Leiðir að umhverfisvænna lífi

Oft er talað um  að við eigum bara einn líkama og eigum því að hugsa vel um hann alla ævi. Enn mikilvægara er að við eigum  bara eina Móður Jörð sem við ættum að hugsa betur um.  Í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow er mikilvægt að vekja athygli á því hvað við sem einstaklingar getum gert til þess að stuðla að umhverfisvernd, því miðað við hvernig við hugsum um jörðina okkar mætti halda að ættum aðra  til vara.
Allar þjóðir heims eru sekar um kolefnislosun  út í andrúmsloftið, menga  höfin, eyða regnskógum og spilla ósnortinni náttúru. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og á það vel við í umhverfisvernd á jörðinni. Umhverfisspjöll  og ofnotkun olíu t.d. í Asíu geta haft áhrif hér á norðurhveli, með bráðnun jökla og breytingu á veðurfari svo dæmi séu tekin.

Margir umhverfisvendarsinnar og samtök eru að vekja athygli á mengun og eyðilegginu jarðarinnar og herja á ríkisstjórnir og stórfyrirtæki helstu iðnríkja heims. Þetta er göfugt og nauðsynlegt starf.  Á jörðinni lifa tæplega 8.000.000.000 ( 8 milljarðar) manna  og hvert lítið skref í átt að meiri umhverfisvernd hjá þessum tæplega 8 milljörðum er stórt skref í átt að betra heilbrigði Móður Jarðar okkar ALLRA. Einhverjir hafa undanfarna daga bent á það að við Íslendingar eigum brotabrot í kolefnislosun og mengun heimsins en við skiptum samt máli í samhenginu, því hvert einasta skref í umhverfisvernd skiptir máli og getum líka sýnt gott formdæmií umhverfisvernd á alþjóðavísu.

Hér fyrir neðan eru ráðleggingar sem hver einasti lifandi maður á þessari jörð getur tileinkað sér til að byrja að leggja sitt af mörkum til umhverfisverndar. Hvert atriði fyrir sig skiptir máli, þó þú fylgir bara einu atriði er það betra en að fylgja ekki neinu.

Flokkum sorp og endurvinnum
Því öflugri sem flokkunin er   þeim mun betra er það fyrir jörðina okkar. Það er gríðarlegt magn sem við hendum á hverjum degi og við getum gert mun betur í endurvinnslu og flokkun á sorpinu okkar. Nýtum hluti vel í stað þess að vera sifellt að henda dóti úr 

Hættum notkun plastpoka og plastumbúða
Það tekur mjög langan tíma fyrir plastpoka að eyðast í náttúrunni og því  ættum við að nota umhverfisvænni  umbúðir s.s. margnota poka eða bréfpoka.

Notum umhverfisvæn farartæki
Sem betur fer er að verða mikil vakning í þessu efni  og sífellt koma fram umhverfisvænni bílar. Mikil þróun er í bílum sem ekki nota bensín/díeselolíu s.s. rafmagnsbílar, metanbílar og vetnisbílar.  Það eru líka komin rafmagnshjól og rafmagnshlaupahjól sem má nota í stað bílsins. Það er um að gera að nýta sér þessa kosti en langbest er auðvitað að nota eigin vélarafl með því að hjóla eða ganga. 

Spörum rafmagn og vatn
Við erum ótrúlega auðug þjóð að hafa svona gott aðgengi að heilnæmu og tæru vatni en við megum líka fara að huga að betri notkun á því.
Vatnsaflsvirkjanir eru aðal orkugjafi okkar Íslendinga og ættum við að huga að því að spara rafmagn og orkunotkun til að hindra frekari byggingu vatnsaflsvirkjana sem oft valda óafturkræfum spjöllum á náttúrunni.

Notum lífræn hreinsiefni
Of mikið er af ýmsum sterkum eiturefnum í hreinsiefnum sem við notum við þrifin heima hjá okkur. Mikið af þessum efnum enda í sjónum og eitrar dýralífið þar. Við þurfum að fara að hugsa í stærra samhengi, hvað vit er í því að íbúðin okkar sé hrein ef við skítum í leiðinni út sjó Móður Jarðar.

Borðum lífrænan mat
Við ættum að leitast við að borða lífrænan mat þegar við höfum tækifæri til þess. Lífrænn matur byggir á þeirri stefnu að huga að heilsu Móður Jarðar t.d. með því að nota lífrænan áburð, notast ekki við erfðabreytingar og huga að velferð búfénaðar.

Plöntum trjám
Til að vinna á móti eyðingu regnskóganna og kolvísýringsmengun jarðar er mikilvægt að við reynum að stuðla að trjárækt þar sem því verður við komið.

Hendum ekki drasli á víðavangi
Það er vanvirðing við Móður Jörð að henda drasli frá sér hvar sem er. Alltof oft sést drasl á víðavangi þar sem við mennirnir höfum hent því frá okkur. Oft eru þetta umbúðir úr t.d. áli eða plasti sem eru mjög lengi að eyðast í náttúrunni. Elskum okkur sjálf og jörðina sem við göngum á og hættum að henda frá okkur drasli hvar sem er.

Lifum sem börn náttúrunnar
Neyslusamfélagið, sem við höfum komið okkur upp á Vesturlöndum, er ein af aðalástæðum þess að Móðir Jörð er ekki í sínu besta formi. Við tökum okkar „lífsgæðum“ sem sjálfssögðum hlut án þess að velta fyrir okkur  hvernig þessi lífsgæði eru tilkomin.
Drögum djúpt andann og reynum að hemja hvatir okkar í skyndibita,  nýjasta 70 tommu sjónvarpið, iphone, stærra hús, flottari bíl eða D&G tösku. Þessi óhóflega neysla stuðlar m.a. að eyðingu regnskóga, byggingu verksmiðja sem valda umhverfisspjöllum og frekari eyðingu á auðlindum Móður Jarðar.
Við höfum flest ágætlega í okkur og á og þurfum miklu frekar innri frið  en enn einn dauða hlutinn. Njótum þess að vera manneskjur og njótum lífsins án þess að ganga á auðlindir Móður Jarðar.

Hvetjum aðra til umhverfisverndar
Martin Luther King sagði „Hin eini sanni harmleikur er ekki kúgun og grimmd vondra manneskja heldur þögn og aðgerðarleysi góðra manneskja“. Það er mikill sannleikur í þessum orðum. Látum í okkur heyra ef okkur finnst gengið of nærri „heilsu“ Móður Jarðar.

Skrifað af Geir Gunnar Markússyni ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi