Leið út úr ógöngum – Hugleiðingar um tóbaksnautn

Það skal tekið fram í upphafi, til þess að forða öðrum frá því ómaki að lesa þessa grein, að hún er eingöngu rituð fyrir þá, sem vilja venja sig af reykingum, hvort sem þeir hafa gert tilraun til þess — og gefizt upp — eða ekki. Þess vegna verður alveg látið hjá líða að ræða um þá frelsisskerðingu, óhollustu og peningasóun, sem reykingum eru samfara. Það er innileg ósk og von þess, sem ritar, að greinin geti orðið einhverjum að liði í baráttunni við tóbakslöngunina.

Margir hafa sagt við mig: Eg veit, að það er óhollt að reykja, en ég get ekki hætt því. Eg vildi, að ég hefði aldrei byrjað á því." Satt er það, að bezt er að taka aldrei upp þann vana, en ekki þarf að örvænta, þótt svo ólánlega hafi viljað til. Hvernig er líka unnt að vænta sigurs í orustu, ef hún er viðurkennd töpuð, áður en hún hefst? Nokkra menn þekki ég, sem unnu orustuna, af því að þeir vildu og voru fastráðnir í að sigra. Nú munu margir segja: "Þetta geta ekki nema stöku menn, sem gæddir eru miklu viljaþreki." — Því er til að svara, að enginn sæmilega andlega heill maður er svo aumur, að hann megni þetta ekki eða geti ekki látið á móti sér um óákveðinn tíma, — ef hann vill og ef hann langar á annað borð til að hætta reykingum. Hvað eiga þá hinir "viljaveiku" að gera? Hvernig geta þeir vanið sig af reykingum?

Fyrir einum tveimur árum las ég smágrein í amerísku kvennablaði ("Woman", árg. 1947). Minnir mig, að greinin héti: "Hvernig losna má við slæmar venjur" ("How to Break Bad Habits"). Höfundur greinarinnar er prófessor í sálfræði. Tekur hann dæmi af reykingum og lýsir því, hvernig hann vandi sig af þeim. Finnst mér greinin vera þess virði, að efni hennar (eftir minni) komi fyrir augu lesenda "Heilsuverndar", sem hefir oft birt fróðleik um áhrif tóbaks á líkamann. En tóbaksvaninn er ekki síður andlegur en líkamlegur, eins og skýrt kemur fram hér á eftir.

Höfundur greinarinnar reykti mikið og taldi æskilegt heilsu sinnar vegna að venja sig af tóbakinu. Ekki treysti hann sér til að hætta umsvifalaust, áleit sig ekki nógu viljasterkan til þess. Sem sálfræðingur gerði hann sér ljóst, að reykingar lúta ýmsum ákveðnum venjum, eru með öðrum orðum andlegur ávani að talsverðu leyti. Leit hann nú í eiginn barm og sá, að hann fylgdi háttbundnum hreyfingum, er hann tók vindlingapakkann upp úr vasanum, opnaði hann, tók úr honum vindling, lét hann upp í sig, kveikti í o.s.frv. Höfundur hugsaði nú sem svo, að beinast lægi við að brjóta hvern hlekk þessarar vanakeðju af öðrum. Ákvað hann að ljúka "verkinu" á einum sex mánuðum.

Höf. var vanur að sitja hjá reykingaborði við lestur heima hjá sér, svo að hann þurfti ekki annað en rétta út höndina eftir vindlingi, er löngunin gerði vart við sig. Nú færði hann borðið og stólinn sitt í hvort horn stofunnar, og stundum geymdi hann vindlingana í öðru herbergi. Þurfti hann því að rísa á fætur til að ná sér í vindling. Fór þá oft svo, að hann sat fremur kyrr en baka sér þá fyrirhöfn. Þarna rákust tóbakslöngunin og næðisþráin á. — Oft hætti hann í miðju kafi, er hann tók vindling upp úr pakkanum, og stakk honum aftur í pakkann án þess að kveikja í. Stundum fór hann lengra, lét vindlinginn upp í sig og kveikti á eldspýtu, en slökkti á henni og hætti alveg við að reykja í það sinnið. Einnig kom það fyrir, að hann kveikti og slökkti einu sinni eða oftar á eldspýtu, áður en hann lét verða af að kveikja í vindlingnum.

Enn tók hann upp á því að stinga vindlingapökkum og eldspýtum í ýmsa vasa á víxl. Varð honum þá leit að þeim í hvert sinn, er hann ætlaði til að grípa. Fékk hann þannig svigrúm til að hugsa sig um og átta sig. — Þetta atriði er mikils virði, því að sennilega er vasinn algengasta tóbakshirzla karlmanna. Kvenþjóðin gæti sjálfsagt notfært sér þetta ráð á þann hátt að nota hin ýmsu hólf í handtöskum sínum fyrir felustað. — Svigrúmið, sem þannig fæst, má notfæra sér til að beina huganum á æðri brautir, láta háleitar hugsanir rýma burtu, eyða tóbakslönguninni.

Þetta er rétt að skýra nokkru nánar. Þegar miður hollar hugsanir eða óvelkomnar sækja á hugann, verður mörgum á sú yfirsjón að berjast gegn þeim, reyna að bæla þær niður. Stundum tekst þetta í bili, og hugsanirnar grafast niður í undirvitundina, en eru að vörmu spori komnar upp á yfirborðið aftur með auknu afli. — Mótspyrnan gerir þannig ekki annað en næra þær. Til allrar hamingju er til hentugri aðferð og vænlegri til árangurs. Í stað þess að berjast hinni vonlitlu baráttu gegn ásækjandi hugsunum og löngunum og álasa sjálfum sér fyrir viljaleysið, einbeitir maðurinn huganum að einhverri hollri hugsun eða hugsjón, sem honum er kær. Þeir, sem trúhneigðir eru, t.d., geta hugsað um Guð eða Krist, og allir eiga sér einhverja hugsjón. Þannig eru hinar miður hollu hugsanir eða langanir lokaðar úti, því að yfirleitt kemst ekki nema ein ákveðin hugsun fyrir í huganum í einu. Með nokkurri æfingu verður þessi "aðgerð" auðveld og mjög svo tiltækileg og sigurvænleg. Má grípa til hennar í hvaða hugsanaglímu sem er.

Á þann hátt, sem að ofan segir, ruglaði höfundur öllum vanahreyfingum sínum, er snertu reykingarnar, og fækkaði jafnframt vindlingunum smátt og smátt. Á tilskildum tíma var hann laus úr viðjum tóbaksins, fastráðinn í að lúta því yfirvaldi aldrei framar.

Eins og áður er getið, er vandamálið að talsverðu leyti andlegt, því að hugurinn (meðvitundin) segir til um tóbakslöngunina. Gæti því hugsazt, að hún væri oft á tíðum ímyndun. Mönnum finnst þeir þurfi að reykja. Fyrsta skilyrðið til að venja sig af reykingum hlýtur því að vera hugarfarsbreyting. Menn verða að gera upp við sig, að þeir vilja af heilum huga hætta að reykja, og þeir verða að vera sannfærðir — án efasemda — um það, að þeir geti gert þetta. Í þessu efni dugir engin hálfvelgja og getur ekki leitt til annars en vonbrigða og hneisutilfinningar eftir misheppnaða tilraun. Eru dæmi þessa fjölmörg og deginum ljósari.

Hér mætti enn taka í þjónustu sína þann þátt sálfræðinnar, sem nefndur er sjálfsefjun. Þarf enginn að skammast sín fyrir það. Meðan menn eru að búa sig undir að stíga lokaskrefið, getur þeim orðið mikið lið að því að láta hugann reika fram til tiltölulega náinnar framtíðar og leika sér við eftirfarandi hugsun eða hugarmynd (eða eitthvað því líkt): Þeir sjá sjálfa sig stadda í samkvæmi eða með kunningjum. Þeim er boðið að reykja, en nú hrista þeir höfuðið og afþakka boðið vingjarnlega, en ákveðið, og bæta við: "Eg er alveg steinhættur að reykja og má ekki til þess hugsa að byrja á því aftur. Mér líður svo miklu betur, síðan ég hætti því, og finnst ég líka vera frjálsari maður." Einnig ætti mönnum að vera gagnlegt að hugsa með sjálfum sér, að tóbaksnautnin sé að verða þeim ógeðfelldari með hverjum deginum, sem líður. Bezti tíminn til þessara hugleiðinga er tvímælalaust háttatíminn. Ef maður sofnar út frá þeim, mun undirvitundin halda áfram að vinna að svipuðum hugleiðingum, meðan líkaminn sefur. Má líkja þessu við að undirbúa vanræktan jarðveg undir nýjan og þarfari gróður. Mjög mundi það auka á gildi þessara hugleiðinga, ef menn tryðu því í hjarta sínu — án efasemda — og þeir vissu — án þess að þurfa að beita sig nokkurri þvingun til þess — að þessi mynd verði sönn með tímanum. Þeir mundu komast að raun um, að lokaskrefið verður furðulega auðstigið, því að hverri hugsun eykst styrkur, eftir því sem hún er oftar hugsuð.

Ef viljinn er nógu sterkur og einlægur, mun vafalaust bezt að varpa frá sér tóbakinu án tafar og umsvifalaust (nema reykingarnar hafi valdið verulegri tóbakseitrun í líkamanum, en þá mun tryggara að fara hægar í sakirnar). Þá stendur baráttan ekki lengi. Reynslan bendir til þess, að þau andleg (og líkamleg) óþægindi, sem tóbakssviptingin veldur fyrst í stað, séu að jafnaði horfin eftir tvær til fjórar vikur. Ýmsir halda því fram, að þessi raun verði auðveldari, ef menn taki fyrst upp jurta- og mjólkurfæði, því að þá hafi þeir minni "þörf" fyrir svokallaða hressingu (t.d. eftir mat). Einnig á að vera gott ráð að tyggja rúsínur, er tóbakslöngunin gerir vart við sig, til að dreifa huganum.

Ef viljaþrekið skyldi vera takmarkað, enda þótt löngunin til að hætta reykingum sé fyrir hendi, virðist sjálfsagt að reyna aðferð höfundar greinar þeirrar, sem að ofan getur. Þar er hugarfarsbreyting einnig bráðnauðsynleg og fyrsta skilyrði góðs árangurs. Að öðru leyti er aðferðin fólgin í þessu tvennu: 1) að gera sér erfiðara fyrir að fullnægja tóbakslönguninni og 2) að komast úr skorðum þeirra vanahreyfinga, sem reykingarnar lúta. Úr því er leiðin til frelsis auðrötuð og ætti að vera hverjum og einum vel fær.

Mjög yrði það vel þegið, ef þeir, sem reyna með góðum árangri aðferð þá, sem hér er lýst, vildu senda tímaritinu HEILSUVERND stuttorða frásögn eða yfirlýsingu um það. Mundi það verða öðrum til ómetanlegrar uppörvunar og hjálpar í baráttunni. — Hjálpum hver öðrum! —

Minneapolis, 31. maí 1949

Vilhjálmur Þ. Bjarnar.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi