Líf er eldur

Hið sanna líf er lifandi blossi eða bál, ekki eyðandi, heldur skapandi eldur.
Að lifa er að starfa, að elska og yrkja, að skapa andleg og efniskennd verðmæti, taka virkan þátt í framþróunarstarfi höfundar lífsins. Takmark mannlífsins er vaxandi þroski, fullkomin heilbrigði, en ekki sjúkdómar.
Starfið göfgar og bætir hvern mann, eykur starfshæfni hans og fegrar sálarlífið og fullkomnar. Með því kemst maður í nálægð skapara síns og verður eins og einn samhljómur í strengjaleik allífsins. Með því skapast vaxandi vit, þróun og fullkomnun. Eigingirnin og sjálfselskan snúast ætíð gegn þeim, er hana elur í brjósti. Þessir eiginleikar eru eins og hrægammar, sem naga af limum fallins dýrs.

Að því er heilbrigði manna snertir, er aðeins um tvær stefnur að ræða. Hin fyrri og hin eina rétta er sú leið, sem höfundur lífsins hefir bent á. Hún er uppbyggingar- og þroskaleiðin. Hún stefnir upp á lífsins braut. Hin stefnan er niðurrifsstefnan, stefna sjúkdóma og hrörnunar. Það er leið undanhalds og eftirlátssemi við sjálfselsku og síngirni. En það er einnig leið vesaldóms og vansælu. Út úr þessu vanþekkingarforaði hafa menningarþjóðirnar reynt að bjarga sér með byggingu nýrra og stærri sjúkrahúsa, þar sem fram fer lækning hinna sjúku og aðeins er ráðist að sjúkdómseinkennum, en ekki að sjúkdómsorsökum.
Hin eðlilega afleiðing slíkra aðgerða er vaxandi mergð sjúkdóma, vaxandi kvillasemi og hnignun, þegar til lengdar lætur. En hvílík sæla og hamingjuauki er það að vera vakandi og gunnreif sál og finna eld gleðinnar og starfsþrárinnar streyma um æðar sér, að finna til gleði og tilhlökkunar yfir starfi komandi dags, yfir hinum vermandi sólaryl, útsýn til blárra fjalla, útsýn yfir hafið, ýft af öldum eða spegilslétt, yfir fegurð blómanna, söng fuglanna og suðu flugnanna, fjöri og leik alls heilbrigðs ungviðis og þrótti hins gróandi lífs, yfir vellíðan sinni og andlegu samræmi.
Ekkert annað en fullkomin heilbrigði fær slíku til vegar komið, það að vera frjáls vera, sem tekur þátt í hinu mikla framþróunarstarfi höfundar lífsins, vitandi vits um tilgang þess.
Forðizt sjálfselsku og síngirni. Þessar hvatir snúast gegn þeim, er þær elur í brjósti. Lögmál náttúrunnar er sú guðs rödd og hugsun, sem oss er skylt að hlýða. Öll heilbrigði og sæla mannlífsins er því skilyrði bundin, að vér skipum oss undir merki vaxandi þróunar mannlífsins, vinnum að göfgun þess og fullkomnun sælla lífs á jörðu vorri. Ef vér gefum líkamshreysti vorri réttan gaum, auðgum vér sálarlíf vort um leið.

Are Waerland Heilsuvernd, 4. tbl. 1946, bls. 11-12

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi