Megrunaraðgerðir


Í grein um offitu í síðasta hefti var frá því skýrt, að algengasta orsök offitu væri ofát, venjulega samfara lítilli hreyfingu eða líkamlegri áreynslu. Stundum verður þetta með þeim hætti, að fólk fer að stunda kyrrsetustörf, hafði áður unnið erfiðisvinnu, borðað eins og lystin bauð og haldið eðlilegum holdum.
Þegar vinnan svo verður hægari, dregur ekki úr matarlyst og ílöngun í ljúffenga rétti, og ef til vill eru þá einnig á boðstólum fleiri aukamáltíðir en áður með gómsætu brauði, kökum eða sælgæti. Afleiðingin verður sú, að hitaeiningum í daglegu fæði fækkar ekki, eins og vera ætti, þeim fjölgar jafnvel, og þær safnast fyrir sem fita, innvortis og útvortis.
Þá er altítt, að konur taki að fitna, þegar þær fara að eignast börn. Vafalaust á það sér svipaðar orsakir: Konan þarf meira að borða um meðgöngutímann en áður, svo og meðan hún hefir barn sitt á brjósti, en þegar brjóstgjöf fellur niður, dregur ekki úr matarlyst eða ílöngun í mat, og konan borðar meira en hún þarf, enda þótt hún geri sér ekki grein fyrir því. Þar við bætist, að þegar barn er komið á heimilið, þarf konan að vera meira inni en áður, og heimilisstörfum fylgir nú orðið ekki mikil hreyfing eða líkamlegt erfiði.
Vera má, að hjá sumum konum verði einhverjar breytingar á efnaskiptum í sambandi við barneignir, og að þær breytingar stuðli að fitusöfnun.
Slíkar breytingar kunna að liggja til grundvallar fitusöfnun hjá eldra fólki, enda þótt minnkuð hreyfing sé þar vafalaust aðalorsök.

Eins og getið var í síðasta hefti, geta truflanir á starfi sumra svonefndra innkirtla líkamans valdi óeðlilegri fitusöfnun. Er þar aðallega um að ræða heiladingul, skjaldkirtil og nýrnahettur, en þessir kirtlar gefa frá sér fjölda hormóna, sem berast með blóðinu út um allan líkamann og hafa margvísleg áhrif á efnabreytingar innan líkamans og ýmis lífsstörf.
Þessi efni eru aðeins að nokkru leyti þekkt, og sama er að segja um verkanir þeirra. Og líklegt má telja, að einhverntíma finnist eðlileg skýring á því, að sumt fólk virðist safna fitu, þótt það borði mjög lítið, eða því gangi illa að megra sig, þótt það lifi á ströngu megrunarfæði.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir helztu megrunaraðferðum, sem allar eru miðaðar við fólk án ofangreindra efnaskipta- eða hormónatruflana, en slíkir sjúklingar þarfnast að sjálfsögðu sérstakrar læknismeðferðar.
Fjórum fyrsttöldu aðferðunum er það sameiginlegt, að þær geta í mesta lagi skoðazt sem inngangur að tveimur hinum síðasttöldu.
Og hver þessara leiða, sem valin kann að verða, hlýtur að leggja hömlur á daglega lífshætti fólks, útheimta breytingu á lífsvenjum, sjálfsafneitun og viljaþrek.
En því miður eru þessir hæfileikar ekki allra eign, og því verður mörgum fótaskortur á leið sinni til megrunar.

1. Megrunarlyf.
Til eru ýmis megrunarlyf, svo sem amphetamin, preludin, dobesin o.fl., til þess ætluð að draga úr matarlyst. Eins og kunnugt er, þá er lystarleysi algengt einkenni í fjölmörgum sjúkdómum og oft eitt fyrsta merki um, að eitthvað sé að líkamanum. Það getur því varla talizt ráðlegt að framkalla slíkt ástand til lengdar, enda er vitað, að þessi lyf eru varhugaverð, sum beinlínis skaðleg og auk þess vanamyndandi, þannig að fólk verður þeim háð. Þau ætti því ekki að nota, nema í hæsta lagi í stuttan tíma að læknisráði, ef sérstaklega stendur á. Að öðru leyti eru þau fordæmanleg.

2. Megrunarnudd.

Haft er eftir læknum, bæði í alvöru og gamni, að nudd sé bezt fyrir nuddarann. Um svokallað megrunarnudd er þetta tvímælalaust rétt. Spik verður ekki nuddað af fólki. Jafnvel þótt hægt sé að auka blóðrás eitthvað til hinna nudduðu líkamshluta, situr fitan eftir sem áður kyrr á sínum stað. Þótt svo væri “; sem raunar er útilokað “;, að nudd ræki fituna út í blóðið, mundi hún ekki komast þaðan á brott úr líkamanum, því að með hana mundi líkaminn fara á sama hátt og aðra fitu, sem daglega berst úr meltingarfærum inn í æðarnar, að það af henni, sem líkamsfrumurnar þurfa ekki að nota sér til viðhalds eða til daglegra starfa, sezt að í ýmsum líkamshlutum sem næringarforði og eldsneytisbirgðir, sem líkaminn grípur svo til, þegar á þarf að halda. Fitunni er þess vegna aðeins hægt að eyða með auknu starfi eða minnkaðri fæðutekju. Ástæðan til þess, að megrunarnudd virðist bera árangur, er einfaldlega sú, að jafnframt því að fara í nuddið gerir fólk ýmsar aðrar ráðstafanir, annaðhvort ótilkvatt eða að ráðum nuddarans, til þess að megrast, hreyfir sig meira og borðar minna.

3. Megrunarduft eða kex.
Á undanförnum árum hafa verið á boðstólum ýmsar tegundir af megrunardufti eða megrunarkexi, sem inniheldur fáar hitaeiningar en engin sérstök megrunarlyf.
Hér er sem sagt um sérstakt megrunarfæði að ræða, sem hefir þann kost að vera handhægt í notkun og inniheldur sennilega engin skaðleg efni. Á hinn bóginn kemur varla til mála að nota það til lengdar. Það mun vera dýrt í notkun, og auk þess flytur það líkamanum ekki öll nauðsynleg næringarefni.
Í auglýsingum er að vísu sagt, að það innihaldi öll þau næringarefni, sem líkaminn þarfnast. En þó að bætt sé í það ýmsum þekktum fjörefnum eða steinefnum, vantar mikið á, að hægt sé á þann hátt að fullnægja efnaþörf líkamans.

4. Föstur.
Eins og gefur að skilja, getur fasta aldrei orðið annað en byrjun á varanlegum megrunarráðstöfunum.
Föstur í nokkra daga eða vikur hafa löngum verið heilladrjúgt ráð til heilsubótar og lækninga. Þær eru m.a. tilvaldar sem inngangur að lífsvenjubreytingu, t.d. ef menn vilja venja sig af reykingum eða taka upp breytt mataræði í lækninga- eða megrunarskyni.
Sumir ráðleggja að fasta einn dag í viku eða að fella niður eina máltíð daglega. Allt eru þetta spor í rétta átt, en þau koma því aðeins að tilætluðum notum, að áhrifin séu ekki eyðilögð jafnharðan með því að borða of mikið á milli þess sem fastað er.
Í fullkominni föstu, þ.e. þegar einskis er neytt nema vatns, léttast menn oft um eitt kílógramm á dag eða meira fyrstu dagana, en þegar lengra líður, ekki nema um 1-200 grömm á dag eða 1 til 1,5 kg á viku. Fyrstu dagana er ekki um raunverulega megrun að ræða, því að magi og þarmar innihalda fæðumauk, sem getur numið nokkrum kílógrömmum.
Þá skilst oft talsvert vatn út úr líkamanum í föstu, enda er iðulega mikið um vatnsblandað fituskvap í vefjum á feitu fólki og oft áberandi bjúgur.
Þeim sem kynnu að óska nánari upplýsinga um föstur, er bent á greinaflokk um þetta efni í Heilsuvernd 1.-5. hefti 1962.

5. Hreyfing.
Af því sem að framan er sagt, liggur í augum uppi, að með auknu líkamlegu erfiði má ná nokkrum árangri í megrun.
Kyrrsetur eru orðnar allsherjar böl. Af kyrrsetum leiðir ekki einasta offitu, heldur allskonar vesöld og sjúkdóma. Á þessu verður bót ráðin með því einu að ætla sér, helzt daglega, ákveðinn tíma til líkamlegrar hreyfingar.
Það getur verið ganga, sund, garðvinna eða önnur útivinna, leikfimi eða íþróttaiðkanir, allt eftir ástæðum. Innileikfimi er betri en ekkert, en heilsusamlegust er hreyfing undir beru lofti. Sennilega er engin hreyfing hollari en göngur og hlaup. Til slíkra iðkana þarf engin áhöld, og öllum er í lófa lagið að stilla þeim í hóf, hver eftir getu og öðrum aðstæðum.
Alvarlegasti annmarkinn á því, að menn grípi til þessara ráða, er letin. Kyrrsetur gera menn værukæra. Menn fara varla út fyrir húsdyr, nema þeir eigi einhver erindi, og þá oftast í almenningsvögnum eða bílum, jafnvel þótt um stuttar vegalengdir sé að ræða. Í frítímum hlusta menn á útvarp eða horfa á sjónvarp, lesa, sitja í kvikmyndahúsum eða skemmtistöðum. En þetta fólk hefir ekki tíma til að iðka göngur eða sund, jafnvel ekki morgunleikfimi eftir útvarpi.
Gildir allt þetta fyrst og fremst um þá, sem mest þurfa þess við að hreyfa sig, þ.e. feitt fólk. Á hinn bóginn verða menn að gera sér ljóst, að með því einu að hreyfa sig meira, næst naumast verulegur árangur til megrunar, nema fæðutekju sé jafnframt stillt í hóf. Því til skýringar nægir að benda á það, að eins klukkutíma röskur gangur jafngildir því að spara við sig eina brauðsneið með áleggi.
En hvort sem menn þjást af offitu eða ekki, ættu allir að stefna að því að gera hreyfingu undir beru lofti jafnsjálfsagðan þátt í daglegum störfum og það að snyrta sig og borða.

6. Megrunarfæði.
Þar er loksins komið að hinni gullnu leið til megrunar.
Hún er sú, að haga fæðuvali og fæðutekju þannig, að líkaminn þurfi um skeið að brenna eigin vefjum, unz hæfilegri líkamsþyngd er náð, og síðan standist á fæðutekja og orkueyðsla. Með réttu fæðuvali er þetta auðvelt í framkvæmd, án þess um neinn meinlætalifnað sé að ræða eða hættu á efnaskorti.
Og í næsta hefti verður því nánar lýst, hvernig þessu verði bezt hagað. 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 6. tbl. 1966, bls. 152-155

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing