Læknisfræðin á viðsjárverðum tímamótum

Eins og nú er komið heilsu vestrænna þjóða, þar sem því nær ekki einn einasti maður er fullkomlega heilbrigður og grundvöllur hefur verið lagður að flestum sjúkdómum manna þegar á barnsaldri, er vissulega ástæða til þess að litast um eftir því, hvernig horfir um þessi mál. Svo mikið er víst, að þrátt fyrir allar framfarir læknisfræðinnar, þá vaxa sjúkdómar hræðilega ört. Um þetta hafa hinum mikla manneldisfræðingi Robert McCarrison farizt svo orð Vér lifum á tímum mikilla vísindalegra framfara á öllum sviðum læknisfræðinnar. En þrátt fyrir það fjölgar þeim þrotlaust er sjúkir verða, jafnframt því sem fleiri sjúkdómar bætast við í hóp þeirra er fyrir voru. Við þessu er þannig brugðizt að reisa ný og fleiri sjúkrahúsbákn og nota meiri og fleiri eiturlyf. En eftir sem áður fjölgar þeim, er engan bata fá sinna meina og lifa haldnir og deyja úr ólæknandi sjúkdómum.

Dr. Alexis Carrel, hinn kunni Nobelsverðlaunaþegi og höfundur bókarinnar „Man the unknown„ kemst svo að orði um hina vaxandi kvillasemi Það er engu líkara, en vér höfum orðið að endurgreiða þau mannslíf, er vér höfum hrifið úr klóm dauðans vegna næmra sjúkdóma með því að missa margfalt fleiri mannslíf eftir langvarandi kvalir úr illkynjuðum sjúkdómum, sem enginn ræður við að stöðva.

Vísindamaður hefur bent á, að til er tvennskonar heilsa. Annars vegar fullkomin heilbrigði, sem verður fágætari með hverjum áratug sem líður. Hinsvegar er gerviheilsa, sem sífellt þarf eitthvað að vera að lappa upp á. Og hin síðari tegund heilsu hlýtur að verða yfirgnæfandi, þar sem aðeins er gert við áberandi sjúkdómseinkenni, en ekki skeytt um orsakir hinnar vaxandi kvillasemi ˆ þar sem allt starf hins sívaxandi læknafjölda er fólgið í því einu að berjast við sjúkdómseinkennin, en þess ekki gætt, að sjúkdómar eru afleiðing af orsökum, og orsakirnar eru vont manneldi í langflestum tilfellum.

Þeir menn eru nú sem sagt örfáir, sem heila má telja, ef nákvæmlega er að gætt, enda þótt hið náttúrlega heilsufar allra manna sé fullkomin heilbrigði. Og orsökin er auðsæ. Hún er sú, að lífsvenjur manna eru ónáttúrlegar, og þó einkum það, sem mesta þýðingu hefur fyrir heilbrigði hvers manns, en það er mataræðið.

Fyrir tveimur tugum ára fór fram einstæð og áður óþekkt rannsókn á heilsufari manna í London, þar sem rannsakað var heilsufar manna upp og ofan í því skyni að fá heildaryfirlit um almennt heilsufar. Þrír læknar í London bundust samtökum um að framkvæma þessa rannsókn; voru nöfn þeirra Williamson, Pearse og Crocker. Þessum læknum var ljóst, að þegar talað er um góða heilsu, ef menn þykjast aðeins ósjúkir að mestu, þá er það næsta ónákvæmt mat. Enda kom það á daginn, að mestur hluti þeirra manna sem þóttust heilir heilsu, voru í raun og veru sjúkir menn, þegar vel var að gáð, og höfðu margir verið lengi krankir, jafnvel svo tugum ára skipti, án þess að vita af því. Einn eða fleiri sjúkdómar höfðu fest rætur í líkömum þeirra, þótt þeir hefðu ekki gert sér það ljóst. Sama varð uppi á teningnum á hinum fyrri heimsstyrjaldarárum við rannsókn fjölda manns á aldrinum 18-20 ára. Raunin varð sú, að 45% af öllum þessum piltum voru sjúkir menn, enda þótt hvorki þeir sjálfir né aðrir hefðu hugmynd um, ˆ m.a. af byrjandi æðakölkun. Þeir voru sem sagt á undirbúningsstigi þess að verða alvarlega sjúkir menn.

McCollum hefur kallað þetta undirbúningsstig „rökkurtímabil vanheilsunnar„. En dr. Bircher-Benner kallar þennan tíma, frá því menn taka sjúkdóminn og þar til hann krystallast, meðgöngutímabil sjúkdómanna. Þetta meðgöngutímabil getur verið mismunandi langt eða strangt; oft er það allt að því 20 ár, en sjaldan meira.

Til rannsóknanna, sem áður nefndir þrír læknar framkvæmdu, völdu þeir aðallega þorp eitt allstórt utan við London, sem heitir Peckham. Þeir tóku til rannsókna fjölskyldumenn á góðum aldri, 20-40 ára, í sæmilegum efnum, ekki stærri fjölskyldur en hjón með 3 börn, fólk sem hafði aðgang að leikvöllum, sundstöðum og öðrum lífsþægindum. Ekki voru aðrir þátttakendur en þeir sem gengust af fúsum vilja undir þessa rannsókn og skuldbundu sig til að mæta til skoðunar, þau 9 ár, sem tilraunirnar stóðu. Að þeim tíma liðnum voru reikningarnir gerðir upp, og varð niðurstaðan sem hér segir

91%, segi og skrifa, níutíu og einn af hverjum hundrað mönnum reyndust sjúkir menn. Aðeins 9% voru heilir. 60% þessara manna, sem sjúkir reyndust, vissu ekki annað um sitt eigið heilsufar en að þeir væru heilir og vel vinnufærir, en geymdu þó í líkömum sínum sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki, kvilla í maga, lifur, nýrum, hjarta, æðum, ˆ gigtveiki, berklaveiki, sjúka kokeitla, þandar bláæðar, blóðleysi o.s.frv. 23% kvörtuðu um lasleika og meiri eða minni veikindi, en gengu þó til vinnu án þess að vitja læknis. Ein 8% höfðu vitjað lækna og gengið til þeirra.

Um einn af þátttakendunum, ungan mann, 21 árs að aldri, er það að segja, að hann hafði lagt stund á íþróttir og taldi sig heilbrigðan, svo að hann hélt uppi æfingum og þá sérstaklega í hnefaleikum. En hann hafði 231 m.m. blóðþrýsting og alvarlegan nýrnasjúkdóm og enga hugmynd um hvernig heilsu hans var komið.

Sannarlega er það hræðileg staðreynd, að þessi nákvæma og vísindalega rannsókn um 9 ára skeið, skyldi leiða í ljós, að ein 9% þátttakenda voru ósjúk. Það er sem sagt alls ekki nein fullkomin sönnun fyrir því, að þessi 9% hafi einu sinni verið gersamlega heil og kvillalaus, því þar var nær eingöngu um unga karlmenn að ræða, og að liðnum öðrum níu árum eru öll líkindi til að leyndir sjúkdómar hefðu verið komnir í ljós. Þetta, að 60% skyldu vera sjúkir án þess að hafa hugmynd um það, er alvarleg ábending um það að taka með varúð þeirri fullyrðingu, að heilsufar vestrænna þjóða sé að batna, eins og haldið er fram í aprílhefti fréttabréfs Dungals prófessors. Það eru engar líkur fyrir því, að heilsufar þeirra sé að batna, og því miður hefur prófessorinn engar sönnur fyrir fullyrðingu sinni. Hitt mun sönnu nær að sú rannsóknarniðurstaða standist, að 91% allra manna, sem lifa við það sem kallað er sæmileg kjör, eru á leiðinni að verða sjúkir menn. Þeir koma ekki til lækna, fyrr en þeir eru orðnir svo að segja helsjúkir. Þannig fá menn botnlangabólgu alveg fyrirvaralaust, jafnvel börn á fjögra eða fimm ára aldri, eins og segir í skýrslu til landlæknis árið 1940 frá lækninum á Blönduósi, sem er efalaust í röð beztu skurðlækna landsins og hefur bjargað fjölda manns frá bráðum bana með hnífnum. En jafnvel þetta er ein sönnun þess, að heilsufar er lélegra en nokkur maður gerir sér grein fyrir.

Ég sem þetta rita og hef verið læknir um hálfan 6. tug ára get borið um það að fyrstu 5-6 árin sá ég aldrei botnlangabólgu í því héraði, er ég var settur til að þjóna. En svo fóru að koma eitt eða fleiri botnlangabólgutilfelli á ári. Og þannig mun þetta hafa verið í öllum héruðum þessa lands, og sigið æ meir á ógæfuhlið eftir því sem vér færðum oss lengra upp á skaftið með neyzlu ónáttúrlegra fæðutegunda, svo sem hins hvíta hveitis, sem svipt er öllum, blátt áfram öllum lífefnum, öllum grófefnum og mest öllum dýrmætum steinefnum, hormónefnum, auxonefnum o.s.frv. Af þessari eitruðu fæðu og sælgætisvörum er notað ekki minna á mann en allt að því 40 kíló á ári og hefur komizt upp í 45-48 kíló í árlegri neyzlu.

Enn fremur er svo flutt mikið inn af hvítum rísgrjónum, þótt sannað sé fyrir því nær 60 árum, að þetta er banvæn fæða, ef hennar er neytt sem aðalfæðu. Og nákvæmlega hið sama á sér stað um hvítt hveiti.

Ég get ekki hugsað mér meiri vanþekkingu og skeytingarleysi en að gera enga tilraun til að koma í veg fyrir innflutning slíkra fæðutegunda og neyzlu þeirra. Ég fullyrði, að meðal vestrænna þjóða séu hrörnunar- og úrkynjunarsjúkdómar þeir, er á oss sækja, blátt áfram ræktaðir með skaðlegum lífsvenjum og mataræði eins og þessu, sem læknar gefa engan gaum.

Þegar próf. Dungal heldur því fram, að heilsufar manna sé batnandi á síðustu árum, þá er það hin mesta fjarstæða. Áður hef ég bent á hinn öra vöxt botnlangabólgunnar, sem áður var óþekktur sjúkdómur. Sykursýki var ekki heldur til á Íslandi á miðjum síðasta tug 19. aldarinnar. Nú hefur þessi kvilli vaxið svo, að segja má að nemi 2000% á fyrstu tugum þessarar aldar. Villan hjá próf. Dungal liggur í því, að hann telur alla menn heilbrigða, þótt þeir kunni að hafa verið sviptir einu eða öðru líffæri. Hugsum oss allan þann fjölda manna, sem úr hefur verið skorinn mikill eða mestur hluti magans, eða alla þá, sem misst hafa flestar eða allar tennur. Sannleikurinn er sá, að þegar tennur í manni eða ungu barni verða fyrir skemmd, þá hafa um leið orðið sjúklegar breytingar í öllum líffærum undantekningarlaust. En um þetta kvartar líkaminn ekki fyrr en löngu síðar ef til vill. Þess er sem sagt ekki gætt, að meginþorri allra sjúkdóma, er á oss sækja, stafar af einni heildarorsök, en hún er ónáttúrlegt manneldi, ónáttúrleg fæða.

Ef vér gætum útrýmt hinum banvænu manneldisvörum, svo sem hvítu hveiti, hvítum sykri, hvítfægðum rísgrjónum, völsuðum hafragrjónum o.s.frv. ˆ í því formi, sem vér neytum þeirra ˆ væri þar með rutt úr vegi orsök flestra sjúkdóma, er á vestrænar þjóðir herja og ræna oss mergð af mannslífum árlega og tápi og þreki þorra manna.

Ég sé af krabbameinsbréfi Dungals prófessors, að hann sér enga aðra orsök til þessa sjúkdóms en tóbak og tóbaksreykingar. Auðvitað er þetta of einhliða. Veit ég vel, að tóbak er hið argasta eitur, en þar með eru ekki öll kurl komin til grafar, og eitt er víst, að þótt takast mætti að útrýma því, þá væri þó ekki öllum kvillum sem á oss herja þar með rutt úr vegi. Skæðasti óvinur lífs og heilbrigði er rangt manneldi, en krabbamein er síðasta snurðan sem snúin er af völdum þess á þráð lífs og heilbrigði.

Meðan læknisfræðin er starblind fyrir því, að starf hennar verður meira eða minna ófrjótt starf, svo lengi sem það beinist að því einu að gera við afleiðingar sjúkdóma, er þeir hafa gegnsýrt líkama mannsins, þá bregzt hún hlutverki sínu í þjónustu lífs og heilbrigði. Þér getið nefnt þá lífsstefnu, sem vill taka fyrir rætur sjúkdómanna, hvaða nafni sem þér viljið. Það raskar engu til eða frá. En þessi lífsstefna ein getur bjargað vestrænum þjóðum frá því að verða eftirbátar austrænna þjóða, sem erfa myndu jörðina vegna þess, að þær hafa gætt betur þess fjársjóðs, sem heilbrigðin er hverjum manni.

Mér er kunnugt um, að þekkingarsnauðir menn hafa hneykslast á orðunum náttúrulækningar og náttúrleg lífsstefna. En latneska orðið „natura„ er lifandi í máli allra menntaðra þjóða. Og það felur í sér hugmyndina um forsjón lífsins. Hún er ósýnilegur máttur í hverjum lifandi líkama, vörður lífs vors og verndari. Sjúkdómar, af hvaða tagi sem er, eru ekki annað en afleiðingar drýgðra yfirsjóna og afbrota gegn því lögmáli, sem allt líf á jörðu vorri er háð ˆ þeirri forsjón sem Móðir náttúra er hverju barni sínu.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Heilsuverndar 1955.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing