur til læknis og spyr: Af hverju stafar gigt, eksem, tannáta, botnlangabólga, magasár, krabbamein o.s.frv., þá er svarið venjulega, ef læknirinn er hreinskilinn: Það vitum við ekki. Sjúkdómafræðin telur um 20 þúsundir sjúkdómaheita. Og samt er það altítt, að læknar geta ekki, þrátt fyrir nákvæmar rannsóknir á sjúklingnum, gefið sjúkdómi hans neitt nafn. Og oft finna þeir ekkert athugavert við líffæri og líkamlegt ástand sjúklingsins, jafnvel þótt hann sé sárþjáður. Það er því ástæða til að spyrja: Eru miklar líkur til þess, að læknirinn geti ráðið niðurlögum sjúkdómsins, þegar hann veit ekki, af hverju hann stafar og þekkir jafnvel ekki nafn hans? Er hægt að tala um „vísindi“ og „vísindalegar“ lækningaaðferðir, þegar sjálfa undirstöðuna vantar, þegar orsakirnar eru óþekktar? Er ekki við því að búast, að baráttan við sjúkdóma, eða öllu heldur við sjúkdómseinkenni, án þekkingar á orsökum þeirra og innbyrðis sambandi, verði óákveðið fálm og árangurinn undir tilviljun kominn?

En einmitt þetta hefir skapað jarðveg fyrir náttúrulækningastefnuna. Aðferðir náttúrulækna á hinn bóginn eru raunhæfar og vísindalegar. Þær byggjast á þeim grundvelli, sem lýst er í upphafi þessa máls, á lögmáli orsaka og afleiðinga. Venjulegir læknar spyrja sjúklinginn sjaldnast um mataræði hans og lífsvenjur, og virðast líta svo á, að þetta komi sjúkdóminum alls ekki við nema í vissum sjúkdómum, svo sem skyrbjúgi og öðrum „fjörefnasjúkdómum“. Náttúrulæknirinn yfirheyrir sjúklinginn hinsvegar rækilega um allt líferni hans í fortíð og nútíð og reynir þannig að finna, hvar skórinn kreppir. Á þeirri yfirheyrslu, svo og ítarlegri rannsókn á sjúklingnum sjálfum, byggir hann svo lækningaaðferðina. Það er því á miklum misskilningi byggt, þegar því er haldið fram, að aðferðir náttúrulækna séu óvísindalegar. Að sumu leyti byggist þessi misskilningur á því, sem getið var hér á undan, að ekki eru allt náttúrulæknar, sem kalla sig eða eru kallaðir því nafni; meðal þeirra eru margir „fúskarar“, eins og meðal læknanna sjálfra.
Og á hinn bóginn stafar þessi misskilningur af því, að náttúrulæknar nota minna af svonefndum „hálærðum“ eða „vísindalegum“ aðferðum og tækjum, svo sem uppskurði, lyf o.s.frv., sem útheimta mikla tækni og mikinn „lærdóm“ og gefa því almenningi þá hugmynd, að þar sé hámark allra læknavísinda, en að hinar einföldu og „náttúrlegu“ aðferðir náttúrulæknanna séu kukl eitt.

En við þessu er það að segja, að það eru heldur ekki allt vísindi, sem gefið er það nafn, og margt kuklið er framið í nafni og undir yfirskini vísindanna, eins og sýnt verður með dæmunum hér á eftir, sem eiga fyrst og fremst að sýna muninn á aðferðum náttúrulækna og almennra lækna.

1. Tregar hægðir eru sjúkdómur, sem jafnan er lítill gaumur gefinn af læknum sem leikmönnum. Þessi sjúkdómur er samt einn hinn allra algengasti meðal menningarþjóðanna, og sumir læknar hafa nefnt hann „sjúkdóm sjúkdómanna“ vegna hinna margvíslegu afleiðinga og sjúkdóma, sem af honum hljótast.
Meginorsakir sjúkdómsins eru í flestum tilfellum skortur lifandi og náttúrlegrar fæðu, skortur grófefna, fjörefna og málmsalta í viðurværinu. Vöðvar og veggir þarma og ristils verða slappir af næringarskorti og aðgerðaleysi í senn, samdráttarhæfileikar þeirra dvína, svo að þeir megna ekki að tæma ristilinn á eðlilegan hátt. Hin venjulega lækningaaðferð er fólgin í því, að gefa sjúklingnum meðul, sem hafa það hlutverk að fylla út í þarmana eða erta þá, til þess þeir taki til starfa.
Lyf þessi flytja líkamanum enga næringu, en í flestum þeirra eru skaðleg efni, sem vinna líkamanum tjón, þótt menn geri sér það ekki ljóst. Hvert hægðalyf verður venjulega áhrifalaust eftir nokkurn tíma, og þá er gefið annað sterkara og svo koll af kolli. Þessi aðferð tekur ekkert tillit til frumorsakanna. Læknirinn sér aðeins slappa og aðgerðalausa þarma. Hann spyr sig ekki, hversvegna þeir séu svona komnir, heldur pínir hann þá áfram, líkt og þegar úttaugaður hestur er keyrður sporum. Þetta hlýtur að teljast í hæsta máta óvísindaleg aðferð. Hún læknar ekki sjúkdóminn, hún gerir hann ólæknandi.
Náttúrulæknirinn skrifar enga lyfseðla á latínu. Hann segir við sjúklinginn, eftir að hafa gengið úr skugga um, að hann gangi ekki með sár, bólgur eða aðrar meinsemdir í meltingarfærunum eða aðra sjúkdóma, sem geri það að verkum, að hann þoli ekki allan algengan mat: Þú átt að borða grænmeti, helzt ósoðið, ávexti, gróft brauð, heilhveiti í stað hins hvíta hveitis, hveitihýði (klíð), krúska auk annarra algengra fæðutegunda. Þá færðu nóg af fjörefnum, málmsöltum og grófefnum, og þarmarnir taka sjálfkrafa til starfa á nýjan leik. Ef til vill þarf að nota stólpípur um hríð til þess að tæma ristilinn, þangað til meltingin kemst í fullkomið lag. Þessi aðferð er rökrétt og því hávísindaleg, hversu óbrotin sem hún kann að virðast. Og vitað er, að sumir íslenzkir læknar eru farnir að beita henni að einhverju leyti.

2. Blóðleysi er annar algengur sjúkdómur. Hann er talinn stafa oftast af skorti á járni, og hin venjulega lækningaaðferð er að gefa sjúklingnum meðul, sem innihalda járn. Þessi meðul lækna sjúkdóminn sjaldnast eða aldrei að fullu, og það m.a. af þeirri einföldu ástæðu, að hann stafar af skorti fleiri efna en járns.
Viðurværi manna er aldrei svo háttað, að í það vanti aðeins eitt næringarefni, aðeins eitt fjörefni, eitt steinefni o.s.frv. Þegar járn vantar í fæðið, má ganga út frá því sem gefnu, að í það vanti einnig önnur efni, svo sem C-fjörefni og fleiri fjörefni, og einnig fleiri málmsölt en járnið eitt. Skortur þessara efna á sinn þátt í blóðleysinu, og auk þess stafar það stundum af skorti á hreyfingu og útivist, svo og rotnun í kyrrstæðum þörmum. Járnmeðul taka því aðeins tillit til eins þáttarins í orsök sjúkdómsins, og er þetta því mjög óvísindaleg aðferð. Hin rökrétta, náttúrlega og vísindalega aðferð er fólgin í því, að borða óspillt matvæli, sem innihalda gnægðir járns og fjörefna, svo sem spínat, salat, grænkál og fleira grænmeti, nýtt og ósoðið, appelsínur og fleiri nýja ávexti, rúsínur og ýmsa aðra þurrkaða ávexti, gróft brauð o.s.frv., auk mikillar hreyfingar og útivistar í sólskini og góðu lofti.

3. Eksem virðist alltaf vera að breiðast meira og meira út. Læknar líta á það sem húðsjúkdóm. Í raun réttri er það oftast blóðsjúkdómur. Blóðið er hlaðið eiturefnum, óhreinindum og úrgangsefnum. Sum eru komin inn í líkamann utan frá, svo sem eiturefni í kaffi, tóbaki og öðrum nautnalyfjum, salt, og margskonar skaðlegt krydd í mat, allskonar lyf o.s.frv. Í öðru lagi komast eiturefni inn í blóðið úr þörmunum, einkum þegar hægðir eru tregar. Og í þriðja lagi tekur blóðið við ýmsum úrgangs- og eiturefnum, sem myndast við eðlileg efnaskipti líkamans. Öll þessi efni eiga að komast út úr líkamanum gegnum hreinsunartæki hans: þarma, nýru, lungu og húð. En þegar blóðið ofhleðst þessum efnum vegna rangra lifnaðarhátta og hreinsunartækin eru auk þess ekki starfi sínu vaxin sakir skorts á réttri næringu, þá tekur líkaminn stundum til þess ráðs, að reyna að reka þau með valdi gegnum húðina. Þannig verður eksemið til.
Náttúrulæknirinn örvar þessa hreinsunarstarfsemi húðarinnar og annarra líffæra með heitum böðum, hreyfingu o.s.frv., og tekur um leið fyrir óeðlilega eiturmyndun innan líkamans með viðeigandi mataræði og lifnaðarháttum. Sérfræðingurinn í húðsjúkdómum fer að á annan veg. Hann tefur fyrir hreinsunarstarfsemi húðarinnar með því að maka hana smyrslum. Hann reynir að loka hin eitruðu efni inni í líkamanum. Honum fer líkt og bónda, sem ætlar að þurrka upp votlendi með því að bera mold og möl í fen og uppsprettur. En jarðvatnið leitar bara upp annarsstaðar, ef það kemst ekki aftur upp á sama stað. Og eins brýzt eksemið oft út aftur á nýjan leik á sama stað og áður eða annarsstaðar á líkamanum, ef lækninum á annað borð heppnast að eyða því, sem venjulega þýðir það, að eiturefnin hafa verið hrakin aftur inn í blóðið. Og þar fá þau að leika lausum hala, berast út um allan líkamann og vinna hverri einustu frumu hans tjón með því að veikla þær og brjóta smátt og smátt niður viðnámsþrótt þeirra gegn bakteríum og öðrum sýkingaröflum.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Heilsuverndar árið 1946.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi