Lausnin á gátu sjúkdómanna

Fram að síðustu árum hefir það ekki þótt hlýða, að alþýðumenn eða aðrir en læknar legðu orð í belg um heilbrigðismál eða læknisfræðileg mál. Þau hafa þótt alger sérmál lækna, og próflærðum læknum einum fært eða sæmilegt um þau að fjalla.

En nú hafa í ýmsum löndum komið fram vel menntaðir menn aðrir en læknar, sem ræða og rita um heilbrigðismálin, gefa út rit og bækur um þessi efni og það af þeirri þekkingu, að læknar mættu þykjast vel sæmdir af. En mörgum læknum er þetta þyrnir í augum. Þeir kunna því illa, að aðrir þykist vita jafnvel eða betur en þeir. Spinnast út af þessu deilur, þar sem læknar standa nokkuð höllum fæti, ekki sízt vegna þess, að þeir eru sjálfir innbyrðis ósammála um veigamikil atriði heilbrigðismálanna. „Dissentiunt medici“, segir gamalt latneskt orðtæki. „Læknar eru ekki á einu máli“. Auk þess er læknisfræðin alltaf að breytast. Margt af því, sem áður var talið óræk vísindi, er nú álitið rangt.

Einn þeirra manna, sem mikill styr stendur nú um, er ARE WAERLAND, sem ég sagði nokkuð frá í síðasta hefti. Waerland hefir verið fundið það til foráttu, að hann hafi ekki tekið próf í læknisfræði. Þetta er rétt. Og ástæðan er sú, að hann ætlaði sér aldrei að verða læknir og þurfti því ekki á prófstimpli að halda. En í hálfa öld, eða frá tvítugsaldri, hefir hann lagt stund á læknisfræði og manneldisrannsóknir. Hann hefir varið allri starfsævi sinni í það að komast að hinu sanna um orsakir sjúkdóma. Og hann þykist hafa leyst þá gátu. Eftir þennan langa náms- og rannsóknarferil er Waerland orðinn svo vel að sér í læknisfræði, lífeðlis- og líffræði, að þar stendur hann flestum próflærðum læknum og prófessorum framar. Waerland telur sig ekki lækni.
En ég hika ekki við að fullyrða, að ef læknisfræðin færði sér í nyt rannsóknir og uppgötvanir hans og færi að hans ráðum, mundi það nægja til að útrýma meginþorra allra sjúkdóma. Ég er Waerland samþykkur um það, að á heilsufari manna verður ekki varanleg bót ráðin, fyrr en alþýða manna lærir sjálf undirstöðuatriði heilsuverndar og hættir að trúa í blindni á lyfjakreddur og aðrar „kúnstugar“ læknisaðgerðir. Það er of seint að lækna, þegar heilsan er farin. „Betra er heilt en vel gróið“. Og auk þess fæst sjaldan full græðsla fyrir lyfin ein eða aðrar aðgerðir á sjúkdómseinkennum, meðan orsakir eru óþekktar eða ekki um þær skeytt.
Það eitt kemur að fullu gagni að leysa gátu sjúkdómanna, finna orsakir þess, að menn missa heilsu sína, oft á unga aldri, eins og nú á sér stað um fjölda manna. Hve margir ungir menn fá ekki magasár og njóta sín aldrei síðan ævilangt og eiga styttri og ömurlegri ævi en vera mundi, ef þeir vissu betur.

Læknisfræðinni hefir því miður ekki tekizt að koma í veg fyrir hrörnunarsjúkdómana, og því ætti hún að taka með þökkum góðum bendingum, sem miða að útrýmingu þeirra. Og Waerland hefir einmitt tekizt að leysa þessa þraut. Hann hefir ráðið rúnir sjúkdómanna og orsaka þeirra, og hann hefir sannað það og sýnt svart á hvítu, þótt læknastéttin hafi ekki viðurkennt það enn sem komið er. Með þessu afreki tel ég Waerland hafa unnið til Nóbelsverðlauna frekar en nokkurn annan mann, er þau hefir hlotið.

Ég þekki engan lækni, sem gæti ekki að mínu áliti lært stórmikið af Waerland í sannri læknisfræði og framkvæmd starfs síns. Og sjálfur hefi ég auðgað læknisþekkingu mína stórlega við lestur bóka hans og af viðkynningunni við hann.

Jónas Kristjánsson.
Skrifað í ritið Heilsuvernd árið 1946 

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi