Liðagigt

Gigtarsjúkdómar eru, ef vel er aðgætt, ein röð eða hópur sjúklegra breytinga, sem koma aðallega af einni og sömu orsök: Eiturefnum, sem líkaminn átti að réttu lagi að hafa losnað við jafnóðum, en hreinsunartæki hans hafa ekki megnað að flytja burtu. Þessi eiturefni myndast við brunann í líkamanum, og sum stafa af rangri næringu og óhollum lífsvenjum.

Meðal frumstæðra þjóða, sem lifa náttúrlegu lífi, eru hófsamar, nægjusamar og neyta náttúrlegrar fæðu, eru þessir sjúkdómar óþekktir eða því sem nær. Þeir fylgja sjúklegum lífsvenjum menningarþjóðanna eins og skugginn og valda þeim margri skráveifu. Þeir eru með allra algengustu kvillum, koma fyrir í ýmsum líffærum og ýmsum myndum og eru ýmist bráðir eða langvinnir og seigpínandi. Þeir leggja suma menn í rúmið undir eins. Aðrir skríða á fótum, en eru hvergi nærri heilir menn eða fyllilega starfhæfir, og þeim er fyrirmunað að njóta lífsins. Þeir grípa til ýmissa ónáttúrlegra ráða til þess að hafa viðþol, t.d. eiturlyfja, sem gera sjúkdóminn verri og langvinnari.

Gigtarsjúkdómar eru nefndir ýmsum nöfnum, eftir því hvar í líkamanum þeir hafa helzt bólfestu. Þannig tala menn um vöðvagigt, taugagigt, liðagigt, taugaverki. Skyndileg gigtarköst kalla menn þursabit (hekseskud), læragigt (iskías) o.s.frv. En upphaflega orsökin er jafnan ein og hin sama, eitursöfnun í líffærunum.

Þegar um bráða liðagigt er að ræða, samfara sótthita, eru sýklar vanalega með í spilinu. Koma þeir oftast frá einhverju sýktu líffæri eða eiturvilpu innan líkamans, þar sem þeir hafa fundið hentugan jarðveg til að lifa og tímgast í. En ef viðnámsþróttur líkamans bilar, t.d. eftir ofkælingu eða mikla áreynslu, grípa sýklarnir tækifærið og herja á önnur líffæri, eins og liðamótin, og valda þar bólgum og öðrum sjúklegum breytingum.

Orsakir bráðrar liðagigtar eru því tvíþættar:

1. Minnkað mótstöðuafl vegna rangrar og ónáttúrlegrar næringar og annarra ónáttúrlegra lifnaðarhátta, vegna eitursöfnunar í líkamsvefjunum og vegna veiklunar af of miklu erfiði, ofkælingu eða öðrum sjúkdómum, svo sem inflúenzu, skarlatssótt o.fl.

2. Sýklaútrás frá einhverju sýklahreiðri, t.d. bólgnum og gröfnum kokeitlum, greftri undir tönnum o.s.frv. En þar er orsökin einnig fyrst og fremst rangt mataræði og aðrar óhollar lífsvenjur.

Sjúkdómseinkennin eru mörg og margvísleg: Almenn vanlíðan, magnleysi, skjálfti eða hrollur, lystarleysi, verkjaíhlaup um líkamann til og frá, höfuðverkur, ógleði, kuldi í bakið. Svo koma bólgur í liði, ekki sízt í hin stærri liðamót, eins og hné og axlir, mjaðmaliði, olnboga og ökla, en oft í hendur, einkum ef unnið hefir verið nýlega erfiði með höndunum. Verður þá svo að segja algert magnleysi og lömun í aðliggjandi vöðvum, meðan bólgan er mest.

Það varðar miklu, að sjúkdómur þessi sé tekinn réttum tökum þegar í byrjun. Sjúklingurinn þarf að hafa gott og hlýtt rúm, góða aðhlynningu og ferskt og hreint loft. Meðan hitasóttin varir, má sjúklingurinn helzt ekki neyta fastrar eða fljótandi fæðu, nema ávaxtasafa, ef til er, eða grænmetissafa og grænmetisseyðis. En hann þarf að drekka mikið af volgu vatni. Einn bezti drykkurinn er seyði af góðum kartöflum (með hýði), ennfremur te af ýmsum jurtum, nýjum eða þurrkuðum. Veitir ekki af að drekka um glas á klukkutíma fresti yfir daginn af einhverjum þessara drykkja. Þegar svo sjúklingurinn má fara að nærast aftur, á hann að lifa sem mest á nýjum aldinum, ef til eru, lifandi, ósoðnu grænmeti, blaðjurtum og rótarávöxtum og hráum kartöflum, ennfremur nýmjólk, súrmjólk, spíruðu korni og brauði úr grautum eða ósigtuðu mjöli, helzt nýmöluðu.

Takmarkið er að losa sjúklinginn við öll eiturefni, sem í líkamann hafa safnazt. Eitt þýðingarmesta ráðið til þess er að hreinsa ristilinn með volgu vatni (stólpípu), og þarf að gera það tvisvar á dag, meðan fastan varir og nokkur hitavottur er. Stólpípuna þarf að nota daglega, unz hægðir eru komnar í lag og tæming orðin eðlileg. En svo lengi sem hitasóttin varir, má sjúklingurinn ekki fá neina verulega næringu aðra en safa eða seyði af ávöxtum og grænmeti eða jurtum, eins og áður er sagt. Þetta er þeim mun meiri ástæða til að endurtaka og brýna fyrir fólki, sem flestir ímynda sér, að menn veslist upp, ef þeir eru matarlausir í nokkra daga. En föstur eru þvert á móti eitt allra kröftugasta læknisráð, sem til er við ýmsum sjúkdómum. Hitasóttarsjúklingum batnar fyrr en ella, og þeir hressast vel og verða lítt eftir sig.

Sjúka og bólgna liði þarf að vefja í dúka, undna upp úr heitu vatni, og yfir þá þarf að leggja vatnsheldan dúk. Ef unnt er að koma því við, er bezt að koma sjúklingnum í heitt bað á hverjum degi. Baðvatnið á að vera eins heitt og sjúklingurinn þolir án þess að finna til óþæginda. Meðan hitasóttin varir, er svalandi fyrir sjúklinginn, að honum sé þvegið upp úr hálfköldu vatni. Það dregur úr sótthita og er miklu heilnæmari aðgerð en hitastillandi lyf. Þau skyldu menn forðast eins og heitan eldinn, og lyf yfirleitt, því að þau draga undantekningarlaust úr lífsþrótti. En það er lífsþrótturinn, sem ræður meiru um bata en nokkuð annað. Það er ætíð neyðarúrræði að þurfa að grípa til eiturlyfja við hitasóttarsjúkdómum og gagnið vafasamt. Hitt er miklu þýðingarmeira að beita allri orku að því að hreinsa líkamann og útrýma öllum óhreinindum úr þörmum, húð, nýrum og lungum. Til þess er fastan nauðsynleg. Meðan á henni stendur, bætast engin ný eiturefni inn í líkamann, og þau eiturefni, sem eru í blóði og líkamsvefjum, fara minnkandi dag frá degi, ef ristillinn er hreinsaður daglega. Og menn verða að vera minnugir þess, að það er hreinleiki blóðsins, sem er undirstaða fullkominnar heilbrigði. Flest lyf innihalda eiturefni og tefja því fyrir hreinsuninni, og lyfjatrúin er að mestu leyti byggð á gamalli vanþekkingu. Vatnið tært og hreint er jafnan bezta hreinsunarefnið.

Þegar sjúklingar með bráða liðagigt fá ekki rétta meðferð, verður þeim lengi að batna, og getur orðið úr því langvinn liðagigt. Liðirnir verða smámsaman stirðir og krepptir. Og það er ekki fátítt, að alvarlegir hjartasjúkdómar komi upp úr liðagigt, ef hún er ekki tekin réttum tökum í tíma.

Bráð liðagigt er að verða fágæt, vegna þess að húsakynni og vinnuskilyrði eru orðin skaplegri en áður var. En þeim mun algengari eru hinir langvinnu gigtarsjúkdómar. Og þeir verða ekki læknaðir né þeim útrýmt, nema tekið sé fyrir orsakir þeirra. Hinar venjulegu sjúkdómseinkennalækningar láta orsakirnar afskiptalausar. Og sama er að segja um aðra menningarsjúkdóma yfirleitt. Orsakir þeirra eru rangt mataræði, ofát, óhollar nautnir og rangar lífsvenjur yfirleitt, og þessu þarf að breyta, ef verulegur eða varanlegur árangur á að nást í baráttunni við þá.

Maðurinn er frá upphafi jurtaæta, og við það er bygging meltingarfæra hans miðuð. Lifi maðurinn á slíkri fæðu óspilltri, verður engin rotnun í meltingarfærum hans. Hinsvegar valda kjöt og fiskur óumflýjanlega meiri og minni rotnun í þörmunum, sem verða aðaleiturvilpa líkamans. Eiturefnin síast inn í blóðið, og lifrin megnar ekki að koma í veg fyrir, að þau berist út um líkamann. Verður þetta þannig ein meginorsök allra hrörnunarsjúkdóma.

Gigtarsjúklingar verða að forðast öll nautnalyf, svo sem kaffi, tóbak, áfengi og te. Og loks er að nefna matarsaltið, sem er ein helzta meðorsök allra gigtarsjúkdóma og margra annarra kvilla, eins og það er almennt notað. Í venjulegum matvælum er nóg salt til að fullnægja þörfum líkamans, þótt engu salti sé bætt í matinn. En yfirleitt er saltneyzla fólks svo mikil, að líkaminn hefir ekki við að losa sig við það, sem umfram er. Saltið er að nokkru leyti uppleyst í líkamanum. En til þess útheimtist mikið vatn, 120 gr. á móti hverju grammi af salti. Og mikið af því, sem kallað er fita á fólki, er ekki annað en slíkt saltvatnskvap, sem reynir mikið á hjartað og fleiri líffæri og veldur fólki ýmsum öðrum óþægindum. Þá sezt nokkuð af saltinu út í ýmsa líkamsvefi, undir húð, í sinar og liðamót, og á sinn þátt í húðsjúkdómum, gigt o.fl. Saltið skapar óeðlilega matarlyst og á sök á daglegu ofáti. Það veldur einnig óeðlilegum þorsta og einkum löngun í sterka drykki og nautnalyf. Eitt fyrsta skilyrðið til þess að vinna bug á gigtinni er því að útrýma matarsaltinu algerlega úr matreiðslunni.

Húðræsting er eitt þýðingarmesta ráðið til að lækna liðagigt. Fyrir utan heit böð og bakstra ættu gigtarsjúklingar því að fá sér loftböð daglega, þvo sér upp úr köldu vatni og nudda hörundið vel á eftir með höndunum og með grófum bursta.

Undirstaða allrar heilsuræktar og Heilsuverndar er hreinleiki blóðsins. Hreint blóð er sá jarðvegur, sem í vex ekki aðeins heilbrigði, heldur hinir dýrlegustu ávextir andlegs þroska, skilnings og víðsýni.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1950.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi