Nú er að nálgast enn ein jólahátíðin og rétt rúmlega vika til jóla þegar þetta er skrifað. Þetta verða mín fertugustu og níundu jól og alltaf eru þau spennandi og mikið fjör í kringum jólaundirbúninginn. Þó hefur spenningurinn minnkað með hækkandi aldri og nú er ég mest spenntur fyrir því að sjá spenningin í ungum dætrum mínum. Maður saknar smá þessar einlægu eftirvæntingar og spennu fyrir jólahátíðinni. Aldrei á ævinni hefur tíminn liðið jafnhægt og seinnipart aðfangsdags þegar maður sem lítill gutti var að bíða eftir því að jólin hæfust kl.18 og maður mátti fara að opna pakkana eftir matinn.
Það er yljandi að sjá öll jólaljósin og skreytingarnar sem fylla vistarverur og nágrenni okkar þessa dimmu desemberdaga. Það veitir ekki af smá birtu og ekki mundi skemma fyrir að jólasnjórinn kæmi líka til að gefa enn meiri birtu og fullkomna jólastemminguna. Það væri líka ekki leiðinlegt að komast á skíði um jólin milli þess sem maður fyllir sig af reyktu kjöti, jólaöli og konfekti.
Jólahátíðin er ein stærsta hátíð kristinna manna og fögnum við með henni fæðingu frelsarans. Þetta er hátíð ljóss og friðar en mikið svakalega höfum við gleymt þessum fallega boðskap sem jólin snúast um því stressið, pressan, eyðslan og neyslan er orðin algjörlega sturluð nú til dags.
Verslunareigendur eru búnir að ræna rólegu og friðsælu jólastemmingunni frá okkur með endalausum jólatilboðum, svörtum dögum, seríudögum, tax-free, stafrænum dögum, nettilboðum á nýjustu græjum, fötum og dóti. Mottó verslunareigenda er að jólin séu hátið „stórra gjafa og endalausra kræsinga“.
Það er mjög skiljanlegt að þeir sem reka verslanir geri allt til að selja vörur sínar og reki þannig farsælt fyrirtæki. Við Íslendingar eigum líka meiri peninga en við áttum fyrir nokkrum áratugum, kaupmáttur er meiri, það eru tvær fyrirvinnur og eitthvað verður fólk að gera við alla þessa peninga!
Það versta við þessi neyslujól er að þau veita okkur ekki það sem þurfum mest af öllu nú til dags en það er friður í hjarta. Við stöndum uppi með stútfullar geymslur og bílskúra af ónotuðu dóti sem við keyptum um jólin og herbergi barnanna full af dóti sem enginn leikur sér með. Við erum að reyna að fylla hálftóm hjörtu okkar af dóti sem er svo lítið notað. Það er mjög sorglegt en stærsta fórnarlambið í þessari neyslumenningu er Móðir Jörð sem þarf að borga þessu neyslu með sífellt meiri ágangi á hana, við erum að nálagst þolmörk þessarar móður okkar allra.
Við þurfum að fara að minnka þessa neyslu, fara inn á við og leita að friðum þar því hann finnst síst af öllu í verslunarmiðstöðinni. Einföldum lífið, búum til gjafir, endurnýtum, gefum þeim sem minna mega sín og gefum líka upplifanir sem eru oft þúsund sinni betri gjöf en eitthvað drasl sem endar inn í bílskúr fjótlega eftir jól.
Gamla jólalagið „Bráðum koma blessuð jólin“ lýsir vel nægjusömum jólum fyrr á tímum og segir m.a. „allir fá þá eitthvað fallegt í það minnsta kerti og spil“. Kerti og spil væri nægjanlegt til þess að skapa góðan jólaanda í hjarta og á heimilin, sérstaklega til þess að ná okkur niður á jörðina í neyslu nútímans. Með kerti og spilum á jólum væri hægt að skapa frábæra stemningu þar sem vinir og fjölskylda munu tengjast saman og njóta góðra stunda. Þessi stund mundi skapa hina fullkomnu jólastemmingu sem mundi næra alla andlega og virkilega skila gleði og frið í hjarta.
Nútíminn er því miður meira þannig að allir eru í sínu horni með símann sinn og virðast bara tengdir gerviheimi símans en eru nær ótengdir öllum lifandi mannverum í kringum sig. Þessi gerviheimur símanna skilar síst af öllu frið í hjarta, heldur galtómu neysluhjarta sem vill sífellt meiri af öllu og finnur aldrei friðinn.
Slagorð Náttúrulækningafélags Íslands er „berum ábyrgð á eigin heilsu“ og við það á mjög vel í þessu neyslusamfélagi þar sem við erum að gleyma heilsunni. Góð heilsa verður ekki keypt og andlega heilsa okkar mun ekki þakka okkur neitt ef við ætlum bara að eiga enn ein neyslujólin í boði verslunareiganda. Gerum þetta að kærleiksríkum jólum með minni neyslu og meiri friði.
Þessi jólagjafalisti er sá flottasti og nægjusamasti:
- Til óvina – Fyrirgefning
- Til andstæðinga – Umburðarlyndi
- Til vina – Tími
- Til ættingja – Samvera
- Til barna – Gott fordæmi
- Til mín – Virðing
- Til allra – Góðmennska
Tekið af kristinihugun.is
Eigið gleði- og friðarjól kæru lesendur.
Geir Gunnar Markússon, ritstjóri NLFÍ ritstjor@nlfi.is