Leitin

(Frh. frá Hv. 1953, 4. h.)

Það er aldagömul umsögn gamalla lækna, að hæpið sé að þeim takist að lækna sjúkdóma, sem þeir ekki vita af hverju stafa. Þekkingin er fyrsta atriðið til hvers, sem gera skal. Vanþekkingin veldur því, að vér förum alloft yfir tárhreinan lækinn og sækjum vatn í forarpoll. Þannig eru flestir sjúkdómar til orðnir. En ég hygg, að aldrei hafi mönnum tekizt verr en oss Íslendingum, er vér lögðum niður framleiðslu sauðamjólkur, en keyptum í hennar stað dýru verði frá Ameríku hvítan sykur, hýðisvipt hveiti og hrísgrjón, völsuð hafragrjón, sem eru orðin gömul og hálf fúin, er vér neytum þeirra. Þetta er orðin vor daglega fæða. Og svo furðum vér oss á því, að tennur í mönnum eyðileggjast, sár koma í magann, bólga í botnlangann og maginn springur. Sannarlega hefði hitt má heita undarlegt, ef tennur, magi og þarmar, hefði ekki bilað við neyzlu slíkrar fæðu. Það er engin tilviljun, að allir mögulegir hrörnunarkvillar sæki oss heim og þrífist eins og þeir væru ræktaðir, og það er raunverulega gert með röngum lífsvenjum; og umfram allt röngu mataræði. Þessu verður ekki breytt né bætt nema læknavísindin breyti um vinnubrögð og hefji leit að orsökum sjúkdómanna í stað einkenna.

Ég hafði tvennt í huga, er ég fór snögga ferð til útlanda síðastliðið haust. Í fyrsta lagi vildi ég kynna mér leirböð í Þýzkalandi og notkun þeirra, þó að ég vissi vel, að leirinn hafi lítinn eða engan lækningamátt fram yfir heitt vatn. En fólkið trúir nú á lyfin og leirinn og geislamátt hans. En vér verðum umfram allt að kenna fólkinu, hvers vegna það verður veikt og af hvaða orsökum, og hver ráð eru til að útrýma sjúkdómunum; en það verður bezt gert með því að rækta fullkomna heilbrigði, en þar er forsjón lífsins bezti kennarinn. Ég trúi því, að þar sé lifandi jurtafæða öruggasta ráðið. Það er með oss menn eins og önnur dýr, að líf verður að nærast af lífi. Vér verðum að neyta lifandi og náttúrlegrar fæðu. Í öðru lagi vildi ég kynna mér aðallega tvær fæðutegundir, sem hafa verið gerðar að verksmiðjuiðnaði. Það eru hvítur sykur og völsuð hafragrjón. Ég vissi fyrirfram, að sykur og völsuð hafragrjón eru dauð fæða og þess vegna viðsjál, og þó sérstaklega sykurinn. Hinn hvíti sykur er runninn úr sykurrófum. Þetta fer fram í geysistórum verksmiðjum og vélaútbúnaði. Mér var kunnugt um, að verksmiðjueigendum er illa við, að utanaðkomandi menn kynni sér þennan verksmiðjuiðnað, en ég þekkti fólk, sem var kunnugt verksmiðjueigendunum, og fékk leyfi til að skoða verksmiðjurnar í skjóli þeirra. Úti fyrir stóðu hlaðnir bílar af sykurrófum, og voru þeir tæmdir inn í verksmiðjuna jafnóðum og rúm leyfði. Þar voru þær þvegnar, án þess að vera snertar manns hendi. En svo eru þær allt í einu komnar upp á efstu hæð byggingarinnar og koma þaðan sundurtættar í örsmáar flísar. Þær renna eftir opinni rennu niður í marga sjóðandi potta á næstu hæð. Þegar sykurleðjan kemur úr pottunum, er leitt saman við hana sístreymandi hvítur vökvi, sem mér skildist að mundi kalk og önnur efni. Þessu var ekki auðvelt að fylgja, en út úr vélunum koma kristölluð smá korn, strásykur. Er þetta er orðið þurrt, er það sett í poka og flutt burt. Sykurinn er líka steyptur í stórar plötur, sem eru sagaðar í sundur í mola. Þarna er lifandi sykurrófunum breytt í dauðan gervisykur. En því fer fjarri, að það geti talizt lifandi fæða. Það er líka svo, að á þessu sykurefni getur engin lifandi skepna lifað einvörðungu. Ef maður ætti aðeins að neyta þessa sykurs einn dag, verður hann fárveikur, og efasamt, að hann yrði jafngóður. Sykurinn á langmestan þátt í myndun ólæknandi sjúkdóma, t.d. tannveiki og þrota í slímhúðum.

Nálægt Kaupmannahöfn er ein verksmiðja, sem framleiðir völsuð hafragrjón. Ég vildi fá leyfi til að sjá þessa verksmiðju og kynnast vinnubrögðum hennar. Mér var sagt, að það gæti orðið erfitt að fá aðgang að þessari verksmiðju, og ég bað því sendiherra vorn að sjá um, að ég fengi leyfi til að kynnast þessum verksmiðjuiðnaði. Þessu var neitað, en mér leyft viðtal við forstjóra verksmiðjunnar næsta dag. Ég mætti þar á ákveðnum tíma, og tók hann kurteislega á móti mér. Ég lét í ljós undrun mína yfir því, að hann ætlaðist til, að maður keypti vöru hans án þess að fá að vita, hvaða breytingar væru á henni gerðar. Hann sagði, að ég skyldi spyrja um það, sem ég vildi vita, hann mundi svara. Ég spurði hann, hvað hafragrjónin væru hituð mikið, áður en þau væru klemmd (völsuð). Þessu kvaðst hann ekki geta svarað. Það vissi hann ekki. En hann bætti því við, að þau væru talsvert hituð, af því að vér verðum að drepa kímið í korninu. Það var einmitt þetta, sem ég vildi fá að vita. Ég átti von á þessu. Með þessu eru öll vítamín kornsins gereydd, og vér fáum dauða fæðu í staðinn fyrir lifandi. „Nei, vítamínin lifa fyrir það,„ sagði forstjórinn. „Vér verðum að ná fitunni út úr korninu, svo að það þráni ekki við geymslu,„ bætti hann við. Varð um þetta nokkur kappræða. Sagði ég honum að lokum, að hann mundi ekki fá neinn manneldisfræðing á sitt mál. Ég spurði hann ennfremur, hvort þeir bættu nokkrum efnum við grjónin. Hann kvað já við því. Hann sagði, að þeir bættu í það kalki, járni og fleiri efnum, sem ég man ekki. Ég kvað það lélegar umbætur, því að maður gæti ekki lifað á dauðum málmum. Ég hélt því fram, að öll fæða, sem svipt væri lífi sínu með ofhitun, missti þar með sína beztu kosti. Ég benti honum á, að húsdýr vor þrifust vel á lifandi grasi. Þau mundu ekki þrífast svona vel á því, ef það væri soðið eða ofhitað.

Ég vildi kynnast þessu betur með hafragrjónin og fékk kunningja minn til að fara með mér út á land og heimsækja bændur. Ég spurði eina tvo bændur, hvernig þeir fóðruðu hesta sína, hvort þeir gæfu þeim hafra. Þeir kváðu já við því. Þeir sögðust valsa hafrana, og fékk ég að sjá, hvernig það var gert. Þetta var unnið með lítilli vél. Ég fékk dálítið af þessum völsuðum hafragrjónum í poka. Þetta var soðið í eina mínútu eða svo. Þetta var ilmandi matur og margfalt betri en önnur hafragrjón, sem ég hefi bragðað. Ég verð að geta þess hér, að mikið af þeim hafragrjónum, sem hér eru seld sem boðleg vara, er verulega skemmd fæða.

Ég kalla það kröpp kjör, að öll vara, sem vér Íslendingar seljum til útlanda, er stranglega metin, hvort sem hún er æt eða óæt, en vér látum oss sæma að kaupa lélega fæðu til manneldis án þess að hún sé metin til kosta. Þetta er óþolandi ástand og sýnir bezt, á hve lágu þroskastigi vér stöndum, hvað snertir heilsurækt og heilsuvernd. Vér eigum þess engan kost að tryggja oss góða matvöru erlendis frá. Sennilega væri þörf á því, að vér hefðum vel lærðan erindreka í útlöndum til þess að meta kosti þeirra fæðutegunda, sem vér flytjum inn. Þannig er öll niðursoðin fæða dauð fæða og óhæfileg til manneldis.

Það er næsta lofsvert, að upp á síðkastið hefir verið flutt inn talsvert af lifandi ávöxtum, og tel ég það vott þess, að stjórnin sé farin að skilja, hvaða þýðingu lifandi fæða hefir fyrir heilsu og táp landsbúa. Allt fram að þessari stundu höfum vér ræktað sjúkdóma frekar en fækkað þeim. Ég fullyrði, að sjúkdómar eins og sálsýki, hjartasjúkdómar, krabbamein og innvortis truflanir stafa að mestu leyti af neyzlu dauðrar fæðu. Ef vér ætlum að snúa við og endurreisa heilsu vora og lífstáp, verðum vér að gera kröfu til lifandi fæðu um fram allt. Upp á síðkastið er sumt af rúgi og hveitikorni svo þroskalítið og úr svo lélegum jarðvegi, að það skortir frjómagn til þess að endurnýjast. Það hefir mikla þýðingu að geta flutt inn lífskröftuga og þróttmikla kornvöru.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1954.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing