Í vikunni smellti ég mér í fyrsta skipti í leirböðin á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði. Mig hafði lengi langað til að prófa að fara í leirbað, bæði vegna þess að ég hef heyrt um jákvæð áhrif þess og einnig finnst mér aðstaðan alveg sérstaklega falleg og óvenjuleg, í sínum “seventís” litum.
Eftir að hafa verið sein á ferð og keyrt yfir heiðina í 20 metrum á sek. var ég fegin að komast á leiðarenda og fá afhentan slopp og loforð um slökun. Ég tók með mér vinkonu mína sem var afar spennt að prufa þetta fyrirbæri, enda hefur hún verið að kljást við húðvandamál líkt og ég. Við fengum þau fyrirmæli frá Margréti Haraldsdóttur, sem starfar við leirböðin að afklæðast og koma svo að leirbaðinu. Við vorum örlítið feimnar er við komum þarna alsnaktar og stigum ofan í leirinn. Okkur var sagt til um hvernig við ættum að koma okkur fyrir og settumst í baðkar fullt af leir sem er hitaður upp svo að hann er mjög notalegur í viðkomu. Margrét sagði okkur að leirinn væri sóttur á hverasvæði upp í fjalli í nágrenninu, sem okkur fannst auka á gæðin.
Eftir að hafa legið og slakað á í baðinu í þónokkurn tíma, fundið hitann smjúga inn í líkamann og leirinn vinna á útbrotum, stóðum við upp og leirinn var spúlaður af okkur vel og vandlega. Ég fann strax að húðin tók vel í þetta og var mýkri eftir að hafa verið að hegða sér afar undanlega síðustu misseri. Eftir baðið fórum við í slökunarherbergið þar sem okkur var pakkað inn af indælum indverskum manni, streitan lak af mér og ég náði að hvílast vel. Eftir leirbaðið og ferð í sundlaug Heilsustofnunar keyrðum við löturhægt til baka yfir heiðina í sama roki og rigningu en núna sáttar og sælar.
Af þessu að dæma og húðinni síðustu daga er leirinn greinilega máttugur og hefur verið vinsæll sem maski og nýverið í tannkremi. Eftir ýmsar athuganir á veraldarvefnum og fyrirspurnir tók ég saman lista yfir það sem leirinn getur hjálpað til við:
Vinnur gegn exemi: Hægt er að nota leir við útbrotum, moskító bitum og öðrum húðvandamálum vegna þess að hann minnkar ertingu.
Við gigt og bólgum: Hitinn og leirinn vinna vel saman svo hitinn gengur langt inn í líkamann sem er gott gegn verkjasjúkdómum og bólgum af ýmsu tagi.
Gefur húðinni næringarefni: Það eru ótal steinefni í leir sem ganga inn í húðina í leirbaðinu.
Skrúbbar húðina varlega: Nuddaðu leirnum í húðina á handleggjum þegar þú stendur upp úr baðinu til að losa dauðar húðfrumur.
Minnka bauga og poka undir augum: Spyrðu hvort þú megir ekki setja smá leir framan í þig. Settu þykkt lag af leir undir augun leyfðu honum að vera í að minnsta kosti 20 mínútur og þrífðu hann svo af.
Losna við bólur: Þegar húð er með bólur gefur það til kynna að þú eigir ekki að nudda hana. Leyfðu húðinni að vera í friði en settu leirinn á til að róa hana.
Losna við magaverk: Einhvers staðar las ég að ef einhverjum er illt í maganum er gott ráð að bera leir á magann og leyfa honum að sitja þar í þónokkurn tíma. Hann mun taka til sín óæskileg efni og róa magann.
Losna við bakverki: Hægt er að nota leir á hrygginn til að róa niður taugarnar sem valda verkjum. Þegar fólk er að ganga í gegnum erfiða tíma þá er gott að setja þykkt lag af leir á hrygginn og slaka þannig á miðtaugakerfinu.
Fleiri myndir á instagrami Náttúrulækningafélagsins
Dagný Gísladóttir ritstjóri
Heimildir:
http://naturopathycure.com/Mud-Therapy-Benefits.php
http://www.telegraph.co.uk/beauty/skin/the-benefits-of-taking-mud-baths/
http://intothegloss.com/2015/04/clay-in-beauty-treatments/