Merkilegar manneldistilraunir

Þessi grein eftir Jónas Kristjánsson lækni, birtist í ritinu Heilsuvernd fyrir 69 árum og á svo ótrúlega vel við núna á tímum allsnægta í mat og afþreyingu. 
Hér er m.a. talað um mikilvægi grænmetis- og kornneyslu fyrir heilbrigði manna og móður jarðar. Þarna kemur líka fram að Danir komu betur út úr „spænsku veikinni“ fyrir 100 árum en margar aðrar þjóðir því þeir minnkaðu neyslu áfengis, kjöts og tóbaks en juku neyslu grænmetis og kornvara.

Njótið vel þessa lesturs og reynið að tileinka ykkur þennan gamla en góð sannleik í heilbrigðum lífsstíl.

—————————————————

Það sem sérkennir danska lækninn og manneldisfræðinginn Mikkel Hindhede, og starf hans allt, er gerhygli hans, er kemur m.a. fram í því, að honum er sýnt um að eyða ekki meiru en því, sem vel má komast af með. Sem sjúkrahúslæknir notaði hann lítið af lyfjum, enda taldi hann þau flest gagnslítil. Sjálfur var hann sparneytinn og m.a. frábitinn áfengi og tóbaki. Æviatriðum hans var lýst stuttlega í síðasta hefti (4. hefti 1950), og verður nú greint nánar frá nokkrum rannsóknum hans, sem hann ávann sér heimsfrægð fyrir.

Hindhede var svo lánssamur, er hann hafði fengið til umráða hina langþreyðu rannsóknarstofu, að honum buðust aðstoðarmenn hver öðrum betri. Kunnastur þeirra var Frederik Madsen. Hindhede gerði sig ekki ánægðan með næringartilraunir á kanínum og rottum. Hann vildi gera tilraunir á mönnum, og Madsen varð einskonar tilrauna-„kanína“, alltaf reiðubúinn til að prófa mismunandi fæðutegundir. Hindhede gerði þessar tilraunir oft einnig á sjálfum sér og öðrum, er buðu sig fram sem sjálfboðaliðar.

Kartöflutilraunir

Ein af fyrstu rannsóknum Hindhedes í rannsóknarstofu sinni voru tilraunir með kartöflufæði. Fr. Madsen nærðist í heilt ár á kartöflum og smjörlíki eingöngu, auk vatns. Mikið af þessum tíma stundaði hann erfiðisvinnu. Annar ungur maður lifði á samskonar fæði í eitt ár með ágætum árangri. Margir læknar skoðuðu þá að tilrauninni lokinni og fundu engin sjúkleg einkenni. Meðan á tilrauninni stóð, höfðu verið gerðar á þeim margvíslegar rannsóknir til þess að fylgjast með efnaskiptum og öðrum lífsstörfum. Þess skal getið, að Madsen var vandlátur með kartöflur.

Einhliða kjötneyzla

Eins og sagt er frá í síðasta hefti, hafði Hindhede alizt upp á mjólkur- og jurtafæðu en við lítið kjötmeti. Nú gerði hann tilraunir á sér og tilraunamönnum sínum með einhliða kjötneyzlu. Eftir eina 2-3 daga urðu þeir veikir, fengu velgju eða uppsölu og illa lyktandi hægðir. Gáfust þeir upp við svo búið.

Tilraunir með hvítt hveiti

Þá gerðu þeir tilraun með að lifa eingöngu á hvítu hveiti. Eftir fáa daga tók að bera á magnleysi, svima og ógleði, og á 10.-12. degi gáfust þeir upp.

Svipaðar tilraunir gerðu aðrir manneldisfræðingar síðar. T.d. lét prófessor Gänslen nokkra stúdenta borða kjöt og franskbrauð eingöngu ásamt vatni í 10 daga. Þeir urðu allir veikir. Rannsókn sýndi, að æðarnar höfðu tekið sjúklegum breytingum. Það tók heilan mánuð að lækna þetta.

Gróft hýðismjöl

Ein tilraunin var fólgin í því að borða eingöngu brauð og grauta úr grófu mjöli, ásamt smjörlíki og vatni. Sú tilraun stóð í marga mánuði, og með hinum bezta árangri.

Tvær stefnur

Því hafði verið haldið fram, aðallega af þýzkum manneldisfræðingum, að eggjahvíta úr dýraríkinu, m.a. úr kjöti og fiski, væri nauðsynleg til viðhalds heilsu og þrótti. Hinsvegar hélt Hindhede og aðrir því fram, að þetta væri rangt, mikil eggjahvítuneyzla væri beinlínis skaðleg, og heilsunni væri bezt borgið, ef menn lifðu aðallega á jurtafæðu, auk mjólkur.

Á þessu máli er og önnur hlið, sem Hindhede benti á. Ef menn lifa aðallega á dýrafæðu, þurfa þeir margfalt meira landrými en ef viðurværið er aðallega úr jurtaríkinu. Ef hægt væri að nærast á kartöflum einvörðungu, gæti einn hektari lands fætt 39 menn. Á sama hátt gæti eins ha. rúgakur fætt 9,4 menn. En sé rúgurinn notaður sem svínafóður, og svínakjötið notað til matar, fæst næring aðeins handa tveimur mönnum, og handa aðeins einum, ef um nautakjöt er að ræða, miðað við það, að maðurinn gæti lifað á kjötinu einu. Þannig glatast um eða yfir 80% af næringargildi kornsins við það að ganga gegnum svín eða nautgripi, en ennþá hærri hundraðshluti, ef kartöflur eru notaðar sem fóður.

Á þetta benti Hindhede Þjóðverjum í ítarlegri ritgerð, sem hann skrifaði í þýzkt læknarit árið 1916. Með því að nota kartöflurnar og kornið, sem þeir ræktuðu, til manneldis að mestu, í stað þess að fóðra með því svín og uxa, hefðu þeir haft nægar matarbirgðir öll stríðsárin og betra fæði en með hinni miklu eggjahvítuneyzlu. En þýzkir manneldisfræðingar þóttust vita betur en Hindhede, og því var ekki farið að bendingum hans. Um þetta farast Hindhede orð á þessa leið: „Þýzkalandi er það ljóst, að það berst við þrjú stórveldi. Hitt er þeim ekki ljóst, að þeir eiga í höggi við fjórða óvininn, sem sennilega er hættulegastur þeirra allra. En það er þýzka svínið„. Og í rauninni var það þýzka svínið, en ekki vopnin, sem réðu niðurlögum Þýzkalands. Það var hungrið, sem reið þeim að fullu.

Næringartilraunin mikla

Í ársbyrjun 1917 tóku Englendingar fyrir allan útflutning kornmatar til Danmerkur. Þar við bættist, að kornuppskeran brást í landinu, svo að Danir höfðu ekki nema um þriðjung þess korns, sem þeir þurftu. Var því fyrirsjáanleg hungursneyð, líkt og í Þýzkalandi í stríðslokin. En þá bar danska ríkisstjórnin gæfu til að leita aðstoðar Hindhedes og hlíta ráðum hans.

Í Danmörku var mikið af kartöflum, rúgi og byggi notað sem gripafóður, ennfremur til bruggunar á öli. Tillögur Hindhedes voru í stuttu máli þær, að hætt yrði að brugga öl og brennivín, að 4/5 hlutum allra svína í landinu væri slátrað og 1/3 hluta kúastofnsins. Var kjötið selt háu verði til Þýzkalands og Englands. Tekin var upp skömmtun á kjöti, smjöri, mjólk og brauði, en bygg var óskammtað og kartöflur. Kjötskammturinn var aðeins 46 gr. á dag.
Hindhede bjó til uppskrift af brauði, sem varð frægt undir nafninu Hindhedebrauð. Var það úr grófmöluðu korni að viðbættu hveitihýði. Á þennan hátt höfðu Danir gnægðir matar árin 1917-18. En fæðið var gjörbreytt frá því, sem áður var: Lítið kjöt og minni mjólk en áður, lítil sykurneyzla. Aðalmaturinn grænmeti, kartöflur og mjölmatur. Öl og brennivín að mestu horfið, einnig kaffi og te, því að Englendingar bönnuðu einnig útflutning á því til Danmerkur. Á þessu viðurværi lifði danska þjóðin meira en árlangt, og má því segja, að þetta sé mesta manneldistilraun, sem um getur í sögunni.

Áhrifin á heilsufarið

Hindhede lýsir ítarlega áhrifum þessarar miklu mataræðisbreytingar á heilsufar þjóðarinnar, og rúmsins vegna verður hér aðeins drepið á helztu niðurstöðurnar.

Frá 1. okt. 1917 til jafnlengdar næsta árs urðu dauðsföll 17% færri en þau höfðu fæst orðið og dánartalan lægri en þekkzt hafði meðal nokkurrar vestrænnar þjóðar. Dauðsföllum fækkaði sem sé um 6300 þetta eina ár. Síðustu 3 mánuði ársins 1918 geisaði inflúenzan í Danmörku, en eigi að síður var dánartalan fyrir allt árið 1918 2% lægri en fyrir stríð, en hækkaði í öðrum Evrópulöndum – stríðslöndin ekki meðtalin — um 23 til 46%. Þetta var stórkostlegur árangur á ekki lengri tíma og ljós sönnun þess, hve miklu er hægt að fá áorkað á heilsuna með því að breyta mataræðinu.

Þá gerði Hindhede samanburð á dauðsföllum úr sjúkdómum öðrum en farsóttum og berklum á aldrinum 25 til 60 ára. Þar lækkaði dánartalan um 29% hjá körlum en um 11% hjá konum. Hjá báðum hækkaði dánartalan svo á ný næstu árin eftir stríð, er mataræðið færðist í hið fyrra horf. Ástæðuna til þess, að dánartalan hjá körlum lækkaði meira en hjá konum, telur Hindhede minnkun öl- og brennivínsneyzlu, sem var miklu meiri meðal karla en kvenna, áður en bruggbannið komst á. Sérstaklega er það eftirtektarvert, að dauðsföllum úr beinum afleiðingum ölæðis (delerium tremens o.s.frv.), af slysum, sjálfsmorðum, úr lungnabólgu og nýrnabólgu fækkaði um helming meðal karla en lítið sem ekkert meðal kvenna. Í því sambandi lætur Hindhede þess getið, að lungnabólgusjúklingar, sem neytt hafi áfengis að staðaldri, þótt í hófi sé, hafi miklu minni líkur til bata en bindindismaðurinn.

Þá vekur Hindhede sérstaka athygli á því, að sjúkdómar í heila, hjarta og nýrum hafi aukizt jafnt og þétt meðal kvenna frá 1890 til 1916, en árið 1918 eru dauðsföll úr þessum þremur sjúkdómaflokkum meðal kvenna um 50% færri en árin 1915-16. Þetta telur Hindhede ekki geta stafað af breytingum á áfengisneyzlu, nema þá að mjög litlu leyti, heldur þakkar hann þetta sjálfri mataræðisbreytingunni, enda hækkar dánartalan úr þessum sjúkdómum verulega þegar á næsta ári, 1919.

Hér verður þessi merkilega saga ekki rakin lengra. En víst er það, að Hindhede varð bjargvættur þjóðar sinnar á þessum síðustu árum heimsstyrjaldarinnar fyrri en hlaut litlar þakkir fyrir. Og sorglegt er það, að úr hópi lækna var steinum að honum kastað, og þeir virðast ekkert hafa lært af þessari víðtækustu næringartilraun, er nokkru sinni hefir verið gerð, og þó var árangur hennar deginum ljósari.

Hindhede varð heimsfrægur sem vísindamaður, og verður oft til hans vitnað. Þó má segja, að hann hefði mátt taka harðari tökum á versta óvini vestrænna þjóða, hvíta sykrinum. En það var fyrst á síðari árum, sérstaklega eftir kynni hans af Are Waerland og kenningum hans, að honum varð til fulls ljós hættan af sykurneyzlunni. Hann dáðist mjög að Waerland, svo og að frú Kirstine Nolfi, og var vinur beggja.

Krabbameinið er algengara hjá Dönum en flestum öðrum þjóðum. Líklegt er, að Íslendingar komizt upp fyrir þá, ef haldið verður áfram á sömu braut hvað snertir sælgætisát barna og fullorðinna, tóbaks- og kaffineyzlu, lyfjaát, neyzlu óhollrar gervifæðu, ofát kjöts og annarra kræsinga.

Krabbameinið verður aldrei læknað, svo að öruggt sé. Eina leiðin er að hætta að rækta það, eins og við gerum með okkar vitlausu lifnaðarháttum, að koma í veg fyrir það með breyttu og bættu mataræði og skynsamlegu líferni.

Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1951.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi