Meðferð HNLFÍ

 

Velgengni í lífinu er langhlaup

Gott kvöld ég heiti Halla Grétarsdóttir og er hjúkrunarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.

Síðastliðin þrjú ár hef ég starfað með þverfaglegu megrunarteymi Heilsustofnunar við að aðstoða einstaklinga sem til okkar leita í megrunarmeðferð.
Í dag er fjöldi fólks sem kemur til okkar í Heilsustofnun til megrunarmeðferðar. Það er um 20-30 manns á mánuði en þeir eru þó ekki allir komnir eingöngu til að megra sig.

Þetta er fólk á öllum aldri en flestir eru 40-60 ára. Þetta er ansi ólíkur hópur en á þó margt sameiginlegt. Eitt af því er að þeir hafa gert ótalmargar tilraunir til að megra sig án varanlegs árangurs.
Við leggjum mikla áherslu á að fólk líti á meðferðina sem aðstoð við að breyta lífstíl sínum, að það sé eina leiðin til þyngdarstjórnunar.
Að fara heilbrigða og skynsama leið. Við leggjum einnig áherslu á einstaklingshæfða meðferð og er meðferðin byggð upp á ráðgjöf, stuðningi, fræðslu, umræðufundum, hollu matarræði, hreyfingu, og slökun.

Markmið meðferðarinnar er að stuðla að varanlegri þyngdarstjórnun með lífstílsbreytingum. Í byrjun er hver og einn metinn og meðferðin tekur svo mið af því. Þær aðferðir sem notaðar eru meðal annars: Líkamsþyngdarstuðull, mittismæling og fitumæling.
Líkamsþyngdarstuðull (BMI = kg/m2) metur þyngd að teknu tilliti til hæðar og er offita skilgreind samkvæmt þessum stuðli:
– Kjörþyngd 18,5-25
– Ofþyngd 25-30
– Offita > 30

Af þeim 14 einstaklingum sem ég ræddi við í síðastliðnum mánuði þá var einn í ofþyngd, 5 í offitu og 7 í yfir 40 en hæsta gildi sem við höfum séð er BMI 52.
Það má því segja að margir af þeim einstaklingum sem koma til okkar í megrunarmeðferð séu að kljást við alvarlegt heilsufarslegt vandamál.

Það er mikilvægt er að mæla mittismálið því rannsóknir hafa staðfest að mittismálið er góður mælikvarði á þyngd, áhættu hennar og afleiðingar. Hætta á offitutengjum sjúkdómum og fylgikvillum eykst í samræmi við kviðfituna. Áhætta eykst verulega ef mittismálið fer yfir 88 cm hjá körlum og yfir 94 cm hjá konum. Það að hafa mittismál yfir þessum gildum er sambærilegt við að hafa BMI yfir 30.

Fitumælingar eru gagnlegar til að skoða fituhlutfall líkamans og árangur meðferðar því það sem skiptir mestu máli er hvort fituhlutfall líkamans minnkar. En æskilegt er að hafa fituhlutfall 12-20% hjá körlum og 20-30 % hjá konum.

Heilsufarslegar afleiðingar offitu
Rannsóknir hafa sýnt fram á að einstaklingur með BMI yfir 31 hefur tvöfalda áhættu á að fá kransæðasjúkdóm. Þrír af hverjum fjórum með fullorðinssykursýki eru of feitir. Hættan á að fá hjarta og æðasjúkdóma margfaldast við fjölgun áhættuþátta. Ef ættarsaga er um þessa sjúkdóma er þeim mun mikilvægara að gæta sín á að halda sér í kjörþyngd. Allir sem eru eldri en 40 ára og með BMI yfir 30 hafa einhver einkenni sem rekja má til offitu. 

Af þeim fjölda sem kemur í Heilsustofnun eru flestir með nokkur einkenni en oft er það hækkun á blóðþrýstingi eða hækkun á kólesteróli sem ýtir alvarlega við þeim og hvetur til að taka á málunum. Rannsóknir hafa sýnt að um 60% kvenna veð BMI um 33 hefur þvagleka. Þreyta er einnig algeng sérstaklega hjá þeim sem hafa neytt mikils sykurs. Um 60% sem koma í verkjahópinn er yfir kjörþyngd og hafa verulegt gagn af því að léttast. Þunglyndi er einnig algengt.

Orsakir
Mikilvægt er að skoða hvar vandinn liggur. Við byrjum að skoða emmin þrjú:
– Maturinn sem viðkomandi borðar er hann fjölbreyttur, og hollur eða einhæfur og óhollur. Unga fólkið sem leitar til okkar er oft að neyta mikils sykurs og gosdrykkja. Eldra fólkið borðar oft einhæft fæði en flest allir eiga það sameiginlegt að borða óreglulega.
– Magnið er borðað of stórir skammtar, rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru með offitu borða hraðar en hinir sem eru það ekki. Þeir sem borða hratt borða líka meira magn. – Máltíðamunstrið, er borðaður morgunmatur, er borðað reglulegar máltíðir eða er verið að nasla allan daginn og þá sérstaklega síðdegis og fram eftir kvöldi. Um 20 % segjast borða á nóttunni.

Hreyfing
Hversu mikið er viðkomandi einstaklingu að hreyfia sig ? Það eru mjög fáir sem stunda einhverja reglubundna hreyfingu. Algengt er að elsta fólkið treysti sér ekki vegna veðurs á veturna en yngra fólkið og þá sérstaklega fólkið undir 25 ára aldri hefur bara vanið sig á að hreyfa sig ekki neitt.

Tengsl matar og líðan
Þegar spurt er borðar þú mat þér til huggunar þegar þér líður illa ert undir álagi, streitu eða leiðist þá svarar stór hluti játandi. Við höfum ekki tekið saman hversu margir það eru nákvæmlega en líklega um helmingur. Yfirleitt er orsaka að leita í nokkrum af þessum þáttum. Megin orsökin er samt alltaf að þeir sem eru of þungir borða meira en þeir brenna.

Hvað er svo til ráða?
Rannsókn sem gerð var á einstaklingum sem höfðu náð að létta sig varanlega sýndi meðal annars að þeir höfðu átt það sameiginlegt að setja sér markmið í upphafi. Hjá okkur eru allir hvattir til að setja sér markmið og þá er hjálplegt þá spyrja í hvaða þyngd liði þér vel ? og þú treystir þér til að vera í ?
Þá nefnir fólk tölu sem getur orðið að markmiði hvað þyngdina varðar. Mikilvægt er að markmið séu raunhæf. Það er betra að setja sér nokkur smá markmið ferkar en að setja sér eitt stórt og hverjum áfanga á leiðinni ber að fagna. Við ráðleggjum að hæfilegt sé að léttast um 0.5 kg á viku. Líkaminn nær ekki að vinna úr meiri fitu á viku. 
Hæfilegt er að léttast um 5-10% líkamsþyngdar á ári, en að verja þyngdartapið á að vera aðaláherslan. Þolinmæði er dyggð!

Sem svar við spurningunni hvað er til ráða er svarsins að leita í :
– Markmiðum
– Skipulagningu
– Framkvæmd
– Emmunum” þremur

Til að ná þyngdarstjórnun verður að taka á öllu þessum þáttum. Allir eru þeir mikilvægir og allir vega þeir þungt.
Mjög einstaklingsbundið er hvar vandinn liggur. Hver og einn verður að taka á sínum hér á undan hef ég nefnt matarræðið og markmið og þá er komið að hreyfingunni.

Hreyfing minnkar fitu,viðheldur og byggir upp vöðva. Eykur brennsluna, minnkar matarlystina, hefur góð áhrif á blóðþrýsting, kólesteról, og blóðsykur svo eitthvað sé nefnt. Hreyfing eykur vellíðan og gefur orku.

Að virkja mátt hugans er mikilvægt því það er satt að hugurinn ber þig hálfa leið. Jákvæðni, það er mjög algengt að þeir sem eru of þungir og hafa verið það lengi eru mjög neikvæðir í eigin garð. Að vera sáttur í dag með að vera byrjaður að vinna í sínum eigin málum. Að fagna og hrósa sjálfum sér fyrir góðan árangur, að vera ánægður með alla litlu hlutina sem ganga vel.

Slökun er öllum gagnleg. Hún er góð streituvörn, en margir sem eru of þungir borða meira eða missa stjórn á þyngdinni þegar þeir eru undir miklu álagi. Slökun kemur okkur í ró og er virkjun hugans.

Stuðningur er sá þáttur sem allir hafa mikla þörf fyrir. Gott er að mynda samband við einhvern sem er tilbúin að veita stuðning, skilning og aðhald. Að það sé einhver til staðar til að sparka í rassinn á okkur og hvetji okkur áfram.

Ávinningurinn er mikill það þarf aðeins fá kíló til að blóðþrýstingurinn, blóðsykurinn, verkir og aðrir fylgikvillar batni nokkuð. Lengra líf og betri lífsgæði er það sem skiptir þó mestu máli, því það skiptir máli að geta tekið þátt í lífinu eins og hugur stendur til.

Lokaorð
Það sem við höfum áhyggjur af er aukin fjöldi einstaklinga sem er í lífshættulegri ofþyngd, sem og að við sjáum stundum einstaklingar sem hafa þyngst um tugi kílóa á nokkrum mánuðum. Það skýrist eflaust af auknu framboði af mjög hitaeiningaríku fæði.
Að lokum langar mig að nefna geðsjúka sem eru oft að kljást við mikla ofþyngd. Að hjálpa þeim til að megrast er oft mjög erfitt og krefst sérhæfðari og langrar meðferðar sem er ekki í boði á Íslandi í dag.

Takk fyrir Halla Grétarsdóttir

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi